Friday 15 January 2016

Einfalt salat með safaríkri kjúklingabringu, rauðbeðum, eggjum og lárperuaioli

Ég hef í nokkur ár verið áhugasamur um lágkolvetnamatarræði. Áhugi minn vaknaði fyrir rúmum tveimur árum þegar vinur minn prófaði þetta matarræði og léttist um rúm 10 kíló á nokkrum mánuðum. Þrátt fyrir árangurinn var ég skeptískur, enda samviskusamlega uppalinn, sem læknir, um hættur fitu - sér í lagi mettaðar fitu. Ég hafði lengi haft dálítið samviskubit vegna dálætis míns á smjöri og rjóma en eftir því sem ég kynnti mér næringarfræðina nánar og sérstaklega rannsóknir sem liggja að baki fræðunum, hvarf samviskubit mitt eins og dögg fyrir sólu. Ég prófaði þetta matarræði í nokkra mánuði með góðum árangri og með góðri líðan. 

Eftir að hafa slegið slöku við í nokkur misseri, og nokkur kíló, var þörf að spýta í lófana og ýta kolvetnunum aftur á hliðarlínuna og einbeita sér að hollu og náttúrulegu matarræði. Þegar ég byrjaði aftur núna um áramótin ætlaði ég að einbeita mér að morgunverðinum þar sem mér hafði áður fundist það erfiðast. En ég hef ekki staðið mig í stykkinu, þar sem ég hef verið á of mikilli hraðferð á morgnanna til að gera eitthvað frumlegt! En ég hef ekki soltið - ommilettur, steikt egg, soðin egg með tómötum og majónesi og steikt beikon er ljúffengur morgunverður sem maður verður seint leiður á - og eins sumum er tíðrætt þá gefur morgunstund gull í mund.

En það er samt ekki morgunverðaruppskrift sem hér verður færð, heldur gerð grein fyrir afskaplega safaríkri kjúklingabringu, lágkolvetnaréttur, sem einfalt er að elda! 

Einfalt salat með safaríkri kjúklingabringu, rauðbeðum, eggjum og lárperuaioli

Slátrarinn niður á St. Georgsstræti selur frjálsar hænur í búðinni sinni á sanngjörnu verði. Mér finnst þær hverrar krónu virði. Þetta er hænur sem fá að vappa um frjálsar, lifa lengur og fá maís sem gerir kjötið dekkra og bragðmeira. Svona eins og kjúklingur á að bragðast.

Þessi eldamennska er eins einföld og hugsast getur - og niðurstaðan sérstaklega ljúffeng.

Fyrir fjóra 

4 kjúklingabringur
50 g smjör
salt og pipar
4 harðsoðin egg
75 g blandað salat
1/2 púrrulaukur
15 kirsuberjatómatar
1/2 rauður chilipipar
handfylli ferskt kóríander

4 msk majónes
1 lárpera (avókadó)
1 hvítlauksrif
salt og pipar


Byrjið á því að skola af kjúklingum, þerrið hann, saltið og piprið. Bræðið smjörið á pönnu og brúnið kjúklinginn að utan. Setjið hann svo í 180 gráðu heitan ofn í 20 mínútur eða þangað til að kjarnhiti hefur náð 72 gráðum. 

Sjóðið eggin og kælið. 


Leggið salatblöðin á disk, svo rauðbeður, tómata, púrrulauk í sneiðum. Leggið bringurnar ofan á, skreytið með niðursneiddu chili og ferskum kóríander.


Aiolið er einfalt. Skerið lárperuna í tvennt, takið steininn úr og skafið svo lárperuna úr hýðinu. Setjið í matvinnsluvél ásamt einu hvítlauksrifi og majónesi. Saltið og piprið. Maukið vandlega saman.


Raðið á disk - algert sælgæti.

Bon appetit!



No comments:

Post a Comment