Showing posts with label villisveppasósa. Show all posts
Showing posts with label villisveppasósa. Show all posts

Sunday, 8 April 2012

Gómsætur villtur og svikinn héri með villisveppasósu og kartöflumús





Það eru komnir páskar. Það hefur vart farið fram hjá neinum. Á döfinni hjá okkur er að elda réttinn sem ég var með í seinustu færslu. Eins og ég sagði þá vorum við svo heppinn að tengdafaðir minn, Eddi, kom með lambarifjur frá Íslandi þegar hann kom til okkar í heimsókn núna á miðvikudaginn síðastliðinn. Við höfum reynt að vera góð við hann þessa síðastliðnu daga. Á föstudaginn langa fórum við í langan bíltúr til Höganås og keyptum ittala glös og þegar heim var komið elduðum við steik og bernaise að beiðni eiginkonu minnar. Laugardagskvöldið matreiddum við síðan elgsinnanlæri með rauðvínssósu sem mun án efa birtast á blogginu mínu. Við höfum því ekki soltið frekar en fyrri daginn.

Við höfum ekki farið á mis við páskahretið - hér hefur verið ískalt og blásið þannig að það nísti inn að beini. Það snjóaði meira að segja í nótt og í morgun sem er óvenjulegt fyrir þennan árstíma hér á Skáni. Maður verður þá bara að kynda í arninum og hlýja sér eins og framast er kostur!

Þennan rétt þekkja flestir. Svikinn héri er klassískur nautahakksréttur sem var í miklu uppáhaldi á mínu heimili þegar ég var að vaxa úr grasi. Þetta var gjarnan borið fram á virkum dögum og þótti ansi flott. Og gott var það - ég man að ég var aldrei vonsvikinn með þennan rétt. Þetta hef ég eldað einstaka sinnum og meira að segja bloggað um það einhverntíma á bernskuárum þessa bloggs!

Að þessu sinni nota ég elgshakk sem ég fékk gefins frá nágrönnum mínum Gustav og Ulriku Brogren en Gustav er lunkinn veiðimaður. Ég ákvað að elda "hérann" í þessu terrine móti sem ég keypti þegar við vorum að ferðast um Frakkland 2010. Ég fann þennan í verslun í Colmar og það var hægt að kaupa þessa leirpotta í mörgum stærðum og gerðum og skreytta á ólíkan máta! Ég hef aldrei notað fatið áður. Það hefur mestmegnis verið til skreytingar útí í eldhúsglugga hjá mér.

Gómsætur villtur "svikinn héri" með villisveppasósu og kartöflumús 
Vilhjálmur Bjarki, sonur minn var mér innan handar í eldhúsinu, hann fékk af fylla mótið, raða eggjunum og flétta beikonið. Og var mjög svo ánægður með afraksturinn!



Það fyrsta sem ég gerði var að þvo fatið! Ekki veitti af því að það hafði setið útí í glugga síðan haustið 2010 og verið notað undir kryddjurtir sem ég verið að reyna að halda lífi í! Ansi laglegur pottur, ekki satt?






Eins og ég nefndi þá hafði ég fengið gefins nokkur kíló af ólíkri villibráð. Fékk kjöt af elg, villisvíni og dádýri. Að þessu sinni valdi ég að nota elginn. Við höfum gert hamborgara úr elgshakki og það var alger upplifun. Elgur er ansi fitulítið kjöt þannig að það er ráðlegt að blanda öðru hakki samanvið. Klassískt er að bæta smáræði af feitu svínahakki saman við til að auka fituinnihaldið. Ég notaði 150 gr af nautahakki sem ég átti til inn í frysti. Samtals var þetta þá um 800 gr af kjöti.






Til að gera góðan "svikinn hérna" þarf að bragðbæta kjötið lítillega. Fyrst fínhakkaði ég einn rauðlauk, sellerístöng, gulrót og svo tvö hvítlauksrif og bætti saman við. Síðan 1-2 msk af herbes de provance (kryddblanda sem inniheldur gjarnan; rósmarín, fennel, basil, timian og stundum lofnargjörð).

Síðan setti ég 50 ml af þessum jólabjór sem ég fann inn í kæli. Þetta er óvenjulega bragðmikill og reyktur bjór. Ágætur alveg - en það kraftmikill að maður nýtur ekki nema 2-3 sopa og þá er maður mettur af þessu sérstaka bragði. En hann sómir sér vel í bakgrunni í rétti eins og þessum. Deigið var síðan hnoðað saman í hrærivélinni þangað til að það var vel blandað.



