Sunday, 16 July 2017

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, salati og marineruðum fetaosti


Við fluttum heim fyrir rétt tæplega ári síðan. Og það er óhætt að segja að þetta ár hafi liðið leifturhratt. Maður verður stundum orðlaus yfir því hvað tíminn leyfir sér að líða. Börnunum okkar hefur gengið vel að aðlagast aðstæðum; Valdís byrjaði í Menntaskólanum við Hamrahlíð og gengur ljómandi, Vilhjálmur unir sér vel í Ártúnsskóla og Ragnhildur Lára brosir út að eyrum. Snædís kláraði framhaldsnámið sitt - og fer til Englands að viku liðinni til að útskrifast. 

Fyrir ári síðan kom gámurinn okkar frá Svíþjóð í götunni okkar á Ártúnsholtinu. Við vorum í Englandi þannig að foreldrar mínir hóuðu saman vinum og ættingjum og gámurinn var tæmdur á mettíma. Við ætluðum auðvitað að vera löngu búin að blása til veislu og þakka þessu dásamlega fólki fyrir - en svona fór það - ári síðar komum við saman í Urriðakvíslinni og skáluðum. 

Heilgrillað lamb með marokkóskum draumum - ásamt hummus, chilitómatsósu, hvítlaukssósu, salati og marineruðum fetaosti

Og við gerðum gott betur en það - við heilgrilluðum lamb. Og það er ótrúlega gaman - það vekur svo mikla undrun hjá gestum, sérstaklega börnum sem reka upp stór augu þegar þau sjá að kjötið kemur raunverulega af heilum skeppnum. 

Fyrir 40 

1 lambaskrokkur
1 l jómfrúarolía
1 staukur marokkóskir draumar
Salt og pipar

3 hvítir laukar
10 hvítlauksrif
5 msk jómfrúarolía
3 rauðir chilipiprar
5 dósir tómatar
1/2 túba tómatpúré
tabaskó
salt og pipar

4 dósir kjúklingabaunir
4 msk tahini
safi úr tveimur sítrónum
6 hvítlauksrif
salt og pipar
500 ml jómrúarolía

400 g fetaostur
handfylli rósapipar
1 rauður laukur
handfylli steinselja og mynta
salt og pipar

Nóg af tortillum


Byrjið á því að skola skrokkinn og þerra. 


Við notuðum kryddblönduna sem ég útbjó með Krydd og tehúsinu - þetta er blanda sem ég útbjó fyrir bókina mína, Grillveisluna, sem kom út í fyrra. Hún er sérstaklega ljúffeng. Þetta er blanda úr papríkudufti, broddkúmeni, engifer, pipar og fleira góðgæti. Hún er einstaklega góð á lamb og kjúkling. 


Fyrst er að þræða lambið upp á spjót. Ég á mótorknúið spjót sem ég keypti í Svíþjóð sem er ansi þægilegt.

Ég blandaði heilum stauk af marokkóskum draumum saman við jómfrúarolíuna og penslaði í þykku lagi á allt lambið.


Svo er gott að fá svona vanan grillmann til að hjálpa sér - Tómas Hermannsson, bókaútgefandi. Hann hefur heilgrillað lamb mörgum sinnum.


Það skiptir miklu máli að stjórna hitanum eins vel og maður getur. 


Þegar lambið fór að brúnast heldur mikið á slögunum - klæddum við lambið í pils.


Eftir þrjá og hálfan tíma var kjötið tilbúið!


Maður þarf fyrst að skoða það aðeins. Að mínu mati reyndist það vera fullkomlega eldað.


Svo er bara að skera.


Og skera meira!


Svo er um að gera að hafa þennan mann, Ingvar Sigurgeirsson, föður minn og svo einnig bróður minn, Kjartan innan handar til að hjálpa til við að snara meðlætinu fram á mettíma. 


Skerið laukinn, hvítlaukinn, chilipiparinn niður gróft og steikið í olíu. Saltið og piprið. Hellið tómatinum, púréinu útí og sjóðið upp. Bragðbætið með salti, pipar og tabaskó. 


Setjið fetaostinn í skál og hellið jómfrúarolíu yfir. Þessi mynd var tekin úr bókinni minni - þar sem ég marineraði með ólífum og kapers. En fyrir veisluna notaði ég rósapipar og rauðlauk. 


Hummus er eins einfaldur og hugsast getur. Kjúklingabaununum, tahini og hvítlauk er blandað saman í matvinnsluvél. Svo hellir maður olíunni þangað til að hummusinn fær þá þykkt sem óskað er eftir. Næst sítrónusafa og svo er saltað og piprað

 

Skerið grænmetið niður - og blandið saman við salatið. 


Við vorum með fína fordrykki - Gin og grape - sem sló heldur betur í gegn! 


Nóg af bjór - það er nauðsynlegt þegar maður er með grillveislu. 


Svo vorum við með Masi Modello - rauðvín frá svæðunum í kringum Veróna. Þetta er vín sem er auðvelt að drekka og passar ljómandi vel með bragðríkum mat eins og við vorum að bera fram. 


Svo er bara að njóta. Rista tortilluna á grillinu og leggja á disk, svo chilitómatsósu, lambið, hummus, salat og marineraðan fetaost. 

Hreinasta sælgæti!2 comments:


  1. Hi there! Do you use Twitter? I'd like to follow you if that would be okay. I'm definitely enjoying your blog and look forward to new posts. itunes sign in

    ReplyDelete
  2. A lower type of loan will result in lower monthly premiums, increasing the amount you can afford. mortgage payment calculator canada Commercial lenders review of your accounting books to verify in case you have enough income to repay the mortgage. mortgage calculator canada

    ReplyDelete