Sunday 30 November 2008

Smásálarbjarmi í svartnættinu; Ljúffengt lambalæri þakið herbes de provence, ofnbakað rótargrænmeti með seiðandi sósu

snjor_i_lundi.jpg Það er fallegur sunnudagur hérna í Lundi. Það er búið að vera kalt síðustu tvær vikurnar og rakt í lofti þannig að kuldinn bítur mann í nefið. Það snjóaði meira að segja um daginn. Gráðurnar virðast því vera kaldari en á Fróni. En í dag er milt og nærri heiðskýrt. Ég byrjaði snemma í morgun í eldhúsinu. Við höfum tekið upp þá hefð að búa til pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Þetta er eitthvað sem við höfum lært af vinahjónum okkar Jóni Þorkatli og Álfhildi. Hefð sem ég vona að verði áfram. Fátt yndislegra en heit, þykk pönnukaka á sunnudagsmorgni, ostsneið og rjúkandi kaffi. Dásamlegt!

Ég fór í göngutúr áðan út í búð - bráður kaffibrestur á heimilinu - og á leiðinni í búðina gekk ég yfir Clemenstorgið þar sem var verið að undirbúa útifund - sem er víst árlega hér á torginu.  Þetta er kokkurinn_i_vinnunni.jpg víst dánardagur Karl XII Svíakonungs (við búum einmitt við götu sem ber hans nafn) - síðasti stríðkóngur Svía. Ég segi stríðskóngur því hans helsta dægrastytting var að heyja stríð við alla í kringum hann; Rússa, Pólverja, Dani og Norðmenn. Öfgasinnaðir hægrimenn - nýnasistar - hafa mikið dálæti á þessum kóngi og hylla hann á þessum degi. Það hefur komið fram í blöðunum í vikunni að aktívistar ætli að mótmæla nasistunum og því má búast við einhverjum látum hér. Það hefur verið hefð fyrir því að vera með læti þennan dag - fyrir hálfum öðrum áratug komu hingað farmfylli af aktívistum frá Danmörku til að slást við nýnasistanna. Þá var nánast stríðsástand í þessum bæ, steinum úr heilu götunum fræstar upp og grýtt í andstæðingana. Þessi kóngsauli æsir upp fólk langt fram yfir líf og dauða. Helvítið á honum. Svo fór sem fór - hér voru læti!

Ýmsar kenningar voru uppi um andlát hans en hann fékk kúlu í höfuðið í Noregi. Norðmönnum að sjálfsögðu kennt um en einnig er möguleiki á að einhver úr hirðinni hafi ákveðið að slútta þessu - langþreyttir á stríðsbrölti hans um norðanverða Evrópu. Það er lítið gott hægt að segja um þennan mann nema hvað hann rosmarinrunni.jpg kynnti skandinövum fyrir ágætum rétt sem hann sótti eitt sinn þegar hann var í stuttri útlegð í Tyrklandi - Kjötfars/kjöthakk í kálböggli. Það þurfti víst ekki að fórna nema nokkur hundruð þúsund manns til að kynna þessa hefð! Fráleitt - en kálbögglar geta verið prýðisgóðir!

Smásálarbjarmi í svartnættinu; Ljúffengt lambalæri þakið herbes de provence, ofnbakað rótargrænmeti með seiðandi sósu

Jæja nóg um þetta. Vindum okkur að matnum. Ég fór í smá stuð við pönnukökubaksturinn og ákvað því að klára að undirbúa kvöldmatinn. Innblásturinn er sóttur til Frakklands þar sem við vorum í ágúst í stórkostlegri ferð. Héraðið sem við vorum í í Suður Frakklandi, Tarn, er þekkt fyrir lambakjötið sitt og því auðvitað á boðstólnum þessa vikuna.

lamb_herbes_de_provence.jpg Herbes de Provence er fræg kryddblanda frá Provence sem á víst ekki svo langa sögu. Samkvæmt því sem kemur fram á Wikipediu var þetta sett á markað á áttunda áratug síðustu aldar. Þetta er hægt að kaupa víða - oft selt í fallegum pokum á mörkuðum í Frakklandi og samanstendur af þurrkuðu rósmarín, majoram, basil, lárviðarlaufi, timian og lofnargjörð. 

Þetta er alltént nógu einfalt. Lambalærið er tekið og spekkað með hvítlauk. Það er gert með því að stinga nokkur göt á það og setja hvítlauksrif í götin. Lærið er þvínæst nuddað með góðri jómfrúarolíu, salti, pipar og kryddblöndunni og leyft að standa í nokkra klukkutíma áður en það er eldað. Þannig ná kryddjurtirnar að ljá kjötinu sitt ljúfa bragð. Lambalærinu er leyft að lúra í 150 gráðu heitum ofni þangað til að það verður með kjarnhita um 65 gráður. Síðasta hálftímann er kannski 300 ml af vatni hellt í botninn á fatinu til að safna kraftinum til að búa til sósuna. Þegar allt er tilbúið er lambið tekið út og leyft að standa á meðan sósan en kláruð. 

lamb_a_diski.jpg Og nóg er sósan einföld. Soðinu er hellt í pott, suðunni hleypt upp og soðið niður um þriðjung. Þá  er smá matreiðslurjóma, saltað og piprað og soðið niður áfram í smá stund.

Borið fram með rótargrænmeti, ofnbökuðu eins og kemur fram í titlinum - það má nota í raun hvað sem er; kartöflur, sætar eða venjulegar, gulrætur, rófur, næpur, seljurót, lauk og hvítlauk - nefndu það bara. Bleyta með smá jómfrúarolíu, salta og pipra og baka í klukkustund. Í kvöld vorum við með kartöflur, gulrætur, rauðlauk og hvítlauk. Rósmarínið, þurrkað, kom sterkt inn. Ljúffengt.

Í kvöld drukkum við alvöru vín, beljan var tóm - grét ekki yfir því - vegna þess að í staðinn opnuðum við Penfold Kalimna Shiraz bin 28 frá því 2005. Þykkt og mikið vín. Fyllir munninn bragði af dökkum vínberjum, sólberjum og kannski leðri, dáldið tannín. Vín sem lifir í munninum og aðeins lengur í blóðrásinni, sem betur fer!

matur_a_bor_um.jpg

 


No comments:

Post a Comment