Sunday 2 December 2012

Beikonvafinn þorskhnakki með chilli-sveitafrönskum og hvítlaukssósu


Er eitthvað sem beikon getur ekki gert? Þetta er auðvitað retorísk spurning þar sem flestur matur virðist verða betri bara við það eitt að vera snertur af nokkrum beikonsneiðum. Sumum myndi kannski finnast það smáborgaralegt að nota bara venjulegt beikon þegar loftþurrkaðar skinkur gætu verið betri; pancetta eða parmaskinka væru boði. Og það gæti hreinlega verið svo! Það var nú bara þannig að ég átti nokkra beikonpakka inn í ísskáp sem ég hafði keypt á svo 3-1 tilboði úti í búð. Og þá verður bara eitthvað svona niðurstaðan. 

Og ég hafði fengið þennan dásamlega góða þorsk á Íslandi þegar við vorum í heimsókn nýverið - tíminn líður nú hratt - það var fyrir mánuði síðan. Við keyptum þennan glæsilega þorskhnakka út í fiskbúð á leiðinni á flugvöllinn, létum vakúmpakka hann og svo var honum skellt í töskuna rétt áður en tékkað var inn. Og viti menn! Þegar heim var komið var hann ennþá alveg ísskaldur. Það er víst déskoti kalt í farangursrýminu. 

Mér finnst frábært að borða fisk. Oftast reyni ég að elda hann á eins einfaldan hátt og mögulegt er, oftast pensla ég hann bara með smjöri og grilla inn í ofni. Að djúpsteikja er auðvitað dásemd en allir vita að það má maður bara gera einu sinni á ári og ég er búinn með þann skammt þegar ég djúpsteikti þennan dásamlega skötusel, sjá hérna, núna í maí síðastliðnum. Ég sýð fisk afar sjaldan - einhvern veginn hefur mér aldrei þótt það sérstaklega spennandi! 



Beikonvafinn þorskhnakki með chilli-sveitafrönskum og hvítlaukssósu

Þetta er auðvitað eins einfalt og hugsast getur. Eina sem þarf að passa er að vefja beikonsneiðnum vandlega hringinn þannig að þær haldist á sínum stað.


Fyrst þarf að pipra fiskinn. Það er óþarfi að salta hann þar sem að beikonið er gjarnan salt og það myndi ég ætla að væri nóg. 


Lagt í eldfast mót og smurt með smáræði af olíu. Sett inn í 220 gráðu heitan ofn í 15 mínútur.


Fiskurinn kemur út svona útlítandi - ilmar dásamlega.



Við áttum þessa búkollu inn í ísskáp Drostdy-Hof Chardonnay Voigner. Ég kaupi nokkuð oft vín frá þessum framleiðanda - og finnst það alveg ágætt. Þetta eru alltaf ansi góð kaup - gott verð. Vínið er frá Suður Afríku - mildur, gulur litur, ávaxtaríkt og fremur þurrt. Frískandi sopi.

Með matnum gerði ég líka einfaldar sveitafranskar. Kartöflur skornar í skífur, velt upp úr olíu, saltaðar og svo sáldraði ég nokkrum þurrkuðum og hökkuðum chilli flögum yfir og síðan til að gera enn betur bætti ég við örlitlu af cheyenne pipar. 

Gerði einnig þessa einföldu sýrðrjómasósu sem ég hef gert svo oft áður. Ein dós af léttum sýrðum rjóma, einn maukaður hvítlauksgeiri, salt, pipar, ein tsk hlynsíróp, safi úr hálfri sítrónu og nokkur söxuð steinseljulauf.


Bon appetit. 

Þarf varla að taka það fram hversu dásamlega safaríkur fiskurinn var! 

1 comment:

  1. Þetta líst mér vel á og ætla að prófa. Takk fyrir KK AA

    ReplyDelete