Sunday 23 December 2012

Þorláksmessa og skötuveisla - Það eru að koma jól!


Hin árlega skötuveisla var haldin núna eins og alltaf áður í Púkagranda 5. Þar bjóða Jónas og Hrund og börnin þeirra, vinir okkar og nágrannar, heim vinum sínum og fjölskyldumeðlimum til þessarar ágætu veislu. Þetta mun vera í fjórða sinn sem við hittumst á Þorlák og lyftum glösum og syngjum saman. Og þetta er alltaf mikið gleðistund og fyrir mína parta hefjast jólin mín í húsum þeirra. 

Að borða kæsta skötu er auðvitað stórmerkileg hefð. Ekki fyrir þær sakir að hún sé góð eða lykti vel heldur þveröfugt. Kæst skata er bæði ljótur og vondur matur - sama hvað allir skötuelskendur segja. Að bíta í skötubarð þannig að brjóskið merjist og ammóníakfnykurinn gýs upp í nefholið er nóg til að láta mann gráta. Og það gerir maður - og er ekki minni maður fyrir vikið. Þó lætur maður sig hafa þetta. Öllu er nú hægt að koma niður með bjórglas í annarri hendi og brennivínssnaps í hinni! Og hamsatólgin og dásamlega rúgbrauðið hennar Hrundar gerir það að verkum að maður raunverulega nýtur máltíðarinnar. 

Verkun skötu er auðvitað ekki merkileg saga. Skata, eins og hákarl, er brjóskfiskur og brjósk þessara dýra innihalda mikið að þvagefni. Skatan er verkuð þannig að börð hennar eru sett í fat og breytt er yfir og náttúran fær að hafa sinn gang - fiskurinn fær að rotna. Við það brotnar þvagefnið í skötunni niður og verður að ammóníaki sem gefur henni sína kæstu lykt og svæsna bragð. Að borða skötu er eins og að hýða sig til að eiga inni fyrir þeim kræsingum sem við fáum að njóta á næstu dögum!

Þorláksmessa og skötuveisla - Það eru að koma jól!

Það verður ekki mikið um uppskriftir í þessari færslu þar sem ég var ekki við stjórnvölinn! Ég fékk þó uppskriftina að rúgbrauðinu sem er alveg frábær og í mínum huga er sigurvegari dagsins.


Veisluborðið var fallega skreytt. 


Varla er hægt að matreiða skötu innandyra og þá kemur sér vel að eiga smáhýsi útí garði til að fremja þau myrkraverk sem fólgin eru í því að sjóða skötu.Jónas tók sig vel út í skúrnum. Til að þola suðuna var honum reglulega færður bjór og snaps. Það verður að koma í ljós hvort hann ber einhvern skaða af því að marinerast í skötufnyknum! En við munum fylgjast vel með honum!


Hákarl er náttúrulega bragðvondur eins og skatan. En samt er ágætt að fá sér einn og einn bita til að núllstilla bragðlaukana fyrir hátíðirnar. 


Mamma og pabbi komu með íslenskt jólabrennivín. Mamma tók það að sér að setja flöskuna í fernu og skreyta með nokkrum grenigreinum og einhverju fleiru. Fryst í sólarhring. Brennivín, bæði jólaútgáfan, og venjulegt, danskt jubileum ákavíti, gera manni kleift að komast í gegnum máltíðina með bros á vör.


Í rúgbrauðið fóru 5 bollar af rúgmjöli, 3 bollar af hveiti, 1 1/2 l af súrmjólk, 3-4 tsk matarsóda, 2-3 tsk salt og 500 g af sírópi. Hráefnunum er blandað saman í hrærivél og síðan sett í form. Bakað við 90-100 gráður í 8-10 klukkustundir. Klassískt mun vera að baka brauðið í mjólkurfernu - en gott að muna eftir því að fylla einungis fernuna að hálfu þar sem deigið á eftir að rísa um helming. 

Þetta er alveg dásamlega ljúffeng uppskrift. Hrund er vön að hefja þessar veislur með því að biðjast afsökunar á því hvernig rúgbrauðið hafi misheppnast - svo er það alltaf algerlega fullkomið - sætt og savory (þakklátur fyrir íslenska þýðingu).


Bjór og snaps - lífsbjörg skötuhatarans í skötuveislum. 


Fyrir þá sem eru ekki eins harðir í skötunni þá var líka boðið upp á þennan ljúffenga plokkfisk. Plokkfiskur er sígíldur réttur. Soðin fiskur rifin niður og blandaður með niðurskornum kartöflur, kryddaður með salti, pipar og smá karrí. Jafningurinn - klassísk bechamél sósa - 60 gr af smjöri og 60 gr af hveiti eru hrærð saman til að búa til smjörbollu og svo er lítri af nýmjólk soðinn upp í smjörbollunni þangað til hún þykknar. Blandað saman við fiskinn og sett í eldfast mót. Rifnum osti sáldrað yfir og bakað í ofni þangað til að osturinn brúnast.


Eins og fram hefur komið þá er skata ekki fallegur matur - myndin er því til sönnunar!


Hamsatólg hefur þó einhvern blæ fegurðar sem einnig finnst á flauelsfeitu bragðinu!


Kveifar eins og ég fá sér einungis smá ræfil af skötu, meira af plokkfiski, kartöflu og rófu og svo auðvitað nokkrar sneiðar að rúgbrauðinu ljúffenga.

Svo var sungið og skálað! Ég er þegar farinn að hlakka til Þorláksmessu á næsta ári!

Bon appetit og gleðileg jól!

No comments:

Post a Comment