Thursday 3 December 2009

Byrjum á Spaghetti með chorizopylsu, kirsuberjatómötum og basil á nýjubloggi. Namminamm





Það er spennandi að vera að flytja sig á nýtt vefsetur.Ég hef síðastliðna mánuði verið að hugsa um það að flytja mig um set. Hér blása ekki eins skarpir pólitískir vindar og á gamla vefsvæði mínu - moggablogginu. Ég hafði þó hugsað mér að halda áfram að birta fyrstu setningar hverrar færslu á moggablogginu og leyfa því svo að halda áfram hérna. Vona að fólk verði sátt við það. Þeir sem hafa fylgst með mér þar geta því vanið sig við að fara beint yfir á miðjunna.

Á þessum tíma hef ég fengið margar heimsóknir á síðuna og það hefur glatt mig mikið hversu margir hafa áhuga á því að lesa um viðfangsefni mín í eldhúsinu. Þakklátastur er ég þó fyrir athugasemdirnar. Fátt gleður bloggara meira. Ég mun eins og áður rembast að vera frumlegur í eldhúsinu - reyna að prófa nýjar uppskriftir og halda áfram að ögra sjálfum mér í eldhúsinu. Það var nú líka tilgangurinn með blogginu í upphafi. Að brjóta upp venjurnar/íhaldssemina sem var farin að ganga að eldhúsinu mínu dauðu.

Ég vona að lesendur síðunnar hafi gaman að því að fylgjast með vandræðaganginum í mér...og það væri nú sérstaklega gaman ef það leiddi til þess að fleiri gæfu sér tíma til að elda - og finni hversu frábært áhugamál það er að búa til mat- gefandi í alla staði. Að velta fyrir sér uppskriftum, kaupa inn, setja á tónlist, kveikja kerti, undirbúa, elda...borða, njóta...(vonandi gengur einhver annar frá) - það er ekkert betra að mínu mati.

Byrjum á ljúffengu spaghetti með chorizo, basil og tómötum á nýju bloggi. Namminamm




Fór niður í Saluhallen í dag og tók slátrarann tali. Ræddum aðeins um gang mála með kjötvinnsluna heima. Hann skoraði á mig að koma með og leyfa sér að prófa. Ég lofaði að snúa tilbaka í mars með sýnishorn. En ekki hvað?... kannski næ ég að kría út afslátt næst.


Hvað um það þá keypti ég nokkrar chorizo pylsur - gerðar af slátranum, bragðbættar með pipar, cheyenne og paprikudufti. Ég hef keypt þær nokkrum sinnum áður - þær eru bestar þegar maður sker þær í sneiðar og steikir í smá olíu eins og ég gerði í gærkvöldi. Pylsan er ansi feit (eins og allar góðar pylsur) þannig að þær leka talsverðri fitu. Það er gott - fitan er síðan notuð til að hjúpa pastað. Þegar pylsusneiðarnar eru orðnar stökkar á báðum hliðum er kirsuberjatómötum, skornum í helminga, bætt saman við - kannski 20 litlir tómatar. Þeir eru steiktir í nokkrar mínútur með pylsunum - þeir leka líka vökva sem leggur til í þessa þunnu sósu sem verður til á pönnunni. Síðan 10-15 rifin basillauf, annað eins af ferskri steinselju, smá skorið klettasalat. Steikt örlítið, saltað og piprað. Skvetta af hvítvíni og síðan skvetta góðu balsamikediki. Soðið niður.

Því næst er pastanu bætt á pönnunna, náttúrulega soðið áður af krafti í miklu söltuðu vatni þar til aldente. Hrært saman við pastað. Saltað og piprað að nýju, skreytt með ferskum kryddjurtum - basil og steinselju. Fært á diska, nóg af parmaosti er raspað yfir. Frábært.

Borið fram með brauðhleif, kannski hvítvínstári ef það er afgangur í búkollunni - en svo var ekki, þannig að það var bara kolsýrt vatn. En það er nú líka bara ágætt. Bon appetit.






Bon appetit!




10 comments:

  1. Nammm - nú ert þú klárlega kominn inn í minn daglega rúnt - takk fyrir þetta

    ReplyDelete
  2. Frábært blog hjá þér.
    Það væri frábært ef bloggið þitt væri með RSS möguleika einsog var á moggablogginu.

    ReplyDelete
  3. Til hamingju með nýja vef-aðstöðu á/í miðjunni :)
    Hef lengi verið iðinn lesandi af blogginu þínu og prófað nokkrar uppskriftir og vil þakka fyrir frábærar færslur.
    Ekki eru þær bara skemtileg frásögn af ævingtýrum í eldhúsinu þínu heldur vekja löngun til að gera sjálfur enn betur og láta ekki viðjar vanans taka völdin.
    Nú skoða ég nokkrar vel valdar færslur til að fá hugmyndir að helgarmatnum hér í Asker í Noregi, góða helgi :)

    ReplyDelete
  4. Ég er yfir mig hrifin af snilli þinn í elhúsinu og mun halda áfram
    að fá vatn í munn af uppskriftum og jafnvel prófa eina og eina.

