Thursday 13 July 2017

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

Við fórum í vikufrí í síðustu viku og eins og margir samlandar þá tókum við stefnuna á Tenerife. Við gistum á ágætu hóteli á amerísku ströndinni. Við bókuðum "allt innifalið" - eitthvað sem við höfum aldrei gert áður - þvílíkur lúxus. Maturinn var fjölbreyttur og ljómandi góður, vínið var í góðu lagi og ekki gat ég kvartað undan skorti á ísköldum bjór á sjóðheitum sumardegi. Þetta var nákvæmlega fríið sem fjölskyldan þurfti - við yfirgáfum varla hótelið - heldur lékum okkur við laugina, lásum bækur, spiluðum borðtennis, skruppum í ræktina og marineruðumst í sólinni. Ég kom alltént endurnærður til baka.

Og það var gaman að snúa aftur í vinnuna eftir stutt en þó gott frí. Nýja bráðalyflækningadeildin hefur farið það vel af stað að biðtími á bráðamóttökunni hefur minnkað um 30-50%. Þá hefur einnig tekist að útskrifa helming þeirra sjúklinga sem leggjast inn á innan við tveimur sólarhringum - og það án þess að öryggi sjúklinga sé ógnað. Það er nú höfuðmálið - að þeim batni eins og framast er kostur. Svo fékk ég einnig ómtæki afhent á Klíníkinni í Ármúla og það mun hjálpa við að lyfta gigtarlækningum á ennþá hærra plan. Spennandi tímar sumsé.

En þetta blogg er jú um mat - þannig að við skulum snúa okkur að málefni dagins. Þó að kjöt sé í uppáhaldi margra grillara þá er gott að breyta út af og grilla eitthvað annað eins og t.d. fisk. Það er fjöldi fisktegunda sem hentar ljómandi vel á grillið og kjörið að prófa sig áfram.

Ég hef lengi verið beggja blands varðandi hvalkjöt. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að hafa þann rétt að nýta auðlindir okkar með skynsömum hætti þá virðast hvalveiðar okkar stuða marga í alþjóðasamfélaginu. Ég hef því sveiflast fram og tilbaka í afstöðu minni til hvalveiða í gegnum árin. En hvað sem því líður þá varð ég eiginlega að prófa þegar ég sá þessa myndarlegu hrefnusteik í borðinu hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum.

Fljótleg fiskiveisla á grillinu; Chilimarineruð hrefna og klausturbleikja

Og þetta er leiftursnögg eldamennska.

300 g hrefnusteik
700 g klausturbleikja
50 ml soyasósa
2 msk fljótandi hunang
3 msk jómfrúarólía
2 hvítlauksrif
5 cm af engifer
1 rauður chili
2 msk smátt skorin ferskur kóríander
salt og piparHrefnusteikin er fallegur kjötbiti. Hún ilmaði eins og hafið - engin lýsisbræla sem hún er svo oft sökuð um.


Ég hellti soya sósunni yfir, ásamt hunangi, olíu, smátt skornu hvítlauksrifi, chili og engifer og að lokum salt og pipar.


Notaði helminginn af blöndunni á bleikjuna.


Svo var bara að grilla hrefnuna.


Og bleikjuna. Ég var ekkert að snúa flökunum - heldur lét ég roðið bara verja þau frá því að brenna.Notaði afganginn af marineringunni til að pensla kjötið. 


Ég náði bleikjunni af í heilu með því að renna henni af roðinu, sem hafði festst við grillið.Við bárum hrefnuna fram með soðnum hrísgrjónum og salati. 

Svo áttum við einnig til opna flösku af þessu ljómandi góða hvítvíni - Gato Negro 9 Lives Reserve Sauvignion blanc. Ég smakkaði þetta vín fyrst á vínkynningu í Marshallhúsinu fyrr í þessum mánuði. Þetta er "premium" lína frá sömu framleiðendum sem framleiða hið vinsæla Gato Negro vín - svarta köttinn - sem notið hefur mikilla vinsælda í Skandinavíu. Þetta er vín ilmar líflega af ávexti, sama á tungu, þurr og stökkur ávöxtur - trópískur með fínu eftirbragði. 


Það er rosalega gott að bera fram raitu - einfalda jógúrtsósu - með þessum rétti;

Klassísk raita

250 ml grísk jógúrt
1/2 agúrka
handfylli fersk mynta
1 hvítlauksrif
safi úr 1/2 sítrónu
1 msk síróp
salt og pipar


Raita er ofur einföld jógúrtsósa; Setjið jógúrt í skál og blandið saman við maukuðu hvítlauksrifi, smátt skorinni myntu, saxaðri kjarnhreinsaðri gúrku, sírópi, salti og pipar. Smakkað til!Ragga Lára var mjög ánægð með matinn - og það vorum við hin líka. 

Fljótleg fiskiveisla á grillinu í miðri viku. 

1 comment:

  1. I can definitely recommend anyone planning a vacation, both nationally and internationally, to consider a stay in Tenerife. If you are looking for a perfect combination of relaxation and adventure, this is definitely your destination. It's exactly what you need in terms of stakeholder management assignment expert, whether you're managing remote project teams or local ones.

    ReplyDelete