Friday 12 January 2007

Matur hjá mömmu og undirbúningur fyrir matarboð

Fór í mat til mömmu og pabba í kvöld. Þar eldaði bróðir minn ítalska kjötsúpu eftir uppskrift móður minnar. Mamma er mjög stolt af þessari súpu og hún má vel vera það. Hún er kraftmikil og bragðgóð. Veit ekki alveg hvernig hún gerir þetta en get vel trúað því að þetta sé eitthvað á þessa leið; Lambakjöt er brúnað í potti með hvítlauk. Lauk, kartöflum, rófum, tómötum - niðurskornum í bita er sett saman við og steikt. Saltað og piprað. Því næst er ca 2-3 dósum af niðursoðnum tómötum, vatni, kraft, tómatpuré, rauðvín og lárviðarlauf sett saman við. Þessu er leyft að sjóða í dáldin tíma. Við lok eldunar sem tekur um 1-1 1/2 klst er ferskri steinselju bætt við. Borið fram með heitu brauði og fersku salati. Afar gott.

Ég huxa að hún sendi mér uppskriftina þegar hún les þetta - ef hún les þetta - hún hefur áreiðanlega einhverjar athugasemdir. Eins og mamma myndi segja "það margborgar sig"!

Annars hef ég verið að undirbúa matarboð sem ég er með á laugardaginn. Ég er með 17 manns í mat og það er að mörgu að hyggja. Þarf meðal annars að redda viðbót við borðið mitt - sem þó tekur tólf manns.

Ég hef verið að undirbúa einn af forréttunum sem boðið verður upp á. Það verður svona sjávarréttastemming yfir forréttunum. Er núna að fara að grafa svartfuglsbringur sem ég veiddi núna í haust á Faxaflóanum. Hef aldrei gert grafið svartfugl áður en hef borðað svona á jólahlaðborði einhverntíma og minnir að mér hafi fundist það gott. Allavega - þetta verður í bland við aðra rétti þannig að það verður látið á reyna.  Átti enga uppskrift af þessu og fann lítið á netinu fyrir grafinn svartfugl - nema prýðilega uppskrift fyrir grafna gæs. Skv. heimildum mun þessi uppskrift vera runninn undan rifjum Úlfars Finnbjörnssonar matreiðslumeistara. Þar sem þetta var fyrir svartfugl þá þurfti eitthvað að breyta þessu og mín útgáfa er eitthvað á þessa leið.

8 svartfuglsbringur voru þvegnar, þurrkaðar og huldar salti í 2 klst. Á meðan var 3 tsk ferskt timian, 5 tsk ferskt rósmarín, 1 tsk þurrkað basil, 1 1/2 tsk oregano, 5 tsk sinnepsfræ, 7-8 belgir af grænni kardimommu og 10 allspice kúlur muldar rækilega í morteli. Bringurnar er teknar upp úr saltinu, þurrkaðar vel og allar himnur og fita fjarlægð. Bringurnar voru umluktar vandlega með kryddblöndunni og látið í kæli. Ég mun láta þetta liggja fram á laugardag. Blogga þá um resúltatið og sósuna sem er með þessu.

1 comment:

  1. Valgerður Magnúsdóttir5 May 2011 at 19:16

    Sæll Ragnar Freyr, ég var að leita að uppskrift af gröfnum svartfugli á netinu og sá þá þessa uppskrift frá þér síðan 2007, mér lýst mjög vel á hana, en varst þú ánægður með árangurinn? hefur þér áskotnast fleiri uppskriftir af gröfnum svartfugli sem þú værir til í að ljóstra upp.
    Kveðja
    Vallý

    ReplyDelete