Sunday 24 January 2016

Nautalund "sous vide" með dásamlegri og ofureinfaldri piparsósu

Síðasta vika verður lengi í minnum höfð. Ég byrjaði á því að fara í vinnuna mína hjá MSK í Eastbourne, en að vinnudegi loknum fór ég með lestinni til Heathrow þar sem ég flaug til Íslands. Ástæða heimferðarinnar var þátttaka mín (og annarra auðvitað) á málþingi um stoðkerfisvandamál á Læknadögum sem voru haldnir í síðustu viku. 

Mér var boðið af hálfu félags gigtarlækna að greina frá vinnunni minni í Englandi. Ég vinn í hálfu starfi hjá fyrirtæki sem sér um skipulag og uppbyggingu stoðkerfaþjónustu í Austur Sussex. Mitt starf er að skipuleggja þátt gigtarlækna - byggja upp móttöku og svo þjálfa samstarfsaðila í meðferð gigtveikra. Það var gaman að segja frá starfinu, en það var ennþá skemmtilegra að fá að vera með á Læknadögum, þó að það væri ekki nema þennan eina dag. Íslendingar eru heppnir að eiga fullt af metnaðarfullum og hæfileikaríkum læknum. Nú þarf bara að spýta í lófana og byggja upp kerfið okkar. 

Ég fór líka á nokkra fundi þar sem ég lagði drög að heimkomu okkar til Íslands. Eins og staðan er í dag þá erum við að flytja heim til Íslands nú síðsumars. Ef allt fer eins og ég vona mun ég starfa bæði á spítalanum og vera með stofu. Að sjálfsögðu mun Læknirinn í Eldhúsinu ekki slá slöku við! Ný bók mun koma út á vormánuðum og vonandi verður nóg af fjöri í tengslum við hana. Hlakka til að segja ykkur meira frá þessu. 

Nautalund "sous vide" með dásamlegri og ofureinfaldri piparsósu 



Þessi færsla er í raun færsla um sósuna sem var með matnum en piparsósa er eitthvað sem kalla mætti klassíska franska bistrósósu. Það má tengja hana móðursósunum í gegnum kjötsoðið sem notað er til að leggja grunn að henni. Hún er samt ansi mikið bragðbætt, með pipar (eins og nafnið gefur til kynna), en einnig koníaki og svo rjóma.

Það er hægt að nota hvaða piparkorn sem er en mér finnst fallegast og best að nota græn piparkorn sem eru aðeins minna þroskuð en þau svörtu og hafa mildara bragð.

Kosturinn við þessa sósu að hún er fljótleg. Það sem helst tekur tíma er að mýkja laukinn, annað kemur eiginlega af sjálfu sér. Það er líka skemmtilegt að gera þessa sósu þegar gesti ber að garði, sér í lagi hafi maður þor til að flambera hana, en þá þarf að fara gætilega.

Hráefnalisti

2 msk saxaður skalottlaukur
1 hvítlauksrif
30 ml bolli koníak
150 ml kjötsoð
2 msk græn piparkorn
75 ml rjómi
2 tsk dijon-sinnep
salt
allur safi af kjötinu
sósujafnari (val)

Fyrir nautasteikina - farið eftir leiðbeiningum í þessari færslu!


Skerið laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið í smjörinu þangað til að hann er mjúkur og glansandi.


Skellið piparkornunum á pönnuna og steikið í hálfa mínútu eða svo.


Hellið svo koníakinu varlega á pönnunua og kveikið í því þannig að áfengið brenni upp (það er tilvalið að hafa gestina í eldhúsinu á þessu stigi, svona rétt til að monta sig!)


Svo er að bæta kjötsoðinu saman við.


Og svo rjómanum, og auðvitað öllum safanum sem fellur til við eldunina á kjötinu.


Sjóðið saman í nokkrar mínútur og smakkið svo til með salti og pipar þannig að gott jafnvægi sé í henni. Fyrir þá sem eru hrifnir af því að fá þykkari sósu, má þykkja hana með sósujafnara eða hræra 1-2 tsk af köldu smjöri samanvið - en þá fær hún einnig fallegan gljáa.



Með matnum drukkum við afbragðs gott rauðvín sem ég fékk gefins á meðan ég var á Íslandi. Peter Lehmann Mentor Cabernet frá því 2010. Þennan framleiðenda þekkja margir vínáhugamenn. Vínið kemur úr Barossa dalnum í suðurhluta Ástralíu. Og þetta er magnað vín - fullkomið til að hafa með nautalund. Ilmurinn af þroskuðum ávexti - dökkum berjum, skógur og krydd. Bragðið líka dásamlegt með eikarkeim og góðu jafnvægi. Þétt og ljúffengt eftirbragð. 

Það var líka ástæða til að fagna - dramatískar ákvarðanir teknar! Spennandi tímar framundan. 

No comments:

Post a Comment