Saturday 8 July 2017

Nautaspjót "asados" með chili og óregano borið fram með papríku- og nektarínusalsa og grilluðu smákáli


Þegar ég fór til Buenos Aires á ráðstefnu árið 2013 gafst mér tækifæri til að fara á veitingahús sem sérhæfði sig í „asados“-eldamennsku – grillmat með argentínskum brag. Grill er jú stór hluti af matarmenningu margra Suður-Ameríkuríkja og þar er Argentína sannarlega engin undantekning. Nautgriparækt er aðalbúgrein Argentínumanna og neysla nautakjöts þar ein sú mesta í heiminum.

Skemmst er frá því að segja að máltíðin var í einu orði sagt rosaleg. Í gestina voru borin að því er virtist endalaus afbrigði kjöts af ólíkum dýrum og ólíkum vöðvum. En það sem kom mér mest á óvart var einfaldleikinn. Hver biti fékk að standa fyrir sínu.

Á ferðalaginu gæddi ég mér nokkrum sinnum á grillmat, sem er þjóðarmatur Argentínumanna, og það kom mér nokkuð á óvart hversu meðlætið, þá helst sósurnar, var af skornum skammti við hlið digurra kjötbita. Með kjötinu var hægt að fá „chimichurri“ – lauk-, steinselju- og paprikusölsu, sem var mjög ljúffeng. Þetta er smá snúningur á það.

Þessi réttur er mín leið til að heimsækja þennan veitingastað aftur í huganum. Hann er einfaldur en byggist á því að gott nautakjöt sé við höndina – og það sé kryddað á einfaldan hátt og grillað yfir kolum á háum hita. 

Nautaspjót "asados" með chili og óregano borið fram með papríku- og nektarínusalsa og grilluðu smákáli

Fyrir fjóra

1 kg nautahryggsvöðvi
4 msk góð jómfrúarolía
3 hvítlauksrif
1-2 rauður chilipipar
2 tsk ferskt óreganó
salt og pipar

Fyrir papríku- og nektarínusalsað

¹∕₃ rauð paprika
¹∕₃ gul paprika
¹∕₃ græn paprika
½ rauður chilipipar
2 nektarínur
1 hvítlauksrif
½ hvítur laukur
safi úr ½ sítrónu
75-100 ml jómfrúarolía
1 msk hlynsíróp
salt og pipar

Fyrir smákálið

2 babygem salathausar
góð jómfrúarolía
salt og pipar

Jæja, förum að elda! 

Fyrir nautið; 


Skerið nautavöðvann í þykkar ræmur og þræðið upp á spjót.



Saxið hvítlauk og chilipipar smátt og blandið saman við jómfrúarolíuna.  Skerið óreganó niður og blandið saman við olíu ásamt salti og pipar.  Smyrjið kryddolíunni vandlega á allt kjötið og látið standa við herbergishita í klukkustund.


Blússhitið grillið og setjið kjötið yfir. Grillið þar til kjötið er eldað að smekk (sjö til tíu mínútur).

Leggið á diska og skreytið með fersku chili og óreganói.

Fyrir argentínsk papriku- og nektarínusalsa


Skerið paprikur, lauk, hvítlauk, chilipipar og nektarínur smátt og blandið saman í skál. 


Kreistið sítrónusafa yfir og hrærið jómfrúarolíu og sírópi saman við og smakkið til með salti og pipar.


Látið salsað standa í 30 mínútur - þannig ná brögðin að blandast saman ennþá betur. 

Fyrir smákálið; 


Skerið kálhausin í tvennt og sáldrið jómfrúarolíu yfir. Saltið og piprið. 


Grillið á báðum hliðum. Einfalt ekki satt? Leggið svo kálið á diska og sáldrið smá olíu til viðbótar yfir ásamt ferskum sítrónusafa. 


Þetta vín er fullkomið með þessum rétt. Þessi flaska er ókomin í verslanir ÁTVR - en það er hægt að sérpanta það hjá Vínbúðinni þangað til að það birtist í hillum í haust. 

Ég bragðaði þetta vín á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Sandro Boscaini eiganda Masi og varð strax yfir mig hrifinn. Þetta vín er pakkað af ilmi af ávöxtum og kryddi og er síðan munnfyllir á tungu með djúpu og góðu eftirbragði - Corvina þrúgan sem er ríkjandi í vínum frá Valpolicella á Ítalíu - núna ræktað í Argentínu og blandað við algengustu þrúguna í Argentínu - Malbec. Sælgæti! 


Bon appetit! 



Margar ljúffengar uppskriftir er að finna í Grillveislunni! 

No comments:

Post a Comment