Wednesday 27 December 2006

Fylltar kjúklingabringur með Knarrbrostadesósu

Mamma og pabbi bjuggu í nokkra mánuði í Kaupmannahöfn þar sem þau voru bæði í rannsóknarleyfi frá Kennaraháskólanum. Mér skilst að það hafi verið hálfslags listamannslifnaður á þeim. Þegar heim var komið eldaði mamma kjúklingabringur á pönnu og hafði með algerlega frábæra sósu, sem var hálfeinkennilega bleik á litinn. En hún var einstaklega góð. Mamma eldaði kjúklingabringur á einfaldan máta, saltað og piprað, og svo steikt á pönnu úr smjöri eða olíu. Ég hef reynt að herma eftir þessari sósu - og reynt að elda hana eftir minni. Það hefur gengið ágætlega - en ég hef ennþá ekki náð sama effect og mamma - en er mjög góð. Ég hef líka flækt kjúklinginn aðeins.

Ég eldaði þennan rétt seinast í haust...og var himinlifandi með útkomuna. Rétturinn er fyrir fjóra.
4 kjúklingabringur er þvegnar og lagðar á eldhúspappír og látnar þorna. Á meðan er fyllingin undirbúinn. Einhver góður ostur, t.d. höfðingi, gullostur eða bara camenbert, er skorinn í þykkar sneiðar, ferskar kryddjurtir, t.d. salvía, basil og steinselja er skorið niður og marið með smá salti - þá losnar bragðið auðveldar. Kjúklingabringur eru skornar á þverveginn - þannig að þær eru butterflied og hægt er að opna þær eins og bók. Næst er önnurhliðin smurð með paste úr sólþurrkuðumtómötum, osturinn er lagður á aðra hliðina, því næst er sett sneið af pepperoni grilliata - sem er ristaðar paprikur í olíu (þetta er bæði hægt að kaupa og búa til á einfaldan hátt) og svo ferskum kryddjurtum stráð yfir. Bringunni er því næst lokað. Núna er bringan vafin með beikoni (einnig gott að nota Serrano skinku eða Parma - ef maður tímir því). Beikonið er svo skorðað á bringuna með nokkrum tannstönglum.

Næst er sósan undirbúinn. 3-4 fjórir hvítlaukar kreistir og 1 lítill hvíturlaukur smátt skorinn er hitaður í olíu á pönnu. Þegar olían er orðin heit eru sveppir skornir í fjórðunga steiktir úr olíunni. Þegar þeir eru tilbúnir er 300 ml af vatni hellt yfir og 1 tengingur af kjúklingakrafti. Saltað og piprað. Þegar suðan er kominn upp er 100-200 ml af matreiðslurjóma hellt saman við og 1 lítilli dós af tómatpasta (eða sólþurrkaðatómatpaste). Saltað og piprað á nýjan leik. Ferskum kryddjurtum er bætt útí á þessum tímapúnti - sömu og fóru í fyllinguna á kjúklingum.  Þetta þarf að sjóða aftur og svo sjóða niður í 20-30 mínútur. Stundum þarf að þykkja sósuna aðeins.

Næst er olía hituð á annarri pönnu og bringurnar steiktar þannig að beikonið verði gullið og fallegt. Bringurnar eru settar í eldfast mót, sósunni hellt yfir og sett í heitan ofn 180 gráður þar til kjúklingurinn er eldaður - tekur yfirleitt 20 mínútur en ég er farinn að elda eftir hitamæli þannig að um leið og kjúklingur nær réttum hita í miðjunni er maturinn tilbúinn. Áður en maturinn er borin fram er mikilvægt að skreyta réttinn með ferskum kryddjurtum - niðurskorinn salvía, basil og steinselja - er stráð yfir. Það er ekki bara fyrir útlitið heldur gefur það réttinum annað lag af bragði. Mjög gott!

Borið fram með góðu brauði og salati. Bæði rauðvín og hvítvín passar vel með þessum mat. Þessi hentar vel þegar gestir eru að koma í mat.

No comments:

Post a Comment