Wednesday 24 January 2007

Lax á fjóra vegu - New Scandinavian cooking og svo mín leið

Okkur hjónunum hefur alltaf þótt lax afar góður - erum sennilega ekki ein um það - vorum þó kominn í svona stemmingu að detta alltaf í sama farið þegar átti að elda lax. Ekki slæm uppskrift þó.

Mitt vers. Lax með roðinu lagður í eldfast mót, smurður með smá olíu, saltaður og pipraður. Blöndu af Kikkoman soya sósu og Teriaki sósu og smá ferskum sítrónusafa hellt um kring þannig að blandað náði svona uppá laxinn ca. 0,5 cm. Erfitt að segja til um hlutföllin - kannski tveir hlutar soya á móti 1 af teriaki og svo safi úr einni sítrónu? Sesam fræjum stráð yfir og sett í heitan ofn ca 180 gráður í ca 12 mínútur. Ferskum kóríander svo stráð yfir. Þetta var svo borið fram með Basmati hrísgrjónum og fersku salati.

New Scandinavian cooking

Þennan laxarétt hef ég eldað tvisvar sinnum áður. Þessi réttur er undir miklum áhrifum frá ungum norskum kokki sem heitir Andreas Viestad. Hann er skemmtilegur sjónvarpskokkur og hefur gefið út matreiðslubækur undir nöfnunum New Scandinavian cooking, hann rekur einnig heimasíðu ásamt kollega sínum Tina Nordström sem er Svíi - www.scandcook.com - hvað sem því líður - sá ég uppskrift eftir hann sem var alveg heillandi.

Þessi leið er sérstaklega góð þegar maður er að fá fólk í mat - mjög smart að vera með nokkrar tegundir af laxi þegar gesti ber að garði. Gott er að kaupa eitt stórt laxaflax og hluta það niður í þrennt eða bara kaupa þrjú jafnstór stykki. Álpappír er lagður á ofnplötu og brot sett í hann þannig að mismunandi sósur renni ekki á milli fiskbita.

Fyrsta vers. Laxinn er lagður á álpappir á ofnskúffu. Fersku rósmarín sem hefur verið lamið aðeins í morteli er stráð yfir laxinn. Svo er Dijion sinnep blandað við smávegis hunang þannig að úr verður honeymustard. Þessu er svo hellt yfir laxinn þannig að hann sé vel hulinn.

Annað vers. Laxinn er lagður á álpappir á ofnskúffu, smá skil eru sett í álpappírinn þannig að sósan renni ekki á milli. Soyasósa - helst einhver almennilega, eins og kikkoman, er soðin niður í potti um ca 2/3 - þannig að 1/3 er eftir. Þannig verður hún þykk og kröftug á bragið. Þessu er pennslað á laxaflakið og svo er sesamfræjum - stráð yfir.

Þriðja vers. Búið um laxaflakið eins og í fyrsta og öðru versi. Ostrusósu er hellt yfir flakið og dreift úr henni þannig að hún þekji flakið vel. Ferskur chilli er klofin niður og fræin fjarlægð - nema að maður vilji hafa þetta mjög sterkt. Chillinn er skorinn niður og stráð yfir flakið.

Laxinn er svo bakaður í heitum ofni í 12-14 mínútur við ca 180 gráðu hita.

Með þessu má svo bera fram hvað sem er. Ég hef borið fram Jasmín hrísgrjón með þessu, ferskt salat og einnig epli - sem hafa verið flysjuð,sneidd niður í skífur og  steikt með fersku rósmaríni í nokkrar mínútur úr ólívuolíu - afar gott.

1 comment:

  1. [...] Viestad nokkrum sinnum og líka þessa sem ég kalla mína eigin. Allavega er þessi færsla  hér ein af þeim fyrstu sem ég birti. Ætli ég geti ekki líka kallað þessa uppskrift mína eigin [...]

    ReplyDelete