Tuesday 28 July 2015

Ekta ítalskt lasagna frá grunni - með ríkulegri bechamél sósu!



Lasagna er ákaflega vinsæll réttur á þessu heimili. Lengi vel var það Snædís kona mín sem sá um að elda þennan rétt. Og það gerði hún sannarlega vel. Eftir að ég gerðist fyrirferðarmeiri í eldhúsinu hef ég séð um að elda lasagnað. Okkur hjónin greinir reyndar svolítið á um hvernig best er að standa að því að gera lasagna. Ég vil alltaf hafa fleiri lög af lasagnaplötum en Snædís og svo erum við ekki alveg sammála um hvernig raða skal sósunum í lasagnað. Við höfum þó náð málamiðlun í þessu eins og svo mörgu.




Lasagna er auðvitað upprunnið á Ítalíu, frá Emilia-Romagna-héraði. Það mun þó eiga einhver söguleg tengsl við Grikki og er það ekki ósennilegt þar sem lasagnað er ekkert svo ósvipað gríska réttinum moussaka.

Þetta er kjörinn réttur til að bjóða upp á í fjölmennum veislum. Auðvelt að undirbúa fyrirfram og nær öruggt að gestir verði sáttir.

Ekta lasagna frá grunni
Fyrir kjötsósuna:

600 g nautahakk
1 stór gulur laukur
2 gulrætur
2 sellerístangir
4 hvítlauksrif
3-4 lárviðarlauf
1 tsk ferskt tímían
1 glas rauðvín
2 msk tómatþykkni
2 dósir niðursoðnir tómatar
salt og pipar
tómatsósa (ef þarf)

Fyrir Béchamel-sósuna:

1½ l nýmjólk
90 g smjör
90 g hveiti
½ hvítur laukur
3-4 negulnaglar

500 g lasagnaplötur
150 g gratínostur/parmaostur

Kjötsósan löguð:



Byrjið á því að gera kjötsósuna. Skerið grænmetið niður smátt (eða hakkið í matvinnsluvél sem flýtir fyrir kjötsósugerðinni) og steikið í jómfrúarolíu. Saltið og piprið. Takið svo grænmetið úr pottinum til að steikja nautahakkið.

Brúnið nautahakkið í pottinum og gætið þess að ná því vel í sundur. Saltið og piprið.

Bætið grænmetinu við og hrærið vel saman.

Hellið rauðvíninu yfir og sjóðið upp áfengið. 



Þá er bara að bæta við niðursoðnu tómötunum, tómatþykkninu og kryddjurtunum. 



Sjóðið upp sósuna, smakkið til og bætið við salti, pipar og tómatsósu eftir smekk.

Látið malla í 20-30 mínútur á meðan þið gerið béchamel-sósuna.

Béchamel-sósan löguð:

Bræðið smjör í potti og þegar það hættir að freyða hrærið þið hveitinu saman við (hafið hugfast að þykkingarkraftur smjörbollunnar er mestur í byrjun og minnkar því meira sem bollan er elduð).



Hellið mjólkinni varlega út í og hrærið í á meðan. Ekki örvænta – béchamel-sósan er þunn í fyrstu en þegar hún sýður mun hún þykkna. Hrærið í sósunni svo hún brenni ekki við.

Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla á lágum hita í tíu mínútur til að elda burt allt hveitibragð af sósunni.



Flysjið laukinn og skerið annan helminginn frá. Stingið negulnöglunum í laukinn, leggið í sósuna og látið vera á meðan hveitibragðið er að eldast burt.

Samsetningin:

Smyrjið eldfast mót með hvítlauksolíu.



Setjið fyrst béchamel-sósu í botninn og svo lasagnaplötur.



Raðið til skiptis béchamel-sósu, kjötsósu og lasagnaplötum uns mótið er fullt eða hráefnin uppurin.



Dreifið ostinum ofan á og bakið í 180 gráðu heitum ofni þangað til osturinn er fallega gullinbrúnn. 



Hugmyndir:

Hægt er að nota hvaða hakk sem er í kjötsósuna!

Hægt er að skipta béchamel-sósunni út fyrir mozzarellaost og basillauf – frábært!

Prófið kotasælu sem maður hrærir saman við nokkur hökkuð ansjósuflök.


Með matnum væri svo kjörið að njóta smá rauðvínssopa. Það er líka hægt að fá mörg góð vín á búkollum. Í Svíþjóð eru búkollur meira en 60 prósent af ællu seldu léttvíni. Og margir framleiðendur farnir að mæta kröfum markaðarins með því að bjóða upp á aukið úrval af vínum í þessum umbúðum.

Þetta vín er frá Ítalíu eins og nafnið gefur til kynna. Tommasi Graticcio Appassimento er frá Valpolicella á norðanverðri Ítalíu. Þetta vín er blanda af Corvína og Oseleta þrúgum. Þetta vín er ljómandi með ágætum ávexti, aðeins kryddað með ljúfu og mjúku eftirbragði.


Veislan getur vel haldið áfram! 



No comments:

Post a Comment