Saturday 26 March 2016

Bestu lambauppskriftir af blogginu! Gleðilega páska!

Páskarnir eru snemma í ár. Persónulega hef ég aldrei áttað mig á því hvernig dánardægur Krists virðast sveiflast ár frá ári, en það mun vera einhver lógík þar að baki - á fyrsta sunnudegi eftir fullt tungl á eða eftir vorjafndægri - held að þetta sé nokkurn veginn rétt hjá mér (treysti annars á leiðréttingu)? Það er löngu kominn tími á að halda annað Níkeuþing og hafa þetta bara á sama degi ár frá ári - ef það er eitthvað sem er absólút í þessu lífi þá er það fæðingardagur og dánardagur.

Í ár erum við hjónakornin í ferðalagi, barnlaus og alles! Þar sem við erum nú búsett á Bretlandseyjum þá er vitaskuld kjörið að sæta lagi og reyna að skoða þessar fallegu eyjar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ferðumst um England. Fyrir rúmum 10 árum fórum við í stutta ferð þar sem við fórum til Bath, skoðuðum m.a. Stonehenge og Cotswolds - alveg einstaklega ljúf ferð. Nú fórum við akandi til Cornwall. Byrjuðum í Padstow, þar sem sjónvarpskokkurinn Rick Stein ,rekur bæði veitingahús, kaffihús og gistiheimili. Sumir kalla bæinn Rickstow. Við ætlum líka til Port Isaac, Newquay og Fowey. Við eigum pantaða gistingu á B&B hér í kring og þetta byrjar alltént einstaklega ljúfflega. Ökuferðin hingað var í glampandi sól - en næstu dagar munu víst einkennast af hefðbundnu ensku sumarleyfisveðri - rigningu og sudda! En erum með krók á móti bragði - regnhlífar!

Þannig að páskamáltíðin hjá okkur verður með óhefðbundnu sniði að þessu sinni. Og hver veit hvar?

Niðurstaðan verður því að í þessari páskafærslu verða rifjaðar upp uppáhalds lambakjötuppskriftirnar mínar sem ég hef birt hérna á blogginu í gegnum árin.

Bestu lambauppskriftir af blogginu! Gleðilega páska! 

1. Sjö tíma lambalæri með ekta lambasósu og ostakartöflugratíni

Þetta er eiginlega í toppsætinu hjá mér! En eftir á að hyggja eftir að hafa gert þessa uppskrift nokkrum sinnum þá er hyggilegra að hafa lægra hitastig en ég gef upp í uppskriftinni. Þegar ég gerði hana í fyrsta sinn þá var ég með 100 gráður en síðar hef ég haft lægri hita og fundist það jafnvel betra. Ætli ég myndi ekki ráðleggja 75 gráður í dag. Og svo brúna kjötið í stutta stund í ofni eða á grillinu ef veður leyfir.


2. Langeldaður lambaframpartur með ferskum hvítlauk, rósmarín og splunkunýjum hvítum strengjabaunum

Ætli það hafi ekki verið Vigdís Hrefna vinkona mín sem kenndi mér að elda lambaframpart. Hún og Bassi, maðurinn hennar, buðu okkur einhverntíma í mat og elduðu lambaframpart sem var algerlega himneskur. Kjötið hreinlega rann mjúklega af beininum. Síðan þá hef ég eldað lambaframpart margsinnis. Og ekki bara er hann talsvert ódýrari, með réttum handbrögðum getur hann líka orðið ljúffengari en lambarlærið!


3. Úrbeinaður og fylltur lambahryggur "sous-vide" með gratíni, einfaldri soðsósu og baunum

Lambahryggur er í uppáhaldi hjá mörgum nautnaseggjum og það er vel skiljanlegt. Feitt og safaríkt lambakjöt er sérlega ljúffengt. Með því að úrbeina hrygginn og vefja hann upp með þessum hætti er hægt að nota beinin til að búa til kyngimagnaða soðsóðu - mun betri en nokkur teningur getur nokkru sinni töfrað fram!

Í þessari uppskrift elda ég hrygginn "sous-vide" - í poka undir þrýstingi en það er líka vel hægt að elda hann í ofni.


4. Ljúffengar lambarifjur "sous-vide" með katalónskum kartöflum, brúnni sósu og auðvitað góðu rauðvíni

Lambarifjur eru auðvitað bara niðursneiddir hryggjarbitar, en skornir á þennan hátt þá breytast þeir á einhvern hátt - þó að það sé að mestu sjónrænt. Hér eru lambabitarnir eldaðir "sous-vide" undir vatnsþrýstingi - og þannig verða þeir lungamjúkir. En eins og með alla kjötbita þá er vandræðalaust hægt að elda þá í ofni líka! Læt einn hlekk fylgja hérna með í kaupbæti - Bryndís Pétursdóttir vinkona mín kenndi mér að elda þá með kryddhjúpi! Það var eiginlega eftir að velja á milli þessara uppskrifta.



5. Ljúffengir langeldaðir lambaskankar með gorgonzola polenta og dásamlegri sósu!

Lambaskankar eru líka hráefni sem geta með réttri matseld orðið að guðafæðu. Djúpt kjötbragð eldað í langan tíma þangað til að kjötið hreinlega dettur af beinunum. Og það þarf ekki mikla kunnáttu til að elda lambaskanka. Bara fylgja einföldum leiðbeiningum og þú ert kominn með veislu. Kosturinn við lambaskanka er jafnframt að þeir eru oftast talsvert ódýrari en aðrir bitar á lambinu.


6. Langelduð lambasíða með smjörsteiktum sykurbaunum, gulrótum og einföldu salati að hætti Villa

Ég verð eiginlega að hafa þessa með. Ég held að ég hafi einhvern tíma eldað alla hluta lambsins, að undanskildu einhverju af innmatnum - en þessi biti kom mér hvað mest á óvart. Lambaslög - ég held að það séu ekki margir sem yfirhöfuð hafa séð, keypt eða hvað þá eldað lambaslög. En ég get sagt ykkur það að þau eru ljúffeng. Prófi bara og þið verðið ekki svikin - (og hérna er svo marókósk útgáfa fyrir þá sem vilja eitthvað nýstárlegt).


Ég vona að þessi færsla hjálpi ykkur eitthvað við páskaeldamennskuna. 

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment