Monday 15 January 2007

18 manna matarboð - hörkugaman

Ég er stjórnarmaður í Félagi ungra lækna og á hverju ári er kosin ný stjórn og haldin stjórnarskiptafundur. Ég hef fengið leyfi stjórnarmanna að halda þennan fund heima hjá mér bæði í fyrra og núna í ár. Í fyrra voru 14 manns í mat en núna komu einnig fulltrúar læknanema og því voru 18 manns í mat. Það verður að viðurkennast að það er aðeins meira mál að elda fyrir 18 heldur en fyrir 6 manns - en það er líka rosalega gaman - að því gefnu að manni finnst yfir höfuð gaman að elda.

Ég byrjaði í gærmorgun um 10 leytið í gærmorgun að undirbúa matinn. Ég var með fimmréttað í matinn. Fyrst var humarsúpa, svo hörpuskel með serrano skinku og því næst var grafin svartfuglsbringa með salvíu og belgbaunstempúra. Í aðalrétt var steikt andabringa með rauðvínsvillisveppasósu með rauðkáli balsamico, hvítlaukssteiktum aspas og kartöflublöndu. Í eftirrétt var svo jarðaberja og brómberjakrumbl með vanillusósu.

Jæja - best að byrja að þylja upp þessar uppskriftir.

Humarsúpa fyrir átján manns - borið fram í kaffibollum.

Fyrst tók ég 1 kg af smáhumri og hreinsaði humarinn frá skelinni. Braut svo humarskelina vel og rækilega. Hitaði ólifuolíu í stórum potti og setti skelina úti og steikti vel þar til hann fór að taka smá lit. Því næst setti ég tvo litla lauka, 3 gulrætur og 2 sellerístangir og 4 hvítlauksrif sem fyrst voru þvegin og niðurskorinn útí pottinn og leyfði því að svitna aðeins með humarskeljunum. Næst setti ég stóra dós af tómatpuré, hálfa flösku af La Joja Sauvignon blanc hvítvíni, smá Ceyanne pipar og 3 L af vatni og salt og pipar. Þessu leyfði ég svo að sjóða upp og sauð svo í um 6 klukkustundir með lokið á. Soðið var svo síað þannig að allt gumsið var skilið frá. Smjörbolla var útbúinn í pottinum, smjör hitað á pönnu, ca. 50-70 gr eftir magni súpunar og svo hveiti sáldrað yfir þar til þetta fer að líkjast mjúkum leir og þá er byrjað að hella súpunni yfir og hrært stöðugt. Þannig fær súpan meiri þykkt og fallegan gljáa. Hitað aftur upp og leyft að malla aðeins. Pela af rjóma var svo bætt saman við og hrært saman. Saltað og piprað og tónað aðeins með hvítvíni. Þegar um fimm mínútur eru eftir af eldunartímanum er humarnum bætt saman við. Þegar balans er náð - vesigú. Borið fram í kaffibollum og ferskri steinselju stráð yfir.

Þetta var serverað með heilhveitibollum fylltum Hrók, osti, sem heppnaðist vel. 2 tsk af geri er vakið í 250 ml af volgu vatni með 30 ml af maple sýrópi - leyft af vakna í um 10-15 mínútur. 2 bollum af hveiti var blandað saman við 1 1/2 bolla heilhveiti auk um 2 tsk af grófu salti og 30 ml af ólífuolíu. Allt hrært saman og leyft að hefast í um 2 klukkustundir. Deigið er svo barið niður og bollur útbúnar og hver bolla fyllt með smá sneið af hróki.

Í forrétt númer tvö var ég með hörpuskel vafna serrano skinku sem ég hef bloggað um áður sem og í forrétt númer þrjú svartfuglsbringur sem ég greindi frá fyrir tveimur dögum síðan þegar ég gróf þá í kryddblöndu.
Svartfuglsbringur með vinagrettu og salvíu/belgbauna tempúra.

Eins og ég greindi fra á miðvikudaginn þá gróf ég svartfuglsbringur í kryddblöndu. Á föstudaginn bjó ég til óvenjulega vinagrettu sem mun vera kominn frá Úlfari Finnbjörnssyni matreiðslumanni sem samanstóð úr 4 msk dökkum muscovado sykri, 2 tsk Worchershire sósu, 4 msk rauðvínsediki
2 msk Dion sinnepi, 4 msk valhnetuolíu og salti og pipar.

Jafnframt bjó ég til tempúradeig; 200 gr hveiti, 100 maizenamjöl, salt og sódavatni var blandað saman. Sódavatni var bætt úri þurrefnin þa til það hafði sömu þykkt og rjómi. Salvíu og belgbaunum var dýpt í þessa blöndu og sett í heita sólblómaolíu sem hafði verið forhituð og djúpsteikt þar til það var orðið gullið.
Þetta var ákaflega ljúffengt. Með þessu var drukkið La Joya Sauvignon blanc hvítvíni. Mun blogga aðalréttinn og eftirréttinn á morgun þar sem ég er aðeins eftir mig eftir gærkvöldið.

No comments:

Post a Comment