Wednesday 16 December 2009

Hej allihopa! Sænskur heimilismatur; léttsöltuð og soðin uxasíða með rótargrænmeti og þremur tegundum af sinnepi

jólin eru að koma

Það ætti ekki að fara framhjá neinum að það eru að koma jól. Sumum til gleði og öðrum til ama. Ég mara í hálfu kafi einhversstaðar mitt á milli. Það verður seint hægt að kalla mig  jólabarn en jólamaturinn finnst mér góður (hvern hefði grunað)!. Jólahald í Svíþjóð eru rólegri nótum en þekkist á Fróni. Svíarnir virðast stíga aðeins léttara til jarðar í þessum efnum og ætli að við Íslendingarnir gætum ekki lært aðeins af frændum okkar hvað það snertir. Jólahátíðin laumast einhvern veginn upp að manni hérna í Skandinavíu og fyrr en varir er hún yfirstaðin sem er alveg ágætt. Svona að mestu leyti.  Annars er búið að kólna mikið hérna á Skáni og það er meira að segja farið að snjóa eins og myndin ber með sér. Orðið pínu "jólalegt" eins og sagt er. Krakkarnir mínir voru yfir sig glaðir útí í garði og gerðu þennan myndarlega snjókarl með ömmu Lilju og afa Ingvari.

Fyrir okkur í Pukgranden í Lundi er þetta  ánægjulegur tími. Mamma og pabbi, Kjartan bróðir eru komin til okkar og það er ljúft að hafa þau í heimsókn. Mamma og pabbi verða fram yfir nýja árið og svo fáum við tengdaföður minn yfir áramótin. Þetta stefnir allt í góða jólaveislu og ennþá betri áramótaveislu. Matseðillin er farin að fá á sig nokkra mynd en ekkert er fastákveðið. Á Þorláksmessu verður væntanlega einhver skötuskrati - kæstur og illalyktandi en vonandi líka saltfiskur til að bjarga okkur aumingjunum. Á aðfangadag ætla ég að fara nokkuð troðnar slóðir með smá breytingum þó. Ég er að hugsa um að grafa lax í forrétt, gera graflaxsósu. Í aðalrétt, rjúpur, gerðar bæði á klassískan hátt og með smá nýbreytni. Mér datt í hug að hluta fuglinn niður, bringurnar marineraðar, steiktar í smjöri og bornar fram með soðsósu gerða úr beingrindinni. Úr leggjunum og vængjunum - confiteraðar í blöndu af fitu (anda/gæsa og öli) í nokkrar klukkustundir og síðan bakaðar í ofni í stutta stund. Á jóladag - fyllt önd með öllu meðlæti. Annan í jólum heimagert hangikjöt (sjáum hvernig rætist úr því - ég er meir og meir farin að skilja leiðbeiningar Helgu Sigurðardóttur um að það þurfi að þvo lærið rækilega undir rennandi vatni - nánari skýringar koma síðar). Um áramótin ... kalkúnn. Þetta stefnir í góðar tvær vikur.

Eins og ég nefndi þá eru foreldrar mínir og bróðir í heimsókn. Mér fannst því tilvalið að kynna þau aðeins fyrir sænskri matargerð. Almennt þá er hún ekki upp á marga fiska. Þetta eru náttúrulega fordómar en Svíar virðast ætíð hafa kjötbollur, pylsur, lyngonsultu, skinku, síld, kartöflur við öll hátíðarbrigði - hvort sem það eru jól, páskar eða sumarmiðdægur. Og þeir virðast alltaf verða jafnspenntir!. En þeir luma á ýmsu öðru. Til dæmis raggmunk (kartöfluklatta) með steiktu beikoni og títuberjasultu og svo þessum rétt  sem ég er að blogga um hérna. Þetta er klassískur sænskur réttur. Ég ætlaði að gera hann alveg frá grunni - sem er einkar einfalt - en sökum tímaskorts stytti ég mér leið með því að kaupa ketið, saltað frá slátraranum. Slíkt er hinsvegar ákaflega einfalt að gera og ég mun lýsa því í færslunni. Uppskriftirnar að þessum rétt er hægt að fá víða; ég hef  lesið um þetta í nokkrum bókum - Svensk husmanskost, Smörgåsbord og síðan einnig í bók Per Morberg - Konsten att laga mat (sem er þekktur sænskur leikari sem hefur getið sé gott orð sem sjónvarpskokkur). En svona matargerð krefst ekki uppskriftar. Þegar lestri líkur verður það öllum ljóst!

