Thursday 14 December 2006

Líbanskt innblásinn lambabollupottréttur með flatbrauði

Þegar við fjölskyldan fluttum í Skaftahlíðina fyrir tveimur árum gáfu vinir okkar - Haraldur kollegi minn og Guðný konan hans - okkar alveg frábæra innflutningsgjöf. Um er að ræða alveg meiriháttar matreiðslubók eftir Diana Henry sem heitir Crazy Water - Pickled Lemons. Bókin fjallar um reynslu höfundar frá þeim tíma þegar hún bjó í hverfi í London þar sem mikið var af innflytjendum frá löndum umhverfis miðjarðarhafið. Til urðu réttir innblásnir frá Evrópuhlið miðjarðarhafsins - Spáni, Ítalíu, Grikklandi og frá löndum sunnan við hafið Líbíu, Marocco, Egyptalandi og svo frá löndum við botn hafsins; Tyrklandi og Líbanon - ég er örugglega að gleyma einhverjum. En allavega - nóg um það.

Frá því að ég byrjaði að elda þá hef ég verið mikið upptekinn af ítalskri matargerð - en hef síðustu ár verið að færa út kvíarnar og prófa matargerð annarra landa. Eftir að ég fékk þessa bók, einnig eftir að ég fór á Mouroush - líbanskur veitingastaður í London,  hef ég verið rosalega spenntur fyrir líbanskri og marókóskri matargerð. Rétturinn sem ég eldaði í kvöld var einmitt innblásin af lestri þessarar bókar.

Líbanskt innblásinn lambabollupottréttur með flatbrauði

Fyrst kjötbollurnar. 500 gr lambahakk er sett í skál og við þetta er blandað tveimur tsk papriku dufti. 4 kreistum hvítlauksrifjum, hálft búnt af saxaðri ferskri steinselju, 1 hnífsoddur af múskati, 1/2 tsk kanill  og hálfri tsk af majoram er einnig bætt í bollurnar. 1/2 tsk af kúmenfræjum og 1 tsk af kóríander fræjum er sett í mortel og steytt með Maldon salti þar til það er orðið af fínu dufti - blandað saman við. Piprað rækilega. 1-2 egg sett saman við og brauðmylsna til að binda þetta saman. Hnoðað vel og litlar bollur eru búnar til. Olía/smjör blanda er hituð á pönnu og bollurnar brúnaðar að utan. Lagt til hliðar þegar bollurnar eru steiktar.

Því næst sósan. 1 kúrbítur er þveginn og skorinn í sneiðar. 2 litlir laukar, 1/2 græn papríka og hálf gul papríka skornar í sneiðar. 3-4 tómatar niðursneiddir sem og hálfur púrrlaukur. Olía er hituð á pönnu og 4 hvítlauksrif kreist úti og hituð í olíunni. 1 tsk af kóríander kryddi, 1/2 tsk kúmeni og vel af paprikudufti er bætt í olíuna og hitað. Ilmurinn mun gjósa upp af pönnunni. Grænmetið er sett útí, fyrst laukurinn, svo papríkan, púrran, kúrbíturinn og í lokin tómatarnir. Velt vel upp úr heitri olíunni. 1 dós af niðursoðnum tómötum er sett útí, og jafnmikið vatn (400 ml) bætt útí. Setti einnig 1 tening af lambakrafti. Saltað og piprað að smekk. Þegar suðan er kominn upp er bollunum hellt úti og hitað áfram í nokkrar mínútur.

Að lokum flatbrauðið - en sennilega er best að byrja á því. 300 ml af hveiti er sett í skál, 15 gr af salti og 3 msk af extra virgin ólífuolía er sett saman við (einnig er hægt að setja 1/2-1 dós af niðursoðnum kjúklingabaunum saman við - mjög gott - Þá þarf að minnka aðeins vatnið á móti). Kóríander fræ ca 2 tsk og hálf tsk af kúmeni er mulið í morteli og blandað saman við.  Útí 200 ml af ylvolgu vatni er ger og sykur blandað saman og gerið vakið - byrjar að freyða - og þá má byrja að blanda saman. Hnoðað vel og látið hefast í 45 mínútur. Deigið mun nærri tvöfaldast. Deigið er svo kýlt niður, flatt út, skipt niður í hentugar stærðir. Pennslað með hvítlauksolíu og saltað. Grillpanna er hituð þannig að rýkur úr henni og brauðið grilluð á pönnunni.

Borið fram með einföldu salati - babyleaf, kirsuberjatómötum, sneiddum risaólífum og fetaosti.
Vel heppnaður pottréttur - myndi sennilega hafa gott af því að malla í nokkra klukkutíma (ef það er gert þá þarf að setja meira vatn saman við svo að það sjóði ekki alveg niður - til að bragðið nái meira jafnvægi. Gæti vel trúað að þessi pottréttur verði betri á degi 2. Afgangar á morgun - jibbí.

No comments:

Post a Comment