Saturday 9 January 2016

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar




Það hefur verið nóg að gera síðastliðinn mánuð og bloggið mitt fengið að líða aðeins fyrir það. Ég hef þó reynt að vera duglegur á Fésbókinni. Átjánda desember lauk ég vinnu minni hjá Capio Movement í Halmstad. Síðasti vinnudagurinn var ansi óvenjulegur fyrir gigtarlækni en ég tók að mér að elda fyrir jólaveislu sjúkrahússins. Ég fékk aðstoð frá starfsfólki eldhússins, May og Maríu, og við vorum ekki í vandræðum með að snara fram fimm rétta máltíð fyrir 80 manns. Maturinn heppnaðist vel og allir voru ánægðir. Eftir matinn tók ég lest til Lundar þar sem ég var boðinn í jólaglögg hjá góðum vinum okkar, Addý og Gumma. Frábært kvöld sem lengi verður í minnum haft. 

Þann 21. desember byrjaði ég svo í nýrri vinnu í Englandi. Ég er sérfræðingur í gigtarlækningum á sjúkrahúsinu í Eastbourne í hálfu starfi og svo vinn ég einnig hjá einkafyrirtæki, MSK partnership, sem er samstarfsverkefni á milli hins opinbera og svo þeirra sem veita meðferð við stoðkerfissjúkdómum af öllu tagi. Okkar verkefni er að greina snemma sjúklinga með stoðkerfisvandamál og koma þeim strax til réttra meðferðaraðila þannig að sjúklingar séu ekki að velkjast í kerfinu alltof lengi eins og vill verða í þessum sjúkdómaflokki. Þetta er afar spennandi og viðamikið verkefni. Mitt hlutverk snýr að gigtarsjúkdómum, að sjá til þess að sjúklingar á upptökusvæði okkar í Austur Sussex með um hálfa milljón íbúa, fái þjónustu í takt við þarfir sínar. Verkefnið er þegar komið á fullt skrið. Mér hefur meira að segja verið boðið á læknadaga eftir tvær vikur til að greina frá þessu verkefni. 

Um áramótin keyrðum við til Austurríkis og áttum frábært skíðafrí á uppáhalds skíðahótelinu okkar, Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau, nema unglingurinn sem fór til Svíþjóðar að hitta vinkonur sínar. Vilhjálmur tók stórstígum framförum á brettinu, Ragga Lára lærði að standa í lappirnar (og á góðum degi bremsa). 

Við hlökkum til þessa árs með öllum þeim ævintýrum sem það kann að hafa í för með sér. Þetta verður spennandi ár með fullt af breytingum, ögrandi verkefnum, bókaútgáfu og tilheyrandi fjöri. 

Kraftmikil ommeletta með chorizopylsu, papriku og chilipipar

Þessi uppskrift var í bókinni minni sem kom út fyrir jólin 2014. Þetta er ommiletta sem ég geri reglulega, sérstaklega um helgar, þegar maður þarf að ná sér hressilega upp. 

Chorizo-pylsur eru upprunnar á Íberíuskaganum, nánar tiltekið á Spáni. Það er eiginlega ekki til nein ein ákveðin uppskrift að þessari pylsu heldur er hún til í mörgum útgáfum; fersk, gerjuð, reykt, sölt og sæt! Allar uppskriftir að henni eiga þó sameiginlegt að innihalda ríkulegt magn af reyktu paprikudufti, pimentón, sem gefur pylsunni sinn einkennandi rauða lit.

Ég er einkar hrifinn af þessari pylsu þar sem hún hefur mikið fituinnihald sem gerir það að verkum að hún karamellíserast sérlega vel við steikingu og steikist eiginlega best í fitunni sem rennur af henni. Í þessari uppskrift fær chorizo-pylsan að hitta nokkra vini sína, chili-pipar, papriku og jalapeño, og nokkur egg sem milda lokaniðurstöðuna. Þeir sem eru í stuði geta vandræðalaust bætt við Tabasco-sósu til að lyfta réttinum upp í enn heitari hæðir!

Hráefnalisti

Fyrir tvo

3 egg
2 chorizo-pylsur
½ gul paprika
½ græn paprika (½ af hvorri eða samtals?)
5-6 sneiðar jalapeño-pipar, (eiga þetta að vera 5-6 jalapeño-piparbelgir í sneiðum eða 5-6 sneiðar af jalapeño-piparbelg?)
1 lítill rauður chili-piparbelgur
50 g rifinn ostur
5-6 tsk sýrður rjómi – crème fraîche
2 msk ferskt kóríander
salt og pipar

Brjótið eggin í skál, bætið við einni teskeið af vatni og hrærið saman með gaffli. Saltið og piprið. Bræðið smjör á pönnu.


Skerið pylsurnar niður í sneiðar og steikið í smjörinu.


 Skerið niður paprikurnar og steikið með chorizopylsunum.


Hellið eggjunum út á pönnuna og hristið hana til svo að þau losni frá brúnunum. Þegar eggin eru byrjuð að eldast raðið jalapeno-piparnum á ommilettuna.  Þegar ommilettan er næstum tilbúinn, bætið niðursneidddum rauðum chilipipar út á pönnuna ásamt sýrðum rjóma.


Skreytið með ferskum kóríander

No comments:

Post a Comment