Síðan lagði ég beikonsneiðar í botninn á mótinu þannig að helmingurinn stóð upp úr, þannig að hægt væri að vefja deigið alveg inn í beikonhjúp! Setti fyrst helminginn af kjötinu og raðaði síðan þremur soðnum eggjum (hugmyndin að þessu er komin frá kjötbúðingum frá Sikiley en þar tíðkast að setja soðinn egg í hleifinn). Raðaði síðan kjötinu í kring.



Svona leit þetta út þegar búið var að flétta allt beikonið.



Þá var hleifurinn setturinn inn í ofn og bakaður í rúma klukkustund við 200 gráðu hita. Hleifurinn lætur frá sér talsvert að vökva sem blandað er saman við sósuna. Þegar maður er með svona góðgæti má ekkert fara til spillis!



Annars gerði ég einfalda sveppasósu. Steikti fyrst venjulega sveppi, kannski 5-6 stóra niðurskorna, í smá smjörklípu. Bætti síðan við nokkrum Slippery Jack sveppum sem ég hafði týnt síðasta haust (hafði látið þá liggja í sjóðandi vatni í 30 mínútur til að sjúga í sig vatnið aftur). Skar þá líka niður og bætti við hina sveppina. Geymdi vatnið til að bæta við sósuna. Saltaði og pipraði. Bætti við helmingnum af sveppavatninu og síðan öllum vökvanum af kjötinu. Skvetta af rjóma og loks var sósan þykkt með maizena mjöli.



Með matnum drukkum þetta vín, sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Coto de Imaz Gran Reserva frá því 2000. Þetta er Rijoa vín frá Spáni gert úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er þroskað vín - kryddað. Þetta vín hefur bragð af þroskuðum kirsuberjum, súkkulaði með löngu og ríku eftirbragði. Passaði frábærlega með matnum



Villti svikni hérinn var síðan borinn fram með einfaldri kartöflumús sem var gerð eftir hefðbundinni aðferð, með klípu af smjöri, mjólk, salt og pipar. Alger óþarfi að skreyta hana meira þar sem hérinn og sósan áttu að leika aðalhlutverkið!

Þetta var frábær máltíð!
Tími til að njóta!

Tuesday, 19 July 2011

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli meðgráðaosti og heilbökuðum kartöflum




Eilífsdalur

Jæja - þetta verður síðasta færslan frá Lækjarkoti að sinni, því verr og miður. Þetta voru dásamlegir dagar í fallega Lækjarkotinu. Við vorum líka einkar veðurheppin, fengum íslenskt sumar rétt fyrstu dagana, en svo þegar komið var í Kjósina leit sólin fram úr skýjunum og dvaldi þar með okkur allan tímann. Og fátt er betra en íslensk sumarnótt, að sitja í heita pottinum og horfa út á spegilslétt Meðalfellsvatnið. Og halda svo veislur - mitt uppáhald.

Eins og kom fram í síðustu færslum vorum við með fullt hús gesta nær allan tímann. Og það var frábært. Þetta laugardagskvöld var engin undartekning - við vorum sennilega 12 fullorðin við borðið auk barna. Húsið var fullt af gleði, mat og góðum vínum. Svona eiga laugardagskvöld í sveitinni að vera.

Fórum og sóttum kjötið að Hálsi sem er í Kjósinni. Þar reka ábúendur litla verslun þar sem hægt er að kaupa vörur sem eru unnar á bænum, bæði nautakjöt og svo ýmsar sultur og fleira góðgæti sem húsfreyjan á bænum útbýr. Þetta er falleg lítil sveitaverslun og gaman að sjá að svona fyrirtæki þrífist. Hvet fólk til að líta þarna við.

