Wednesday 13 December 2006

Grágæsarbringucarpaccio - ógleymanlegur forréttur

Hef verið á vaktinni síðustu daga og því lítið merkilegt átt sér stað í mínu eldhúsi, nema gengið hefur aðeins á skyrbirgðirnar - ég virðist vera með einhverja áráttu að kaupa skyr í hverri ferð út í búð - gleymi alltaf að ég á þetta í tonnavís í ískápnum.

Læt í staðinn forrétt flakka sem ég bjó til fyrst núna í október. Ég byrjaði að veiða fyrir rúmu ári síðan og ég hef veitt nokkrar gæsir í haust.

Grágæsabringucarpaccio

Rétturinn byggir á orginalnum sem er nautacarpaccio sem er nautalund borin fram þunnt skorinn og pressuð niður og krydduð með ferskum kryddjurtum og ólífuoliu. Stundum er lundinn steikt rétt að utan til að fá fallegt útlit á hana. Ég hef smakkað carpaccio nokkrum sinnum, bæði nauta, lamba, og höfrunga - alltaf mjög gott.

Fyrir fjóra sem forréttur. Grágæsarbringa er hreinsuð og lögð í extra virgin ólífuolíu, hvítlauksrif (bara nóg - more the merrier) kreist yfir, fersk bergmynta (oregano - en þurrkuð gengur líka - þar sem oregano er ein af fáum kryddjurtum sem heldur bragði sínu við þurrkun), ferskt timian, söxuð steinselja, Maldon salt og nýmalaður pipar. Þetta er sett í gott ílát og geymt í ísskáp helst yfir nótt.

Panna er hituð - þannig að það rjúki af henni - og bringunni velt yfir pönnuna þannig að hún brúnist aðeins á hverri hlið. Þetta á bara að taka augnablik þar sem hugmyndin er ekki að elda bringuna að neinu ráði. Bringan sett til hliðar og fær að hvílast í augnablik. Bringan er skorin í þunnar sneiðar og lagt á matarfilmu og önnur matarfilma lögð yfir. Bringan er pressuð vel með hendinni þannig að stærð hennar nær tvöfaldast. Sneiðarnar eru lagðar á disk og skreytt með ferskum kryddjurtum, ristuðum furuhnetum og spekkaðar með marineringsleginum.

Baguette, keypt eða heimagert, er skorið í sneiðar og pensluð með hvítlauksolíu og grilluð á grillpönnu eða í ofni á báðum hliðum er borið fram með réttinum.´

Ég ber þetta gjarnan fram með balsamikediki/kremi. Gert þennan rétt þrisvar sinnum og hann hefur vakið mikla lukku. Um að gera að drekka með þessu gott rauðvín (þetta á nú eiginlega alltaf við - sama hvaða mat er um að ræða)



No comments:

Post a Comment