Sunday 10 December 2006

Skyndibiti á sunnudagskvöldi.

Sonur minn er lasinn - upp og niðurgangspest - og svo virðist sem dóttir mín sé að verða lasinn líka, andskotans.

Tengdamóðir mín, Hrafnhildur, kom í heimsókn og leit eftir börnunum á meðan ég og konan mín skutumst í jólaglögg hjá vinafólki - veit ekki með glöggina - er ekki búið að sjóða allan vínandan úr þessu? Allavega...þá lofaði ég tengdó einhverju að borða og maður var ekki vel innblásinn til að gera eitthvað grandíós.

Kjúklingapastareddíng. Og ég meina redding!!! Á leiðinni heim úr glögginni var stoppað í Nóatúni - alltaf gaman að versla þar - nema þegar það kemur að því að borga - skiptir engu máli hvað ég kaupi - pokinn kostar aldrei minna en 2700 kall.

Keypti einn grillaðan kjúkling, dós af sýrðum rjóma bragðbættum með graslauk og lauk. Þegar heim var komið var Champignole pasta skrúfur soðnar í miklu vatni - vel söltuðu/og með dash af olíu. Þegar pastað var tilbúið var hellt af því og sett aftur í pottinn. Soðinu af kjúklingum var hellt yfir og kjúklingurinn hreinsaður - þeas kjötið hreinsað af beinunum - skorið niður og sett útí. Sýrða rjómanum var bætt saman við, saltað og piprað (auðvitað Maldon og ferskt nýmalaður pipar), og svo ferskri steinselju og graslauk sett saman við.
Borið fram með baguettu frá Nóatúni og parmesan osti.

Heppnaðist ferlega vel. Ekki hægt að biðja um fljótlegri og auðveldari eldamennsku en þetta.

Átti smá afgang eftir af Monte Galbi Ripasso frá því í gær sem drukkið var með. Passaði líka vel með þessum mat. Er eitthvað sem gott rauðvín passar ekki með??? (rhetorísk spurning og svör ekki velkominn)

No comments:

Post a Comment