á gítar

Dásamleg nauta prime-ribroast með furusveppasósu, brokkáli með gráðaosti, heilbökuðum kartöflum

furusveppir

Við fengum nokkur nautabein með steikunum okkar sem við notuðum í að undirbúa soðið fyrir sósuna. Fyrst var að nudda beinin með olíu, salta og pipra og svo setja á grillið við óbeinan hita í nokkrar mínútur til að brúna þau. Síðan var bara gert eins og á að gera, steikja gróft skorinn lauk, tvær sellerísstangir, tvær gróft skornar gulrætur og nokkur hvítlauksrif í olíu með salti og pipar þar til mjúkt. Þá er að bæta við beinunum og svo setja vatn þangað til að það flýtur yfir beinin. Nokkur lárviðarlauf og láta suðuna koma upp. Þegar hitinn eykst fer brúnlituð froða að birtast á yfirborðinu - allir púritanar myndu fleyta henni ofan af sem ég og gerði. Hvað gerist geri maður þetta ekki er erfitt að segja - en soðið yrði gruggugra en ella - en hvort að það hefði áhrif á bragðið verða gáfaðri menn en ég að greina frá um.

sveppir

Svo var bara að sjóða beinin eins lengi og tími leyfði og síðan að sjóða vökvann niður um sjötíu prósent. Sía soðið og leggja til hliðar. Pabbi og mamma áttu furusveppi sem æskuvinur pabba, Diddi fiðla og kona hans Ásgerður, höfðu tínt í Borgarfirðinum. Þau höfðu þurrkað þá þannig að þá þurfti að bleyta í þeim með heitu vatni. Leiðbeiningar kveða á um að maður eigi síðan að henda vatninu - en slíkt finnst mér fásinna, þannig að það fékk að blandast soðinu. Til að drýgja sveppina hafði ég einnig keypt nokkra sveppi sem ég skar niður þunnt. Steikti sveppina upp úr smjöri ásamt furusveppunum.

kjöt

Næsta skref var að búa til smjörbollu; 90 gr af smjöri, jafnmikið af hveiti hitað í potti og svo var soðinu hellt saman (1 1/2 lítra) við og hrært stöðugt. Sveppunum var bætt saman við og suðan látin koma upp. 250 ml af rjóma var síðan bætt saman við, saltað og piprað. Soðið niður í nokkrar mínútur þangað til að að sósan var þykk og falleg.

ágrillinu

Það þurfti ekki að gera mikið við nautakjötið. Það var nuddað upp úr jómfrúarolíu, salti og pipar og svo látið hvíla á meðan að kolin á tunnugrillinu hans föður míns hitnuðu. Steikurnar voru síðan grillaðar í 2 mínútur á hvorri hlið þangað til að þær voru eldaðar eins og best er (að mínu mati) - medium rare.

af grillinu

Ef þetta er ekki girnilegt þá veit ég ekki hvað!

pabbimeðbrokkál

Við suðum brokkál stutta stund, en það var splúnkunýtt frá Frú Laugu á Laugalæk (fann búðina á Facebook), í söltuðu vatni. Þá bjuggum við til einfalda ostasósu - bita af Ljúflingi, bita af blámygluosti, skvettu af rjóma og dálitlu (!) smjöri; sett á eld þangað til að osturinn var bræddur.

brokkálssósa

Brokkkálið var svo sett í eldfast mót og svo var ostasósunni hellt varlega yfir. Saltað vel og piprað.

brokkálmeðsósu
Grilluðum einnig kartöflur með matnum, fyrst voru þær forsoðnar í nokkrar mínutur í söltuðu vatni, svo hristar með smá olíu, salti og pipar og svo slengt á grillið í 15-20 mínútur þangað til að maturinn var tilbúinn.

kartöflur

Með matnum drukkum við algerlega stórfenglegt vín - Montes Alpha M frá því 2006 sem er vín frá Chile. Þetta er vín sem er að mestu leyti gert út Cabernet Sauvignion 80%, Cabernet Franc 10%, Merlot 5% og Verdot þrúgum. Þetta vín keypti ég í tollinum á leið til landsins - það er ekki gefins og ég hef aldrei lagt í að kaupa þetta áður - en mig hefur langað mjög lengi að prófa það. Þeir sem lesa bloggið mitt vita hversu hrifinn ég er af víni frá þessum framleiðenda. Ég held ég þurfi varla að tíuanda það - Montes Alpha Cabernet Sauvignion er eitt af mínum uppáhalds vínum frá því að ég byrjaði að drekka vín að einhverju viti. Þetta er dökkt vín í glasi - fallega þykkt og lekur af börmunum þegar því hefur verið velt í glasinu. Bragðið af dökkum ávöxtum, jafnvel útí lakkrís, djúpt eikað og með löngu eftirbragði. Hlakka til að drekka það aftur.

matur-1

Bon appetit.