Hej allihopa. Sænskur heimilismatur; létt söltuð og soðin uxasíða með rótargrænmeti og þremur tegundum af sinnepi


undirbúningur


Ég keypti uxasíðu sem hafði legið í pækli í sólarhring hjá slátraranum. Að leggja eitthvað í pækil er barnaleikur einn og er eitthvað sem maður ætti að gera miklu meira af. Hver hefur ekki fengið þurrt svínakjöt, þurran kalkúnn eða kjúkling sem er skráfaþurr. Pækill er einföld fyrirbyggjandi aðgerð. Til dæmis hefði verið hægt að kaupa nautasíðu sem er hræódýr kjötbiti. Einfaldur pækill er svo hljóðandi; 3,5 lítrar af köldu vatni, hálfur bolli af sykri og hálfur bolli af salti. Ekkert mál er að krydda pækilinn með pipar, einiberjum, fersku eða þurrkuðu kryddi. Galdurinn er osmósa; skapa umhverfi þannig að vökvi flæði aftur inn í kjötið þannig að það heldur frekar raka sínum í gegnum eldamennskuna. Til eru ótal uppskriftir á netinu af hinum ýmsustu pæklum - bara að googla og lesa. Núna er árstíminn til að leggja mat í saltpækil!

kjötið2


Eins og allar færslur - þá byrjar hún á því að segja hversu einfalt þetta er - og þessi verður ekki öllu einfaldari. Maturinn er soðinn. Fyrst var að ná upp suðu í stórum potti. Bæta við lárviðarlaufum - ferskum og síðan nokkrum piparkornum. Síðan niðurskornum lauk og nokkrum niðursneiddum sellerístöngum.  Uxasíðan er lögð í vatnið og hitinn lækkaður þannig að það rétt kraumar. Kjötbitinn er soðin í 2-3 tíma. Þegar um rúm klukkustund er eftir af suðunni er kartöflum, gulrótum og nýpum bætt út í vatnið og soðið þar til mjúkt. Þegar allt er tilbúið er nípurnar færðar í annan pott, saltaðar, pipraðar, smá soðvatni og sýrðum rjóma sett saman við og hrært saman með töfrasprota.

Kartöflunum og gulrótunum er raðað í mót, nípumaukið er lagt á disk, kjötið er skorið í sneiðar. Borið fram með þremur tegundum af sinnepi; skánsku, sætu og dijon. Vorum einnig með súrar gúrkur, kapers og rauðbeður með matnum.Ég síaði síðan soðið af kjötinu og grænmetinu og setti í skál þannig að það var hægt að ausa það yfir.Að sjálfsögðu var drukkið glas af köldu öli eða mjólk með. Ekkert vín eða svoleiðis pjatt að þessu sinni.

matur


Verði ykkur að góðu! Annars voru blendnar tilfinningar um matinn, mamma var ekki alveg nógu hrifinn en ég, Kjartan, Snædís og pabbi kunnum að meta þetta. Þetta er eins og hver sér ekki merkileg matargerð en góð og jarðbundin er hún - alveg eins og íslenska saltkjötið. Sem líka er herramanns matur! Ætli við verðum um ekki á aðeins íslenskari nótum í næstu færslu.

No comments:

Post a Comment