Friday 26 January 2007

Besta lasagna í heimi - Konan mín sigrar eldhúsið

Þar sem ég er afar fyrirferðamikill maður - þá sérstaklega í eldhúsinu - hefur það komið til minna kasta að sjá um eldhúsverkin. Þegar við hjónin vorum að byrja okkar búskap þá var það samkomulagsatriði okkar á milli að ég fengi að sjá um eldhúsið og Snædís konan mín tæki að sér þvottanna. Þetta eru sennilega bestu samningar sem ég hef náð. Konan mín er hinsvegar engin liðleskja í eldhúsinu - hún bara kemst varla að fyrir mér. Hún hefur hinsvegar eignast nokkra rétti þar sem ég kemst ekki með tærnar þar sem hún er með hælana. Ég hef talið þetta upp á vefnum mínum. Lasagnaið hennar er frábært en það hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin. Í fyrstu var borið fram snakk með matnum (saltaðar marud flögur) og einnig hefur hún alltaf gert Bechamel sósu til að nota á milli laga en uppásíðkastið hefur hún sett sýrðrjómasósu.
Sem betur fer hefur snakkið fengið að fjúka og í staðin reynum við að gera bragðgott salat og jafnframt hefur hún fengið hugmynd úr einum af bókum Jamie Oliver - mig minnir að það hafi verið Jamie's dinner's sem er afbragðs góð matreiðslubók - að gerð þessarar sýrðrjómasósu. Nýja útgáfan af lasagna hefur heppnast afar vel, samt í dag ákvað hún að gera gömlu útgáfuna and with a vengance - afar bragðgott.

Í kvöld tókust á þessar tvær stefnur - hefðbundið lasagna Snædísar eða Lasagna Snaedís nouveau. Set inn báðar uppskriftirnar í þessu bloggi - og báðar útgáfurnar eru afar góðar.

Kjötsósan er alltaf hin sama. Í heitri ólíu er steikt einn smátt saxaður rauðlaukur, 3 gulrætur, 1 sellerístöng, 2 hvítlauksrif og 125 gr af niðurskornum sveppum. Saltað og piprað. Svo er 500 gr af nautahakki sett á pönnuna og steikt áfram þar til allt er vel eldað. Kryddað með hvítlaukssalti, og smá pipar. 1 dós af niðursoðnum hökkuðum tómötum, 5 msk tómatsósu, 1/2 búnt af ferskri steinselju, 20 lauf af fersku basil og 1 msk oregano er bætt útí og hrært vel saman. Látið malla í 20-30 mínútur - en meiri tími mun ekki skemma kjötsósuna. Í lokin er bætt útí smá nýmjólk og matreiðslurjómi og látið malla áfram í 10 mínútur.

Nýja Bechamel sósan: 1 stór dós af kotasælu, 1 dós af sýrðum rjóma er blandað saman við 6 sneiðar af hökkuðum ansjósum (í olíu). Saltað og piprað. Raðað á milli laga. Margir munu undra þessar ansjósur - en þær gera réttinn bara betri - þær eru eins og náttúrulegt þriðja kryddið og getur gert kraftaverk í mat (það kemur ekkert fiskibragð af matnum - ég lofa) . Raðað á milli laga eins og gert er með venjulega Bechamel sósu.

Old school Bechamél: 100 gr af smjöri er hitað í potti. Þegar það er bráðnað er hveiti hrært útí þar til komin er smá klumpur sem er mjúkur og meðfærilegur. Því næst er farið að bæta mjólk útí,  ca 300 ml, þar til að sósan er orðin eins og þykkt vöffludeig. Stundum er sett múskat útí og stundum er settur smá parmesan - allt eftir smekk.

Lasagnað er búið til með að raða kjötsósu, Bechamel sósu aðlægt lasagne plötunum hæð eftir hæð þartil að búið er að fylla mótið. Rifnum osti eða parmesan osti er sáldrað yfir og bakað inn í ofni þar til að osturinn er fallega gullinn, ca 20 mínútur.

Borið fram með smávegis fersku salati, litlum baguette (konan mín fékk sér smá snakk). Með þessu var drukkið Val Sotillo crianza 2001. Ágætis vín sem hæfði matnum vel.

1 comment:

  1. Sæll Ragnar, ég hef fylgst með þér hér í töluverðan tíma og alltaf á leiðinni að prófa allar þessar gómsætu uppskriftir. Það varð þó úr að fyrsta uppskriftin varð uppskrift konunnar þinnar :) Við urðum ekki fyrir vonbrigðum - eitt besta lasagna sem við höfum smakkað!

    Takk fyrir okkur :) Ég prófa eitthvað af þínum uppskriftum næst ;)

    ReplyDelete