Thursday 1 November 2012

Gómsæt fiskibaka með keilu, þorski, laxi og reyktri ýsu


Núna erum við búinn að vera á Íslandi í góðu yfirlæti síðan á fimmtudaginn í síðustu viku. Og við erum búinn að hafa það gott - sérdælis gott. Við fengum feikigóða fiskiveislu á föstudagskvöldið heima hjá mömmu og pabba - hægt er að sjá nokkrar myndir hérna. Á laugardaginn fórum við svo í brunch til Viggu og Bassa vina okkar og fengum ljúffengar pylsur og hvítlauksommilettu. Um kvöldið var okkur síðan boðið í bestu nautasteik allra tíma heima hjá Sverri og Bryndísi - ALLRA TÍMA! Kem nánar að því síðar, þar sem hún verður svo sannarlega endurtekin! Og á sunnudaginn vorum við síðan með nafnaveislu fyrir örverpið okkar - Ragnhildi Láru! Þá elduðum við gúllassúpu og bökuðum brauð - wonderful!

Og það eru ekki leiðinlegir dagar framundan. Við erum dugleg að fara í sund - erum að gera okkar besta til að þræða sundlaugarnar á höfuðborgarsvæðinu. Ætli að við förum ekki í Kópavoginn seinna í dag! Ég er líka búinn að kíkja nokkrum sinnum við í Veggsport og hitt þar gamla skvassvini og spilað nokkra leiki! Svo erum við að fara í matarboð nánast á hverju kvöldi þangað til að við förum í bústaðinn í Kjósinni á fimmtudaginn. Þá verður gengið til rjúpna! Stundum er svo gaman að vera til að maður fer að efast hvort að maður eigi þetta allt yfir höfuð skilið!Þennan rétt hef ég eldað einu sinni áður - það var einhvern tíma árið 2007 og þá gerði ég hann með aðeins öðru sniði. Núna er ég búinn að sníða af honum þá fáu vankanta sem voru á honum og í kvöld heppnaðist hann alveg fullkomlega.

Gómsæt fiskibaka með keilu, þorski, laxi og reyktri ýsuÉg kom við í fiskibúðinni Hafberg í Vogunum á leiðinni heim úr sundi í gær og sótti nokkrar tegundir af fiski. Það er sennilega óþarfi að hafa alla þessa fjölbreyttni en ég gat bara ekki staðist freistinguna að kaupa allan þennan fisk. Hann leit bara svo vel út í fiskborðinu. Ég sótti 250 gr af eftirtöldu; þorski, laxi, kinnfiski, keilu og svo reyktri ýsu (ekki sleppa henni þar sem hún er svona ... púnkturinn yfir i-ið!)Þegar heim var komið setti ég einn lítra af nýmjólk á hlóðirnar, bætti við salti, pipar, þremur lárviðarlaufum og svo hálfum lauk sem hafði verið stunginn með nokkrum negulnöglum. Hitaði mjólkina að suðu og tók hana síðan af hitanum. Fiskinn, sem ég hafði skorið niður í munnbitastóra bita, setti ég varlega ofan í og létt standa í heitri mjólkinni í sjö eða átta mínútur. Þá var fiskurinn veiddur upp og settur í eldfast mót sem hafði verið penslað með hvítlauksolíu.Hellti mjólkinni í gegnum sigti og lét standa á meðan að ég bjó til smjörbollu, roux, úr 30 gr af smjöri og 30 gr af hveiti. Þegar smjörbollan var tilbúin hellti ég 500 ml af heitri fiskmjólkinni og hrærði vel í á meðan. Soðið í nokkrar mínútur til að elda hveitibragðið úr bechamél sósunni. Bechamél sósunni var síðan hellt varlega yfir fiskinn.Mamma gerði þessa ljómandi góðu kartöflumús, 800 gr af kartöflum - flysjaðar og soðnar í söltuðu vatni. Þvínæst bætti hún við salti, pipar, smá sykri og svo 100-150 ml af mjólk (háð því hversu mjölmiklar kartöflurnar eru). Hrært vel saman.Kartöflumúsinni var síðan sprautað yfir fiskinn og kartöflurnar síðan ýfðar upp með gaffli. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 15 mínútur og síðan sett undir grillið í örskotstund til að fá fallegan lit á yfirborðið.Bakan var ekkert lítið girnileg þegar hún var tekin út úr ofninum.

Með matnum gæddum við okkur á hvítvínssopa! Við áttum flösku af Castillo de Molina frá því 2011 Chardonnay. Þetta vín er frá Chile og er afbragðsgott hvítvín. Ávaxtaríkt í nefi, perur og einnig á bragðið, þétt á tungu og létt eikað í lokin. Við vorum sammála um að maturinn hafi verið að ljómandi vel heppnaður. Alltaf gott að hafa góðan fisk í upphafi vikunnar!

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment