Monday 8 February 2010

Helgarveisla; Gómsæt ofnbökuð kalkúnabringa með sveppasósu, Kartöflumduphnoisase og hvítlaukssteiktu rósakáli

Undirbúningur


Ég hef verið latur við að blogga síðustu vikur. Óvenjulega latur. Það er ekki vegna þess að við höfum verið eitthvað löt í eldhúsinu - langt í frá. Þannig er mál með vexti að ég og bróðir minn höfum verið í átaki - hann hætti að reykja og við byrjuðum að lyfta - og þá er maður alltaf með harðsperrur- svo slæmar að ég hef varla getað vélritað. Núna eru krónísku vöðvaverkirnir að hjaðna og maður getur tekið upp tölvuna að nýju og reynt að koma nokkrum uppskriftunum frá sér.

Það er gott að búa Skáni - allaveganna fyrir mig. Skánn er nefnilega mikið matarframleiðsluhérað. Hér er mikill landbúnaður, mikil grænmetisframleiðsla, kornrækt, sykurbeðarækt ásamt fjölbreytilegri dýrarækt. Hérna er einnig  vinsæll kalkúnabúgarður - Ingelsta kalkon - hann er í suð-austurhluta Skánar - Österlen. Sem Svíar kalla hið sænska "Provence" - þarna er meira að segja vínrækt, framleiðsla á rapsolíu (ólívuolía norðursins) og ýmislegt fleira. Ég hef skrifað nokkrum sinnum áður um þennan hluta Skánar, var að vinna á þessum slóðum í íhlaupavinnu síðastliðið sumar, á austurströndinni í bænum Simrishamn, sem er ákaflega fallegt! Sérstaklega á morgnanna - þegar maður var að keyra eldsnemma um morguninn yfir einn af Ásunum á Skáni og sá hvernig þokuslæðan lagðist eins og ábreiða yfir græna akrana. Þessa viku sem ég vann í Simrishamn keyrði ég alltaf fram hjá þessum kalkúnabúgarði og langaði alltaf til að kíkja við en lét aldrei verða af.

Svo rakst ég á þessa geysistóru kalkúnabringu í matvöruverlsuninni í fyrradag- einmitt frá Ingelsta. Gat nátturulega ekki staðist að kaupa hana. Hún var nátturulega alltof stór - yfir tvö kíló, og bara ein bringa. Það er auðvitað hætta á því að svona steik verði allof þurr, en við því eru ráð: Hægeldun - sem er eiginlega trygging fyrir því að hlutirnir eldast vel!

Helgarveisla; gómsæt ofnbökuð kalkúnabringa með sveppasósu, Kartöflum duphnoisase og hvítlaukssteiktu rósakáli


aleidinniiofninn


Fyrst tók ég kalkúnabringuna, þvoði hana í rennandi vatni, þurrkaði og lagði í eldfast mót. Saltaði og pipraði og kryddaði með ferskur rósmarín og salvíu. Hitaði pönnu með smjöri/olíu og léttsteikti niðursneiddan hvítlauk og ferskt rósmarín í olíunni. Skellti svo bringunni í pönnuna og brúnaði á öllum hliðum. Þegar hún var 0rðin fallega brún á öllum hliðum var hún sett aftur í eldfasta mótið og hitamæli komið fyrir og sett í 150 gráðu heitan ofn. Eldað þangað til að kjarnhiti náði 74 gráðum. Þá var steikin tekin út og leyft að jafna sig - og á meðan er sósan kláruð.
Sósan var á svipuðum nótum og oft áður. Hafði í vikunni gert kjúklingasoð sem ég notaði. Hitaði það í potti á meðan ég steikti niðursneiddan hvítlauk, smáttskorinn skarlottulauk og síðan þunnt skorna sveppi. Þá var saltað og piprað. Síðan smá hvítvín, svo soðið, svo smá matreiðslurjóma og þessu svo leyft að sjóða niður og þykkna. Þykkt með smá maizena mjöli í lokin.


Kartöflur duphnoiase gerði brósi eftir þessari uppskrift; Fyrst voru kartöflur skornar í sneiðar og settar í pott ásamt smátt skornum hvítlauk, mjólk hellt í pottinn þannig að kartöflurnar voru aðeins uppúr, þá aðeins rjómi, múskat, smá dijon sinnep, salt og pipar. Soðið í 10 mínútur. Þá fært yfir í eldfast mót, rifnum osti stráð yfir og bakað í heitum ofni þangað til að mjólkin hafði soðið mikið niður og osturinn hafði brúnast að ofan.

Rósakál hefur aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér. En núna er ég farin að taka það í sátt. Keypti ferskt rósakál sem ég steikti í smá olíu, saltaði og piprað. Þegar það var farið að taka smá lit þá hellti ég glasi af hvítvíni á pönnuna, setti lokið á með smá glufu og leyfði því sjóða niður.

Með matnum drukkum við þetta ljúfa vín - Seniro de los Llanos Valdepenas Gran Reserva - alveg hreint prýðisgott spánskt rauðvín. Flaskan er há og fremur glæsileg. Vínið dökkrautt á litinn. Ilmar af dökkum berjum, brómberjum og klár keimur af vanillu. Mjúkt vín og flaueliskennt vín.
matur

6 comments:

  1. Ótrúlega girnilegt eins og allt sem þú gerir! Langar að prófa svona kalkúnabringu en man ekki eftir að hafa séð svoleiðis í búðum á Íslandi nema bara kannski fyrir jólin. Kannski hægt að gera bara svipaða útfærslu með kjúkling.

    ReplyDelete
  2. Sael dyggur lesandi.
    Takk fyrir ad kikja a siduna mina.

    Thad er abyggilega haegt ad hafa samband vid alifuglabaendur a Islandi og leggja fyrirspurn um ad kaupa heilan fugl eda bara stora bringu.
    Thetta fyrirtaeki i Svithjod Ingelsta kalkon er virkilega duglegt ad koma sinum vorum a markad. Eru medal annars med serverslanir sem einungis selja vorur gerdar ur kalkunahraefni.

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. Já kannski ég tékki barasta á því, það skyldi þó aldrei vera að ég fyndi manneskju á Íslandi með þjónustulund!

    Bestu þakkir fyrir síðuna, hún gleður mitt litla hjarta. Verst hvað ég verð alltaf svöng þegar ég les hana, haha.

    ReplyDelete
  4. Langaði bara að benda þér á að þessar kartöflur heita Dauphinoise, annars takk kærlega fyrir enn eina frábæra uppskrift!

    ReplyDelete
  5. Dyggur lesandi það er hægt að kaupa ferskar kalkúnabringur í flestum stórmörkuðum þessa dagana. T.d. hef ég séð þær bæði í Nettó og Hagkaup að undanförnu ;-)

    ReplyDelete
  6. Það er hægt að kaupa kalkúna afurðir t.d. hakk, bringur og leggi beint frá bónda á Reykjabýlinu í Mosfellsbænum. Ég held að það sé opið frá 16:30 á fimmtudögum og föstudögum.

    ReplyDelete