Showing posts with label Bosch. Show all posts
Showing posts with label Bosch. Show all posts

Thursday, 27 October 2016

Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni


Það hefur talsvert verið um að vera í vinnunni minni á Landspítalanum. Ég fékk nýja stöðu um daginn, þar sem ég var ráðinn sem umsjónarlæknir nýrrar greiningadeildar á sjúkrahúsinu. Markmiðið er að létta á bráðamóttökunni; að greina hratt og örugglega þá sjúklinga sem þurfa að leggjast inn þannig að þeir fái strax rétta greiningu frá því að þeir mæta á bráðamóttökuna og fái örugga meðferð strax í byrjun áður en þeir útskrifast eða þurfa frekari meðferð á öðrum, sérhæfðari deildum. Þetta er spennandi verkefni. Verkefni sem mörg önnur sjúkrahús hafa þurft að glíma við á síðustu árum. Fyrsta verk okkar er einmitt að læra af mistökum annarra, svo að við föllum ekki í sömu gryfjur.

Vinur minn, Roger Duckitt, sem rekur sambærilega einingu í Worthing, mun koma á næstu vikum og deila með sér reynslu sinni. Svo er stefnan tekin á Edinborg þar sem er nýstofnuð deild sem við getum líka skoðað og lært af. Ég vona að við getum lært þessum heimsóknum svo við getum sloppið við að hrasa um augsýnilega þröskulda sem í byrjun eru ekki svo augljósir. 

Svo er ég líka á fullu að sinna stofunni minni í Ármúlanum. Þar er nóg af verkefnum og af nógu að taka. Það er gaman þegar maður hefur fangið fullt af spennandi verkefnum. 

En nóg um það, snúum okkur að eldamennskunni! 

Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni 

Ég veit eiginlega ekkert betra en að elda um helgar. Fátt eitt veitir manni meiri slökun en að hverfa inn í eldhúsið sitt og prófa sig áfram. Og það er svo auðvelt þegar maður er með gott hráefni. Hvað er meira verðlaunandi en gott lambakjöt? Maður tekur eftir því að sauðfjárbændur hafa verið að ræða í fjölmiðlum um að við neytum ekki nóg af lambakjöti. Kannski er það vegna þess að flestir bitar af lambakjöti þurfa talverða athygli - talsverðan tíma - að við gefum því ekki þann gaum sem það á skilið. Mér hefur alltaf komið það spánskt fyrir sjónir að ekki sé nóg af fljótelduðum bitum á aðgengilegu verði hérna á Íslandi. Hvar er t.d. lambahakkið - það var manni mjög aðgengilegt bæði í Svíþjóð, þar sem við bjuggum í sjö ár, og svo síðasta árið í Englandi. 

Hráefnalisti

Fyrir 6

6 lambaskankar
10 gulrætur
handfylli timjan
handfylli oregano
1 rauðlaukur
3 lárviðarlauf
250 ml rauðvín
75 g smjör
3-4 msk jómfrúarolía
blóðbergssalt og pipar


Byrjið á því að skræla gulræturnar og sneiða niður í grófa bita. Skellið hluta af jómfrúarólíunni í pottinn, svo gulrótunum, svo rauðlauknum og loks lárviðarlaufinu.


Setjið svo lambaskankana í pottinn. Saxið niður kryddjurtirnar og dreifið yfir og í kringum lambaskankana.


Einni til tveimur handfyllum af salti var svo sáldrað yfir. 


Nóg af salti og svo pipar.


Setti síðan nokkrar klípur af smjöri á milli lambaskankanna.


Setjið í ofnin við 180 gráður í tvo og hálfan tíma.


Það er alveg óhætt að leyfa kjötinu að hvíla í 15-20 mínútur áður en það er borið fram. Takið vökvann til hliðar til að nota í sósuna. 

Steikt grænkál og nýrnabaunir 

Hráefnalisti

5-6 stór grænkálslauf
1 rauðlaukur
1 dós nýrnabaunir
3 hvítlauksrif
30 g smjör
100 ml hvítvín 
salt og pipar


Saxið hvítlaukinn og rauðlaukinn smátt og skerið grænkálið gróflega niður. 


Bræðið smjör á pönnu. Bíðið þangað til að það hefur þagnað. 


Steikið laukinn í nokkrar mínútur þangað til að hann er mjúkur.


Bætið grænkálinu á pönnuna og steikið í tvær til þrjár mínútur. Veltið því vandlega upp úr lauknum og smjörinu. Bætið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið og sjóðið það niður. Skolið baunirnar vandlega upp úr köldu vatninu og bætið þeim á pönnuna og hitið þær í gegn. Saltið og piprið.

Lambasoðsósa

Hráefnalisti

500 ml lambasoð
30 g smjör
30 g hveiti
Vökvi af kjötinu
salt og pipar
klípa af smjöri


Hér er einföld leið til að útbúa lambasoðsósu. Auðvitað þarf að smakka hana til með salti, pipar, sultu og jafnvel soyasósu.

Með matnum drukkum við þennan Spánverja - Campo Veijo Gran Reserva frá því 2009. Þetta er ljúffengt vín sem passar mjög vel með lambakjöti. Þetta vín er fallega rúbínrautt í glasi, ilmurinn er ljúfur - ber og ávextir - smá tannín, smá sýra - góð fylling.



