Monday 26 November 2012

Villtar Villa hjartarkjötbollur með pasta og heimagerðri tómatsósu


Í vikunni barði farandsölumaður að dyrum og bauð til sölu kjöt af villibráð frá Smálöndunum. Ég lét freistast og keypti af honum hakk af villisvíni, elg og hirti. Þannig að látið ykkur ekki bregða ef það verður talsvert um villibráðaruppskriftir hérna í aðdraganda jólanna. Ég er með margar hugmyndir auk þessarar; elgpylsur, villisvínahakk Wellington style, hjartarborgarar, vískíelgskjötbollur og fleira á þessum nótum.

Vilhjálmur Bjarki og ég fórum saman í skvass seinnipart dags og á leiðinni þangað vorum við að ræða um hvað við ætluðum að hafa í matinn. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað hann hafði miklar skoðanir á því hvernig kjötbollur átti að gera og sérstaklega gaman að fylgjast með honum minnast Danmerkurferðar snemma í sumar þegar við fórum á lífrænan veitingastað í Ködbyen en þar fékk hann stórar kjötbollur með pasta. Hann var alveg á því að við þyrftum að reyna að gera okkar útgáfu af þeim bollum. Og úr varð þessi réttur.

Hjartarkjöt er heldur fiturýrt og úr því þarf að bæta. Hægt er að bæta við t.d. svínaspekki sem oftast er hægt að nálgast hjá góðum slátrara, eins og vinum mínum í Kjöthöllinni, eða gera eins og ég gerði, að kaupa heldur feitt grísahakk og blanda saman við hjartarhakkið. Grísahakk hefur heldur hlutlaust bragð nema hvað grísafita hefur þann eiginleika að karmelliserast á dásamlegan hátt og verða nánast blómleg á bragðið. Hver man ekki hvaða unun puran af grísasteik hefur að geyma? Grísafita kysst af léttum keim af negul eða rósmarínnál! Ég fæ bara gæsahúð við að skrifa þetta!

Villtar hjartarkjötbollur með pasta og heimagerðri tómatsósu



Það er mjög langt síðan að ég bloggaði um einhversslags kjötbollur, mig rámar í að á árdögum þessa bloggs hafi ég gert - ultimate hreindýrakjötbollur - þá innblásnar af bandaríska sjónvarpskokknum Tyler Florence sem var, og kannski er  enn með, sjónvarpsþætti sem kölluðust Ultimate! Ég gerði mína túlkun af réttinum hans. Og hún var dásamleg. Síðan hef ég gert marókóskar kjötbollur í tómatsósu með broddkúmeni og eggjum sem er í miklu uppáhaldi á okkar heimili. Ég hef meira að segja fengið að smakka orginal útgáfu eldaða af marókóskri vinkonu okkar, Latifu Johnson. Hún rekur núna fyrsta marókóska veitingastaðinn í Malmö - og hefur meira að segja boðið mér að vera gestakokkur þann 12. janúar næstkomandi. Verið velkomin í heimsókn!



Alltént átti ég allt þetta villibráðarhakk. Og í morgun tók ég út hjartarhakk og lét þiðna í rólegheitum á eldhúsborðinu. Auðvitað væri alveg hægt að nota hreindýrahakk í staðinn! Villi var staðráðinn í því að sjá um að elda matinn og það gerði hann; marði einiber, sótti kryddjurtir, hnoðaði kjötið, mótaði kjötbollur, hrærði í tómatsósunni. Og sá var stoltur!



Á myndinni sést klár munur á hjartarhakkinu og svo svínahakkinu. Ég setti hálft kíló af hvoru í skálina.



Bætti síðan við hökkuðum kryddjurtum, laufum af tveimur greinum af rósmaríni, teskeið af fersku tímían, hálfri tsk af blóðbergi, hálfri af ferskri salvíu, hálfri tsk af óreganó, einni msk af hakkaðri steinselju, handfylli af parmaosti og svo þremur msk af góðri jómfrúarolíu. Nóg af salti og pipar auðvitað!



Villi var ljómandi duglegur við að hnoða hakkið saman og sá til þess að allt blandaðist eins vel og hægt var!




Það er eiginlega ekki mögulegt að þetta verði neitt annað en dásamlega gott á bragðið!?!



Villi fékk smá hjálp frá móður sinni að hnoða bollurnar, en verkstýrði þó - var alveg handviss um hvernig stærðin átti að vera og hversu þétt átti að hnoða.



Bollurnar voru síðan steiktar uppúr einni matskeið af smjöri og einni matskeið af jómfrúarolíu þangað til brúnar að utan. Kannski tvær mínútur á hvorri hlið.




Ég hafði undirbúið tómatsósu. Einn smátt hakkaður rauðlaukur, fjögur hvítlauksrif voru steikt upp úr einni matskeið af olíu þangað til að það næstum því fór að brúnast. Þá setti ég tvær dósir af góðum niðursoðnum tómötum saman við, tvær msk af balsamediki, tvær msk af tómatsósu, salt og pipar, eina msk af fljótandi villibráðarkraft, eina msk af fljótandi nautakrafti, hálfa tómatdós af vatni og tvær msk af hakkaðri steinselju. 

Þegar kjötbollurnar voru steiktar lagði ég þær í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu. Hellti síðan hálfu glasi af rauðvíni útá pönnuna og sauð upp kraftinn og hellti saman við sósuna sem ég síðan blandaði saman með töfrasprota. 
Hellti síðan sósunni yfir bollurnar. Villi dreifði síðan einum mozzarellaosti yfir ásamt 4 msk af rifnum parmaosti. 



Bakað í ofni í 30 mínútur þangað til að osturinn er bráðnaður og húsið ilmar eins og hreinasta dásemd!



Borið fram með penne pasta sem er uppáhald sonarins. Ég ætlaði að hafa polenta með parmaosti en Villi hafnaði því og því varð pastað fyrir valinu og engin varð svikinn af því!

Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks rauðvín sem við sóttum til Kaupinhafnar þar sem við vorum á rölti í gær í leit að jólakjólum fyrir stelpurnar á heimilinu!Við fengum okkur Masi Tupungato frá því 2011. Þetta er vín frá ítölsku vörumerki, Masi sem er frá Veneto, en er framleitt í Argentínu og er gert út blöndu af Corvina þrúgum og Malbec þrúgum. Notuð er svipuð aðferð og við framleiðslu Ripasso vína, þar sem vínið er gerjað í tvígang. Þetta er fallega kirsuberjarautt vín, ilmar af kryddjurtum og ávöxtum. Bragð af plómum og jafnvel vanillu. Gott jafnvægi og gott vín með villibráð. Sannkallað jólavín!





Þetta var alveg mögnuð máltíð og allir átu á sig gat!

Bon appetit!

2 comments:

  1. Hver nema þú færð gæsahúð að skrifa um svínafitu!!
    Kveðja
    KES

    ReplyDelete
  2. Manor - the actual word would develop some creative mind in your psyche of an intriguing spot having a castle like look and feel. You are all in all correct to your creative mind, since villas are intended to cause you to feel comfortable. buy villa in bangalore

    ReplyDelete