Sunday 23 July 2017

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum!


Það er ósjaldan að ég elda kjúkling á sunnudagskvöldum. Og ég held að ég hafi prófað að elda kjúkling á vel flesta vegu og ég er nokkuð sannfærður um að ég hafi ratað á bestu aðferðina. Fjölskyldumeðlimir og þá sérstaklega eiginkona mín, Snædís, er einstaklega hrifin af þessari aðferð sem ég komst upp á lag með fyrir nokkrum árum síðan og hef haldið mig við. 

Ég kynntist þessari eldunaraðferð þegar ég var á ferðalagi á Spáni fyrir einum 15 árum. Þá keyrði maður víða framhjá stöðum sem auglýstu Pollos Asados. Ég skrifaði um þetta fyrst 2011 og hafði þá þetta að segja; 

Ég man þegar ég smakkaði þetta í fyrsta skipti. Hvílíkt og annað eins hvað kjúklingurinn var safaríkur og húðin stökk og knassandi góð - nánast eins og mjúkt kex og kjötið lungamjúkt. Ég stoppaði við á veitingastaðnum í smástund og fylgdist með þeim elda, sá hvernig þeir söfnuðu fitunni/vökvanum sem rann af kjúklingum í rennu og reglubundið pensluðu fuglinn með vökvanum. Djísus ... hvað mér fannst þetta gott... já, og finnst ennþá!

Og núna finnst mér enn skemmtilegra að elda þennan rétt þegar ég krydda hann með eigin kryddblöndu sem nú fæst í öllum betri verslunum (í Melabúðinni, Hagkaupum og auðvitað í Krydd og Tehúsinu). Þeir sem búa úti á landi geta pantað kryddblöndurnar mínar á netinu og fengið það sent í pósti - kíkið á heimasíðuna hjá Krydd og Tehúsinu og hendið í eina pöntun. 

Og þessi kvöldverður var sérstaklega skemmtilegur. Prófessorinn minn í Lundi, Anders Bengtsson, var í heimsókn á Íslandi ásamt dóttur sinni, Sögu, og við buðum þeim í heimsókn. Ég sá ekki betur en að þau hafi verið himinlifandi með máltíðina. 

Rotisserie kjúklingur á grillinu heimsóttur aftur - með besta grillnuddinu á markaðnum! 

Fyrir 6-8

3 kjúklingar
6 msk jómfrúarolía
3 msk klassískt grillnudd (frá Krydd og Tehúsinu í samstarfi við Lækninn í Eldhúsinu) 
salt og pipar

1/2 hvítkálshaus
2 stórar gulrætur
2 græn epli
1 dl appelsínusafi 
4 msk majónes
safi úr heilli sítrónu
2 msk hlynsíróp (má sleppa) 
salt og pipar 

250 g sveppir
1 gulur laukur
3 hvítlauksrif
50 g smjör
2 lárviðarlauf
5 greinar ferskt timjan
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
250 ml rjómi


Byrjið á því að skola kjúklinginn vel og vandlega upp úr köldu vatni. 


Þræðið kjúklinginn upp á spjót og skorðið hann vandlega á teininum. 


Nuddið kjúklingum upp úr jómfrúarolíunni, svo klassíska grillnuddinu og saltið svo piprið ríkulega. 


Hitið grillið þannig að það sé á blússi. Fjarlægið grindurnar og setjið ofnskúffu ofan á brennarana og hellið vatni eða soði í skúffuna.


Komið kjúklingum fyrir og eldið þangað til að kjarnhiti er kominn í 72 gráður.


Á meðan kjúklingurinn er að grillast þá er gott að byrja á sósunni. Þessi uppskrift er gullsins virði - sjá hérna


Flysjið grænmetið og rífið í matvinnsluvél. Blandið saman í skál. Hrærið saman majónesi, appelsínusafa, sítrónusafa, hlynsírópi og saltið og piprið.


Með matnum drukkum við ljúffengt vín frá Spáni; Ramon Bilboa Gran Reserva frá 2010. Þetta er spánskt vín sem er gert að mestu úr Tempranillo þrúgum eins og flest Roija vín nema í þetta vín er blandað smávegis af Graciano og Mazuela þrúgum. Það er fallega rautt á litinn, á nefi með þroskaðan ávöxt - vínber og kirsuber. Sama á tungu nema kryddað með djúpu eftirbragði.


Þetta reyndist sannkölluð veislumáltíð. 

Prófessorinn, dóttirinn, lærlingurinn og fjölskylda hans voru alltént mjög hrifin. 

Bon appetit! 


No comments:

Post a Comment