Tuesday, 16 January 2007

18 manna matarboð - framhald

Það er best að halda áfram að greina frá þessu matarboði. Ég er afar stoltur af því hvað það heppnaðist vel - hef aldrei áður eldað fyrir svona marga - og hvað þá fimm réttað.

Í aðalrétt var ég með grillaðar andabringur. Þær voru eldaðar á eins einfaldan máta og hugsast getur. Látnar þiðna í rólegheitum í ískáp. Þvegnar, þurrkaðar. Því næst saltaðar og pipraðar og steiktar á grillpönnu þar til fitan varð karmelliseruð og knassandi (2-3 mínútur) og svo aðeins á hinni hliðinni. Svo var bringunum skellt í ofn sem var um 170 gráðu heitur í rúmar 10 mínútur. Var með hitamæli í kjötinu.

Með þessu var ágætis villisvepparauðvínssósa sem var elduð á þessa leið; niðurskorinn hvítlaukur, laukur, sellerí og gulrætur steiktar í potti í ólívuolíu. Ég keypti tvennskonar þurrkaða sveppi sem ég lagði fyrst í volgt vatn og svo sjóðandi vatn í nokkrar mínútur. Þegar grænmetið er farið að mýkjast er vatninu af sveppunum hellt í pottinn (ca 1 L), auk þess setti ég hálfa flösku af Vicar's choice Pinot Noir útí og suðan fékk að koma upp. Saltað og piprað. Villibráðakraft að hvaða tagi sem er er sett ofan í og svo meira vatn.  Suðan fær að koma upp og svo soðið niður á nýjan leik. Þetta fékk að sjóða með lokið á í rúma 2 tíma. Næst er grænmetið skilið frá og soðið sett aftur í pott og látið malla. Villisveppunum var núna bætt útí og soðið smakkað til. Saltað og piprað. Þegar sósan var að verða tilbúinn var 2 msk af gullgráðaosti bætt útí ásamt 2 msk af rifsberjasilli og svo pela af rjóma er bætt útí og sósan soðin áfram og þykkt aðeins með maizenamjöli. Ég maukaði grænmetið sem kom úr soðinu með töfrasprota og bragðibætti sósuna með þessu - það bæði bragðbætir og þykkir hana - ég endaði með því að nota um um fjórðung af grænmetinu aftur ofan í sósuna
Meðlætið að þessu sinni var þrennskonar. Fyrst voru kartöflur og sætar kartöflur skornar í bita og lagt í eldfast mót, ólívuolíu hellt yfir, saltað og piprað og nóg af rósmarín sett með. Bakað í ofni í 40 mínútur við ca 200 gráður.

1 1/2 haus af rauðkáli var sneitt niður. 1 pakki af beikoni var skorinn í bita og steikt í potti og tveimur söxuðum grænum eplum var því næst sett útí ásamt rauðkálinu. Þetta fékk aðeins að mýkjast í pottinum. Svo var 100 ml af Balsamic vinegar bætt saman við sem og 2 msk af Maple sýrópi. Saltað og piprað. Rauðkálið, eplin og beikonið er því nánast soðið niður í edikinu. Lyktin er alveg dásamleg sem kemur af þessu.
Í lokin var svo hvítlaukssteiktur aspas. Smár ferskur aspas var snyrtur og skolaður. Smjör hitað á pönnu og 5 smáttskornum hvítlauksrifjum bætt útí og látið mýkjast í smjörinu. Því næst er aspasinn settur útí og látin malla í hvítlaukssmjörinu.

Með matnum var drukkið Vicar's Choice Pinot Noir 2005, sem passaði afar vel með matnum. Bon appetit.

Monday, 15 January 2007

18 manna matarboð - hörkugaman

Ég er stjórnarmaður í Félagi ungra lækna og á hverju ári er kosin ný stjórn og haldin stjórnarskiptafundur. Ég hef fengið leyfi stjórnarmanna að halda þennan fund heima hjá mér bæði í fyrra og núna í ár. Í fyrra voru 14 manns í mat en núna komu einnig fulltrúar læknanema og því voru 18 manns í mat. Það verður að viðurkennast að það er aðeins meira mál að elda fyrir 18 heldur en fyrir 6 manns - en það er líka rosalega gaman - að því gefnu að manni finnst yfir höfuð gaman að elda.

