Sunday 4 November 2012

Ungverks gúllassúpa fyrir 60 manns með heimagerðu brauði í tilefni nafnaveislu Ragnhildar Láru


Ein af ástæðum þessarar Íslandsheimsóknar var að kynna nýjustu viðbótina í okkar ætt, Ragnhildi Láru Ragnarsdóttur - hún fæddist þann 24 ágúst síðastliðinn. Hún var frumsýnd núna á sunnudaginn var, í Lönguhlíðinni heima á foreldrum mínum og allri fjölskyldunni boðið í heimsókn. Við höfðum ekki yfir miklum tíma að ráða þannig að við ákváðum að hafa súpu og  brauð - handa 60 manns. 

Og sem betur fer gerðum við nóg af súpu þar sem mæting var með eindæmum góð og gaman að sjá alla ættingjana samankomna að bjóða litlu dóttur mína velkomna. Ætt okkar hefur stækkað og dafnað síðastliðin ár og höfðu þrjú ný börn bæst í hópinn síðustu þrjá mánuði. 

Gúllassúpa hentaði ákaflega vel. Það var hægt að elda hana daginn áður og það er nú svo með súpur af þessu tagi að þær batna bara við biðina. Í fjölskyldu Snædísar var gjarnan talað um að þriðji í kjötsúpu væri sá besti. Ég hafði haft samband við Kjöthöllina áður en ég kom til Íslands og þau voru ekki vandræðum að bjarga mér um átta kíló af úrvalsgúllasi. Það er verslun sem ég auglýsi með bros á vör - góð þjónusta og geta bjargað manni um flest. Ég hef í gegnum tíðina fengið fyrirspurnir um hin ýmsu verkefni sem ég tek mér fyrir hendur, eins og pylsugerð og kjötvinnslu almennt, hráefni sem er mjög aðgengilegt í Svíþjóð. Þetta er eitthvað sem þau í Kjöthöllinni geta auðveldlega reddað - hvort það sé pulsugarnir, nítrítsalt eða grísahausar!

Ungverks gúllassúpa fyrir 60 manns með heimagerðu brauði í tilefni nafnaveislu Ragnhildar Láru


Ég læt þó nægja að birta uppskrift sem ætti að duga átta manns vel. Ég keypti þessar fínu papríkur og kom það sérstaklega á óvart að þær voru helmingi ódýrari en í Svíþjóð. 


Papríkur leika stórt hlutverk í gúllasi og notast maður bæði við ferskar papríkur sem og talsvert af papríkudufti. 



Fyrst er að skera niður laukinn - ég skar auðvitað niður talsvert af lauk og grét hraustlega á meðan! Þrír laukar eru skornir smátt niður ásamt fjórum til fimm stórum hvítlauksrifjum.


Potturinn er settur á hlóðirnar og laukurinn og hvítlaukurinn steiktur í góðri skvettu af jómfrúarolíu. Saltað og piprað. Þegar laukurinn var orðinn fallega gljáandi setti ég hann til hliðar. 



Næst var eitt kíló af góðu nautagúllasi skorið niður í munnbitastóra bita. Saltað og piprað. Það var síðan brúnað að utan í eina til tvær mínútur og svo sett til hliðar.



Faðir minn, Ingvar, var mér innan handar og var lipur við að skræla bæði gulrætur og kartöflur sem og sneiða niður papríkur enda var af nógu að taka. 

Næst var að bragðbæta kjötið. Ég setti tvær msk af papríkudufti - og svo eina msk af reyktu papríkudufti. Ein og hálf tsk af venjulegu kúmeni og svo þrjár tsk af marjorami. 

Því næst setti ég tvær dósir af niðursoðnum tómötum, eina litla dós af tómatpuré og svo einn og hálfan lítra af vatni og svo fjóra nautateninga auk 1/3 flösku af rauðvíni. Saltað og piprað. 






Þá voru fjórar gulrætur skornar niður, þrjár papríkur og kíló af kartöflum (flysjaðar og skornar í bita) og bætt útí súpuna. Soðið upp að nýju. 





Til að gera fyrir sextíu - margfaldið bara uppskriftina með átta! Ekkert vandamál!



Við bökuðum síðan brauð fyrir alla hersinguna! Hlutföllin voru nokkurn veginn á þessa vísu; 700 gr af hveiti, þrjár tsk af geri, tvær til þrjár tsk af salti, þrjár msk af jómfrúarolíu og svo sirka hálfur lítri af volgu vatni. Valdís stóð sig vel!



Fyrst var þurrefnunum blandað saman og svo var vökvanum bætt saman við. Hnoðað vel saman! Og Villi lét ekki deigan síga!



Allir fengu að taka til hendinni.  Brauðin fengu síðan að hefast yfir nóttina - mótuð í brauðhleifa og voru síðan bökuð í 200 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. 


Við bárum fram fjölbreytt úrval af ostum, heimagert túnfisksalat sem og rækjusalat. Hituðum nóg af kaffi og svo gerðum við skúffuköku að hætti ömmu Lilju - sjá hér!



Súpan var síðan borin fram með smá klípu af sýrðum rjóma og smávegis af steinselju. 

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment