Friday 26 February 2010

Afmælisblogg úr Ölpunum; Heileldaður grís með freyðandi bjór og söngskemmtun með skíðakóngum

aftoppnum


Það er ekki hægt að kvarta - bara alls ekki. Ég fæ að njóta afmælisdagsins í Ölpunum. Þá verður lífið bara ekki betra - alltént ekki á mínum mælikvarða. Við fjölskyldan keyrðum suður til Austurríkis frá Lundi á einum og hálfum sólarhring. Gistum á arfaslöku hóteli í Hamborg - sem við bókuðum á netinu - sem reyndist vera hostel þegar við komum þangað seint á sunnudagskvöldi. En við stoppuðum ekki nógu lengi til þess að kvarta, sváfum bara í 8 klukkustundir og svo ókum við sem leið lá eittþúsundsextíuogsjö kílómetra til St. Michael í Lungau héraði. Leiðin frá Hamborg til Hannover og þaðan að Magdeburg, sem leið lá framhjá Leipzig, síðan Nurnberg, svo Munchen, að Salzburg og þaðan á milli Alpatinda að St. Michael. Börnin mín, alveg yndisleg, dunduðu sér í aftursætinu og við spjölluðum alla leiðina suður. Það virðist alltaf vera nóg að spjalla um við konuna mína, hana Snædísi. Ferðin var í raun miklu þægilegri en ég hafði gert mér í hugarlund.
hotelmynd


En það var frábært að renna í hlaðið, keyra niður St. Martinerstrasse og leggja bílnum fyrir framan heimili okkar næstu ellefu næturnar. Lítið skíðahótel við fjallsrætur Speiereck fjallsins í bænum St. Micheal/St. Martin á hóteli sem ber nafn fjallsins. Þetta er í þriðja sinn sem við gistum á þessu skíðahóteli sem er í eigu Þorgríms og Þuríðar. Og þau kunna að reka skíðahótel... það er ekki hægt að segja annað. Þetta er ekki skráð fimmstjörnuhótel - ég held að það sé þriggja stjörnu - en andskotinn, þetta eru almennilegar stjörnur. Hótelið er í fallegum Alpastíl, með lútandi þök og blaktandi fána. Innréttingarnar eru gamaldags - antík nánast í hverju horni. Herbergin notaleg, rúmin mjúk og alpaloftið brakandi ferskt. Maturinn hefur alltaf verið frábær - hjónin hafa flutt inn kokka frá Íslandi sem sannarlega kunna að elda. Í þetta skiptið höfum við fengið ýmislegt góðgæti; kalkúnabringu á asískan máta, vínarsnitsel með öllu tilheyrandi og í gær var nautalund með bernaise, namminamm. Hægt er að kíkja á heimasíðu hótelsins hérna.

Við erum hérna í afbragðs félagsskap húsráðanda.  Auk okkar eru nágrannar okkar og vinir Signý Vala, Þórir og börnin þeirra Hrafnhildur og Sigrún Edda. Þau keyra heim á sunnudaginn en þá koma líka aðrir góðir vinir og nágrannar, Jónas, Hrund og strákarnir þeirra, Kristinn og Hrafnkell. Valdís og Villi (börnin mín) eru í skíðaskólanum og taka stórum framförum. Villi (4 ára)  lærði að skíða í fyrradag og í gær lærði hann að fara í svig og fara í stólalyftu - í dag vann hann svigkeppnina í skíðaskólanum í sínum hópi - við vorum ofsastolt . Valdís (9 ára) er að bæta sig í hverri ferðinni - varkár eins og amma sín - hún tók einnig þátt í svigkeppninni og hafnaði í fjórða sæti - vel og örugglega.
svinidboridfram


Í gærkvöldi var aðalveislan. Heileldað svín með öllu tilheyrandi. En meðlæti verður algert aukaatriði  þegar í boði er heil- og hægeldaður grís. Þetta var The Big Kahuna - The really big kahuna! (sem er reyndar réttur frá Hawai og þar nota þeir nýfædda smágrísi) - þetta er alvöru skepna. Grísinn er eldaður allan daginn við lágan hita, húðin verður stökk og kjötið meyrara en smjör. Dásamlegt.
Kjotidskammatad


Á myndinni eru kokkarnir sem sérhæfa sig í að elda grísi á þennan hátt. Þeir bera hann fram við hátíðlega viðhöfn, kertaljós, stjörnuljós, blys og austurrísk tónlist. Frábær stemming alveg. Á myndinni eru kokkarnir að gera að grísnum og Þurý að skammta á diska. Ég ræddi aðeins við matreiðslumennina um hvernig þetta er gert. Fyrst er grísinn látinn liggja í saltpækli í rúman sólarhring. Síðan er það sett í ofn við lágan hita og eldað frá morgni til kvölds. Með matnum var borin fram einföld og bragðgóð svínasoðssósa, Waldorfsalat og grötsel. Grötsel (bið um leiðréttingar ef þetta er rangt skrifað) er Austurrískur réttur, afar einfaldur, þar sem kartöflubitar, gulrótabitar, flesk og kjötbitar eru steikt saman í olíu, kryddað með kúmeni, salti og pipar.
maturinn

Í gærkvöldi var svo heljarveisla - Hótelbandið - Skíðbrot (the Broken Ski) tók heldur betur lagið. Hljómsveitarmenn eru Einar Úlfsson, Doddi, Joey B og svo voru gestasöngvarar dregnir upp á meðal gesta; Binni skíðakennari og svo fékk ég að syngja tvö lög. Varð helvíti stressaður þannig að það eyðilagði eiginlega fyrir mér drykkjuna - fjandinn sjálfur! Maður bætir það upp síðar.

IMG_0886

Það var mikil stemming í gærkvöldi. Hér voru allra þjóðar kvikindi; Austurríkismenn, Ungverjar, Slóvenar, Bretar, Norðmenn og svo auðvitað Íslendingar.

Fekkadsyngja


Það eru góðir dagar framundan. Við eigum viku eftir af fríinu áður en við leggjum í hann norður á bóginn á heimahagana. Sem betur fer!

2 comments:

  1. Sæll. Til hamingju með afmælið.
    Mæli með www.tripadvisor.com þegar maður velur sér hótel. Lítið mál að sneiða hjá þeim slöku.

    ReplyDelete
  2. Til hamingju með afmælið um daginn Ragnar
    Ég kíki stundum hér inn en hef aldrei eldað neitt eftir uppskriftunum þínum, en ég ÆTLA að gera það fljótlega.... Annars fór ég í matarboð um daginn og þá fékk ég frábæran mat og uppskriftin var fengin frá þér.
    ps
    Rann á þig eða af við sönginn? Mér þykir þú nú bara góður að hafa farið á sviðið!

    ReplyDelete