Ég byrjaði í gærmorgun um 10 leytið í gærmorgun að undirbúa matinn. Ég var með fimmréttað í matinn. Fyrst var humarsúpa, svo hörpuskel með serrano skinku og því næst var grafin svartfuglsbringa með salvíu og belgbaunstempúra. Í aðalrétt var steikt andabringa með rauðvínsvillisveppasósu með rauðkáli balsamico, hvítlaukssteiktum aspas og kartöflublöndu. Í eftirrétt var svo jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Jæja - best að byrja að þylja upp þessar uppskriftir.

Humarsúpa fyrir átján manns - borið fram í kaffibollum.

Fyrst tók ég 1 kg af smáhumri og hreinsaði humarinn frá skelinni. Braut svo humarskelina vel og rækilega. Hitaði ólifuolíu í stórum potti og setti skelina úti og steikti vel þar til hann fór að taka smá lit. Því næst setti ég tvo litla lauka, 3 gulrætur og 2 sellerístangir og 4 hvítlauksrif sem fyrst voru þvegin og niðurskorinn útí pottinn og leyfði því að svitna aðeins með humarskeljunum. Næst setti ég stóra dós af tómatpuré, hálfa flösku af La Joja Sauvignon blanc hvítvíni, smá Ceyanne pipar og 3 L af vatni og salt og pipar. Þessu leyfði ég svo að sjóða upp og sauð svo í um 6 klukkustundir með lokið á. Soðið var svo síað þannig að allt gumsið var skilið frá. Smjörbolla var útbúinn í pottinum, smjör hitað á pönnu, ca. 50-70 gr eftir magni súpunar og svo hveiti sáldrað yfir þar til þetta fer að líkjast mjúkum leir og þá er byrjað að hella súpunni yfir og hrært stöðugt. Þannig fær súpan meiri þykkt og fallegan gljáa. Hitað aftur upp og leyft að malla aðeins. Pela af rjóma var svo bætt saman við og hrært saman. Saltað og piprað og tónað aðeins með hvítvíni. Þegar um fimm mínútur eru eftir af eldunartímanum er humarnum bætt saman við. Þegar balans er náð - vesigú. Borið fram í kaffibollum og ferskri steinselju stráð yfir.

Þetta var serverað með heilhveitibollum fylltum Hrók, osti, sem heppnaðist vel. 2 tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni með 30 ml af maple sýrópi - leyft af vakna í um 10-15 mínútur. 2 bollum af hveiti var blandað saman við 1 1/2 bolla heilhveiti auk um 2 tsk af grófu salti og 30 ml af ólífuolíu. Allt hrært saman og leyft að hefast í um 2 klukkustundir. Deigið er svo barið niður og bollur útbúnar og hver bolla fyllt með smá sneið af hróki.

Í forrétt númer tvö var ég með hörpuskel vafna serrano skinku sem ég hef bloggað um áður sem og í forrétt númer þrjú svartfuglsbringur sem ég greindi frá fyrir tveimur dögum síðan þegar ég gróf þá í kryddblöndu.
Svartfuglsbringur með vinagrettu og salvíu/belgbauna tempúra.

Eins og ég greindi fra á miðvikudaginn þá gróf ég svartfuglsbringur í kryddblöndu. Á föstudaginn bjó ég til óvenjulega vinagrettu sem mun vera kominn frá Úlfari Finnbjörnssyni matreiðslumanni sem samanstóð úr 4 msk dökkum muscovado sykri, 2 tsk Worchershire sósu, 4 msk rauðvínsediki
2 msk Dion sinnepi, 4 msk valhnetuolíu og salti og pipar.

Jafnframt bjó ég til tempúradeig; 200 gr hveiti, 100 maizenamjöl, salt og sódavatni var blandað saman. Sódavatni var bætt úri þurrefnin þa til það hafði sömu þykkt og rjómi. Salvíu og belgbaunum var dýpt í þessa blöndu og sett í heita sólblómaolíu sem hafði verið forhituð og djúpsteikt þar til það var orðið gullið.
Þetta var ákaflega ljúffengt. Með þessu var drukkið La Joya Sauvignon blanc hvítvíni. Mun blogga aðalréttinn og eftirréttinn á morgun þar sem ég er aðeins eftir mig eftir gærkvöldið.