Sunday 8 April 2012

Gómsætur villtur og svikinn héri með villisveppasósu og kartöflumús





Það eru komnir páskar. Það hefur vart farið fram hjá neinum. Á döfinni hjá okkur er að elda réttinn sem ég var með í seinustu færslu. Eins og ég sagði þá vorum við svo heppinn að tengdafaðir minn, Eddi, kom með lambarifjur frá Íslandi þegar hann kom til okkar í heimsókn núna á miðvikudaginn síðastliðinn. Við höfum reynt að vera góð við hann þessa síðastliðnu daga. Á föstudaginn langa fórum við í langan bíltúr til Höganås og keyptum ittala glös og þegar heim var komið elduðum við steik og bernaise að beiðni eiginkonu minnar. Laugardagskvöldið matreiddum við síðan elgsinnanlæri með rauðvínssósu sem mun án efa birtast á blogginu mínu. Við höfum því ekki soltið frekar en fyrri daginn.

Við höfum ekki farið á mis við páskahretið - hér hefur verið ískalt og blásið þannig að það nísti inn að beini. Það snjóaði meira að segja í nótt og í morgun sem er óvenjulegt fyrir þennan árstíma hér á Skáni. Maður verður þá bara að kynda í arninum og hlýja sér eins og framast er kostur!

Þennan rétt þekkja flestir. Svikinn héri er klassískur nautahakksréttur sem var í miklu uppáhaldi á mínu heimili þegar ég var að vaxa úr grasi. Þetta var gjarnan borið fram á virkum dögum og þótti ansi flott. Og gott var það - ég man að ég var aldrei vonsvikinn með þennan rétt. Þetta hef ég eldað einstaka sinnum og meira að segja bloggað um það einhverntíma á bernskuárum þessa bloggs!

Að þessu sinni nota ég elgshakk sem ég fékk gefins frá nágrönnum mínum Gustav og Ulriku Brogren en Gustav er lunkinn veiðimaður. Ég ákvað að elda "hérann" í þessu terrine móti sem ég keypti þegar við vorum að ferðast um Frakkland 2010. Ég fann þennan í verslun í Colmar og það var hægt að kaupa þessa leirpotta í mörgum stærðum og gerðum og skreytta á ólíkan máta! Ég hef aldrei notað fatið áður. Það hefur mestmegnis verið til skreytingar útí í eldhúsglugga hjá mér.

Gómsætur villtur "svikinn héri" með villisveppasósu og kartöflumús 
Vilhjálmur Bjarki, sonur minn var mér innan handar í eldhúsinu, hann fékk af fylla mótið, raða eggjunum og flétta beikonið. Og var mjög svo ánægður með afraksturinn!



Það fyrsta sem ég gerði var að þvo fatið! Ekki veitti af því að það hafði setið útí í glugga síðan haustið 2010 og verið notað undir kryddjurtir sem ég verið að reyna að halda lífi í! Ansi laglegur pottur, ekki satt?






Eins og ég nefndi þá hafði ég fengið gefins nokkur kíló af ólíkri villibráð. Fékk kjöt af elg, villisvíni og dádýri. Að þessu sinni valdi ég að nota elginn. Við höfum gert hamborgara úr elgshakki og það var alger upplifun. Elgur er ansi fitulítið kjöt þannig að það er ráðlegt að blanda öðru hakki samanvið. Klassískt er að bæta smáræði af feitu svínahakki saman við til að auka fituinnihaldið. Ég notaði 150 gr af nautahakki sem ég átti til inn í frysti. Samtals var þetta þá um 800 gr af kjöti.






Til að gera góðan "svikinn hérna" þarf að bragðbæta kjötið lítillega. Fyrst fínhakkaði ég einn rauðlauk, sellerístöng, gulrót og svo tvö hvítlauksrif og bætti saman við. Síðan 1-2 msk af herbes de provance (kryddblanda sem inniheldur gjarnan; rósmarín, fennel, basil, timian og stundum lofnargjörð).

Síðan setti ég 50 ml af þessum jólabjór sem ég fann inn í kæli. Þetta er óvenjulega bragðmikill og reyktur bjór. Ágætur alveg - en það kraftmikill að maður nýtur ekki nema 2-3 sopa og þá er maður mettur af þessu sérstaka bragði. En hann sómir sér vel í bakgrunni í rétti eins og þessum. Deigið var síðan hnoðað saman í hrærivélinni þangað til að það var vel blandað.



Síðan lagði ég beikonsneiðar í botninn á mótinu þannig að helmingurinn stóð upp úr, þannig að hægt væri að vefja deigið alveg inn í beikonhjúp! Setti fyrst helminginn af kjötinu og raðaði síðan þremur soðnum eggjum (hugmyndin að þessu er komin frá kjötbúðingum frá Sikiley en þar tíðkast að setja soðinn egg í hleifinn). Raðaði síðan kjötinu í kring.



Svona leit þetta út þegar búið var að flétta allt beikonið.



Þá var hleifurinn setturinn inn í ofn og bakaður í rúma klukkustund við 200 gráðu hita. Hleifurinn lætur frá sér talsvert að vökva sem blandað er saman við sósuna. Þegar maður er með svona góðgæti má ekkert fara til spillis!



Annars gerði ég einfalda sveppasósu. Steikti fyrst venjulega sveppi, kannski 5-6 stóra niðurskorna, í smá smjörklípu. Bætti síðan við nokkrum Slippery Jack sveppum sem ég hafði týnt síðasta haust (hafði látið þá liggja í sjóðandi vatni í 30 mínútur til að sjúga í sig vatnið aftur). Skar þá líka niður og bætti við hina sveppina. Geymdi vatnið til að bæta við sósuna. Saltaði og pipraði. Bætti við helmingnum af sveppavatninu og síðan öllum vökvanum af kjötinu. Skvetta af rjóma og loks var sósan þykkt með maizena mjöli.



Með matnum drukkum þetta vín, sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Coto de Imaz Gran Reserva frá því 2000. Þetta er Rijoa vín frá Spáni gert úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er þroskað vín - kryddað. Þetta vín hefur bragð af þroskuðum kirsuberjum, súkkulaði með löngu og ríku eftirbragði. Passaði frábærlega með matnum



Villti svikni hérinn var síðan borinn fram með einfaldri kartöflumús sem var gerð eftir hefðbundinni aðferð, með klípu af smjöri, mjólk, salt og pipar. Alger óþarfi að skreyta hana meira þar sem hérinn og sósan áttu að leika aðalhlutverkið!

Þetta var frábær máltíð!
Tími til að njóta!

1 comment:

  1. Theodór Magnússon10 April 2012 at 15:09

    Þakka fyrir þetta - mjög girnilegt og flott - mun prófa þetta með hreindýrahakki (á ekki annað villilegt)

    ReplyDelete