    ReplyDelete
  5. Til hamingju með nýja heimasíðu. Þetta er uppáhalds bloggið mitt, hef reyndar aldrei kommentað áður hjá þér en kíki reglulega til að athuga hvort það sé komin ný færsla. Hlakka til lesa af frekari tilraunum í eldhúsinu og þá sérstaklega hvað þú ætlar að elda um jólin.

    ReplyDelete
  6. sæll Ragnar og til hamingju með nýju heimasíðunna.Ég segi það sama og "Inga" þetta er skemmtilegasta bloggið og mig hlakkar alltaf til að lesa um hvað þú ert að gera í eldhúsinu.Ég bið kærlega að heilsa foreldrunum.

    ReplyDelete
  7. Velkominn á Miðjuna, nú getur maður farið að skoða síðuna þína aftur ;)

    Stjáni, Miðjan er sannarlega rss vædd!

    ReplyDelete
  8. Haraldur Arngrímmson6 December 2009 at 04:35

    Sæll Rgnar Freyr.
    Ég var reyndar búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði ekki að skrifa athugasemdir til þín aftur. En nú verð ég að að fá að óska þér til hamingju með nýja síðu og nýtt umhverfi. Síðan þín er frábær - bæði fyrir lærða og ólærða í matargerðarlistinni.

    En að uppskrift dagsins.
    Þegar ég bjó í Uppsölum, fyrir svona ca. 35 árum síðan, kynntist ég stúlku frá Sómalíu. Hún kenndi mér svipaða uppskft af spaghetti - nema hvað - ekki var efnahagurinn slíkur að aurar væru til fyrir ferskum tómötum. Niðursoðnir tómatar og tómatmauk voru því eðlileg þrautalending. Svo notaði hún mulinn rauðan pipar, oregano, saxaðan lauk og smátt skorna græna papriku - og svo fullt af hvítlauk.
    Þessi uppskift gekk bara þokkalega vel hjá mér í byrjun - en svo komu börnin. Það þarf ekkert að orðlengja það meira...
    Uppskriftinni var því breytt :
    ca. 500g nauthakk
    1/2 smátt saxaður gulur laukur(svona bara venjulgur laukur)
    Ein græn paprika skorin í litla bita
    2-3 hvítlauksrif - marin i gegnum pressu eða mjög smátt söxuð
    2 dósir af söxuðum niðursoðnum tómötum
    1-2 matskeðar af tómatmauki
    1-2 matskeiðar þurrkað oregano
    Olía til steikingar
    Salt og svartur pipar.

    Nú er kreppa á Íslandi og þá er ekkert athugavert við það að drýgja hakkið, til dæmis með smátt söxuðum gulrótum.

    Kjötsósa þessi er ekki bara góð með spaghetti - ekki síðri í lasagne - dugar vel fyrir 6-8 manns.

    Ég hlakka til þess að fá að lesa síðuna þína í framtíðinni - og nú á nýjum miðli - en held áfram að halda aftur af mér varðandi athugasemdir...

    Bestu kveðjur,
    Haraldur Arngrímsson

    ReplyDelete
  9. Guðrún Hafsteinsdóttir7 December 2009 at 13:12

    Heill og sæll Ragnar Freyr!

    Er mikill aðdáandi bloggsíðu þinnar og nota hana mikið. Á mínu heimili eru reglulega RagnarFreysDagar og þá er gaman í eldhúsinu. Óska þér til hamingju með nýja heimasíðu. Mig langar að spyrja þig hvort hægt sé að leita í uppskriftunum þínum hér, þ.e. eftir leitarorði? Það væri stórkostlegt ef það væri hægt. Nú svo hlakka ég bara mikið til þegar "The Best of Ragnar" bókin kemur í verslanir :-) Gangi þér vel. Með bestu kveðju,
    Guðrún

    ReplyDelete
  10. Sael Gudrun.
    Thakka fyrir mig.
    A thessari heimasidu verdur haegt ad leita. Ef thu scrollar adeins nidur tha serdu leitarfunkjson. Skilst ad hun virkar. Thad er einungis buid ad flytja 15 faerslur yfir a thessa sidu thannig ad svarmoguleikar eru takmarkadir.
    Hins vegar er haegt ad google td. ef thu vilt finna lambalaerisuppskrift - tha skrifar thu bara lambalaeri site:ragnarfreyr.blog.is og tha faerdu tengla a gomlusidunni.
    Hver veit svo nema madur gefi ut bok.
    mbk, Ragnar

    ReplyDelete