Friday 11 July 2008

Stórgóður tyrkneskur kjúklingaréttur bættur sveskjum og furuhnetum, puy linsubaunarétt og fersku salati

turkey_istanbul_02 Ég sá þessa uppskrift í Morgunblaðinu föstudaginn 13. júní þegar ég var á leiðinni til San Francisco. Þar var Kristín Guðmundsdóttir skútuskipstjóri viðmælandi Morgunblaðsins í pistli sem þeir nefna matur. Í þessum pistlum hafa oft spennandi uppskriftir birst frá áhugakokkum (m.a. undirrituðum "mont dagsins"). Hvað sem því líður þá slefaði ég bara útum þegar ég las uppskriftirnar hennar. Þær eru innblásnar af miðjarðarhafinu, hráefninu sem fæst á mörkuðum þar og svo hvernig hún túlkar þær. Maður hreinlega getur vel ímyndað sér að skunda þangað suðureftir sérstaklega ef mann byðist svona matarveisla við komuna. Ég varð að stela þessum blaðsíðum - Nóta til Icelandair - afsakið innilega, ég var drifin áfram af innri öflum!

 

Ég hef oft verið að reyna að færa mig yfir Miðjarðarhafið í matargerð minni. Ég á eina frábæra matreiðslubók sem Halli og Guðný vinir mínir gáfu okkur hjónum þegar við fluttum inn í Skaftahlíðina - Crazy Water Pickled Lemons: Enchanted Recipes from the Middle East, Mediteranian and North Africaeftir Diana Henry. Þó ekki sé um ferðabók að ræða þásegir bókin frá reynslu höfundar að búa í hverfi í London þar sem mikið var um innflytjendur frá þessum svæðum og "gastronómísku" ferð hennar um þessi svæði með bragðlaukunum. Væntanlega stórkostleg ferð. Bókin er alltént frábær aflestrar.

 

mallandi linsur Það er margt gott um þennan rétt að segja. Hann er ódýr en jafnframt ljúffengur. Þarna er notast við ódýra bita af kjúklingum - leggina, ég notaði reyndar líka læri - þetta eru bitar sem gjarna eru á 20-40% afslætti í lágvöruverslununum. Bringur virðast hinsvegar vera verðlagðar eins og fíkniefni. Þegar að ég vil nota bringur í mat - þá kaupi ég nær alltaf heila kjúklinga og hluta þá niður og geymi það sem ég vill ekki nota í frysti. Þetta er einkar lítið mál að gera.

 

Tyrknesk veisla með kjúklingarétti með hrísgrjónum, furuhnetum og sveskjum með  linsubaunarétti og fersku salati.

 

salat með möndlum og lime Þess ber að geta að ég breytti réttinum lítillega frá því hvernig hann birtist í blaðinu. Slíkt er öllum kokkum heimilt og meira segja er það nóg til þess að segja að maður hafi hugsað þetta upp sjálfur. Ég reyni þó að geta heimilda - eiginlega vegna þess hversu stutt er frá því að þetta birtist - ef lengra hefði liðið hefði ég eignað mér uppskriftina sjálfur.

 

Fyrst eru 6-8 leggir, 6-8 læri söltuð og pipruð og svo steikt í smávegis jómfrúarolíu þartil þau taka lit, þ á eru þau lögð til hliðar (passa að henda ekki olíunni) og því næst eru 3 hvítir laukar, og 3 hvítlaukar (eins geira kínverskir hvítlaukar) eru skornir niður og steiktir í olíu í stórum potti þar til þeir eru mjúkir og glansandi. Ekki er gott að brúna laukinn eða hvítlaukinn því þá verður hann rammur á bragðið. Þá er kjúklingum bætt saman við, rúmlega hálfum lítra af rauðvíni - ég notaði Wolf blass Eaglehawk úr kassa en auðvitað hefði hvaða vín sem er dugað. Þá var tæpum líter af vatni hellt saman við, kjúklingakrafti í sama magni, 1 tsk chilliduft, 1 tsk koríander og 1 tsk papriku duft, 30 sveskjur og svo saltað vel og piprað.

Þetta var svo soðið í 30 mínútur. Þá voru 3 bollar af hrísgrjónum ásamt handfylli af furuhnetum steikt á pönnu í olíunni sem var notað til að steikja kjúklinginn og þegar þau fóru að glansa var linsubaunaréttur hálfu glasi af vatni bætt á pönnuna og  hún "deglazed" þannig að allt gums losnaði af pönnunni (fullt af bragði) þessu var svo bætt útí kássuna og leyft að malla við meðalhita í 45 mínútur.

 

Á meðan var linsubaunaréttur útbúinn. 2 glös af puy linsum var soðið skv. Leiðbeiningum. Því næst var einn stór rauðlaukur, 3-4 hvítlauksrif, 3 stórar flysjaðar gulrætur skornar í sneiðar steiktur á pönnu við lágan hita í 10 mínútur. Svo var 4 msk af tómatpuré  , 1 tsk chillisósa, 1 stór kjarnhreinsaður og smátt skorinn chilli, 1 tsk kóríander duft, 1 msk af harissa paste, saltað. Þá er linsunum bætt saman við og blandað vel. Í lokin er hálfu búnti af fersku kóríander sett saman við.

 

Með matnum var ferskt salat, nokkrir tómatar, rauð papríka, mozzarellaostur, ferskt basil, steinselja, möndlum, smá olía, limesafi, salt og pipar.

 

Þá var drukkið smá rauðvínsdreitill með Castello di Gabbiano Chianti Classico Riserva 2005 frá Ítalíu. Þetta er fremur óvanalegt vín. Dáldið hvasst í nefið en bragðið var ljúfara en ilmurinn gaf til kynna.  Vel kryddað með miklum dökkum ávexti að því mér finnst. Langt eftirbragð. Hefur ekki fengið einkunn á wine spectator en árgangur 2004 fékk 84 púnta sem er hin þokkalegasta einkunn.

pottréttur

 


No comments:

Post a Comment