Tuesday 4 December 2012

Þegar piparkökur bakast - kökugerðarmaður tekur fyrst...



Þann fyrsta desember kom jólasnjórinn til Lundar. Eins og hann hefði verið pantaður. Ég vaknaði eftir að hafa verið á næturvakt á laugardagsnóttinni og reis úr rekkju rétt efir hádegið. Börnin voru þá þegar komin út að leika sér í nýföllnum snjónum og Snædís hafði þegar neytt færis og sett í piparkökudeig sem beið inni í kæli.

Við notuðum daginn til þess að hengja upp jólaljós. Sólin er farin að setjast snemma hérna í Suður Svíþjóð og því var lítið annað að gera en að kveikja upp í arninum, á jólaljósum og á kertum. Snædís hafði yfirumsjón með piparkökubakstrinum og ég gerði ekkert annað en að taka myndir og dást að fjölskyldunni minni á þessum ágæta sunnudegi.

Seinni partinn var ég kallaður yfir til nágranna míns, Gustav Brogren, sem vantaði aðstoð við að verka dádýr sem hann hafði veitt nokkrum dögum áður. Hægt er að sjá myndir af því hérna. Þegar því verki var lokið sneri ég heim og lyktin af nýbökuðum piparkökum tók á móti mér, og Diddú á fóninum. Ekki var annað hægt en að hlakka til jólanna!



Það er fátt sem yljar mitt heimska hjarta meira en að kveikja upp í kamínunni. Ást mína á eldi erfi ég frá frá föður mínum, en saman deilum við áhuganum á því að eiga nóg að bíta og brenna. Þó allt innan skynsamlegra marka.



Ég vildi óska að ég hefði einhverja uppskrift af því að gera heitt kakó. Ég set bara eina plötu af suðusúkkulaði í pott, hálfan lítra af mjólk og svo kannski tvær matskeiðar af kakómalti - mjög gróflega áætlað. Svo þarf að smakka til, bæta við súkkulaði ef smekkurinn kallar eftir því, eða mjólk eða jafnvel sykri!



Þessir guttar, Vilhjálmur Bjarki til vinstri og Einar Jónsson til hægri, komu inn og fengu heitt kakó og hjálpuðu til við að skera út piparkökur.

Þegar piparkökur bakast, kökugerðarmaður tekur fyrst af öllu steikarpottinn og eitt kíló margarín...

Snædís sá um að finna uppskrift og hún rakst á eina á skátavefnum. Það var því hrært í hana en sú uppskrift var heldur blaut þannig að það þurfti að bæta heldur betur við af þurrefnum til að fá þetta í jafnvægi.



Fyrst var hálfu kílói af hveiti, 150 gr af sykri, tvær og hálf tsk kanil, tvær tsk engifer, ein tsk negull, ein tsk matarsóda og 1/4 tsk af pipar blandað saman í skál. 






100 gr af smjöri var brætt í pottinn og blandað saman við þurrefnin. Þá var tveimur dl af mjólk og 3/4 dl af dökku sírópi sett saman við. Hnoðað saman. Því næst var deigið vafið inn í plast og látið standa í klukkustund.


Valdís var ákaflega dugleg. Sótti deigið og skar niður í viðráðanlega bita og hnoðaði vel og rækilega.
 

Hún útbjó þessar kúlur sem voru látnar standa í augnablik á meðan unnið var með afganginn af deiginu.



Efnileg dama, ekki satt!



Rúllað út í þunnt lag á plötu



Síðan var deigið skorið út, bæði eftir formum og svo var Valdís sérstaklega dugleg að skera út fríhendis.

Kökurnar voru síðan bakaðar við við 200°C í 8-12 mínútur.



Karlar og kerlingar.



Jólatré og stjörnur.



Og meira að segja piparkökubörn. Svo fengu foreldrarnir smávegis af heitri jólaglögg og allir voru glaðir.

Bon appetit!

4 comments:

  1. Kolbrún - ég er svo fullkomlega sammála þér!

    ReplyDelete
  2. Þú hefur ruglað saman kakói og heitu súkkulaði. Þú gerðir heitt súkkulaði en ég geri alltaf kakó úr Helgu Sigurðar, alltaf jafngott. Setur kakó, sykur og vatn í pott og hitar þangað til sykurinn er bráðnaður og bætir þá mjólk útí. Bragðbætið eftir þörfum.

    2 msk kakó
    2 msk sykur
    1-2 dl vatn (ég nota 1/2-1)
    4-5 dl mjólk

    Með kveðju

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Hrafnhildur

      Takk fyrir uppskriftina - prófa þessa næst!

      mbk, Ragnar

      Delete