Þetta var sannkölluð veislumáltíð - eitthvað kjörið að hafa í matinn á kjördag! 

Ekki gleyma að kjósa - atvæðin skipta máli! 

Bon appetit!


Sunday, 25 September 2016

Svipmyndir úr nýja draumaeldhúsinu mínu!


Loksins er eldhúsið okkar tilbúið. Hugmyndin að þessu eldhúsi kviknaði eiginlega strax og ég sá þetta hús á netinu. Inga Dóra, mágkona mín, benti okkur á þetta hús á netinu fljótlega eftir að við ákváðum að flytja heim til Íslands. Við keyptum það af Pétri og Kolbrúnu sem byggðu þetta hús snemma á áttunda áratugnum. Þau höfðu augljóslega lagt alúð í þetta hús enda er svo sannarlega vandað til verka í hvívetna. Guðný Arna, innanhúsarkitekt sem er búsett í Lundi, hjálpaði mér að raða hugmyndum mínum upp í teikningu.

Við fengum afhent í júníbyrjun. Byrjað var á því að hreinsa allt út. Upprunalega ætluðum við þó að halda eftir hlut af gömlu innréttingunni en ákváðum síðan að myndi kannski koma eitthvað einkennilega út - þannig út fór hún!

Við byrjuðum að hamast fljótlega eftir að við fengum húsið afhent. Og þegar ég segi við þá meina ég Inga Dóra, svilkona mín, sem er ofsi til allra verka. Hún hefur verið verkstýran í þessu verki og séð til þess að það hafi farið vel. Hún er ekki bara nákvæm, heldur líka laghent og svo harðdugleg með eindæmum. Ekkert verk virðist vera henni ofviða!

Kolbrún Eva, mágkona mín, var einnig innsti kopur í búri. Og svo faðir minn, Ingvar - sem nennir öllu - öllu. Hann virðist ekki una sér nema að hann sé í eílífum verkefnum!




Hérna er svo mynd af okkur Ingu Dóru, í einum af mörgum veislum sem ég ætla að halda til heiðurs henni! 


Inga Dóra tók einnig í gegn gólfið - reif upp parketið sem var fyrir og flísalagði. Settum jafnframt hita í gólfið. 


Við fluttum síðan heim til Íslands snemma í vor. Og þá var hafist handa við að koma innréttingunni upp. Kolbrún Eva, mágkona mín, hafði þó sett bróðurpartinn af innréttingunni saman. 


Sverrir Jan, æskuvinur minn (frá fimm ára aldri) og verkfræðingur með meiru, var mér einnig innan handar við að klambra innréttingunni upp.


Og ótrúlegt en satt þá hefur mér fundist þetta föndur ótrúlega skemmtilegt.


Ég keypti borðplöturnar frá Fanntófelli. Sigurður og Krissa sem eiga fyrirtækið voru mér einnig innanhandar. Ég hafði verið svo vitlaus að senda þeim röng mál og þau voru ekki lengi að lagfæra mistök mín! 

Ég keypti gegnheilar eikarplötur, 32mm þykkar. Eyjan er fjórir metrar að lengd - Sigurður færði mér þó þær sorgarfréttir að þetta var ekki lengsta eyjan á Íslandi. Bæti það bara upp með stemmingunni.

Það er líka skemmtilegt að segja frá því að Fanntófell gerði innréttingarnar í móttökunni í Klíníkinni í Ármúla þar sem ég er með læknastofu ásamt góðu gengi kollega, en þær eru sérstaklega vandaðar og fallegar. 


Ég bað einnig Sigurð að sníða handa mér hillur í eitt hornið í eldhúsinu. 


Hann smíðaði einnig hillur fyrir matreiðslubókasafnið mitt sem telur tæplega fjögurhundruð bækur eins og sakir standa.





Ljósakrónuna í eldhúsinu hannaði ég sjálfur út frá hugmynd sem ég hafði þróað í Lundi. Þar eru gamalsdagar ljósaperur utan um kopargrind þar sem ég hengdi upp alla koparpottana sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. 


Skurðarbrettið færði svo Sigurður og Krissa mér að gjöf - hann getur skorið út skemmtileg mynstur (blóðröndina) í þykkan viðinn. - Ísland á nú við, þegar við erum loksins flutt heim. 

'

Fleiri svipmyndir af eyjunni! 


Ég er með þrjá ofna í eldhúsinu. Ég tók Drottninguna með frá Svíþjóð, sem er sex hellugas eldavél frá SMEG en ofninn á henni er eiginlega ekki nógu góður nema en til þess að grilla kjúkling á teini. Ég fékk mér því tvo ofna frá Bosch - annar þeirra er fullkominn gufuofn sem hægt er að hlaða með vatni og spýta gufu yfir matinn, frábært þegar verið er að baka brauð, eða hreinlega til þess að gufusjóða grænmeti. Svo er ég líka með annan aðeins minni sem er blanda af ofni og örbylgju (maður verður nú að geta poppað :) ). 

Það er ótrúlega hentugt að vera með tvo fullkomnaofna. 


Hérna sést svo ljósakrónan mín aðeins betur.


Ég fékk mér einnig spanhelluborð frá Bosch. Gasmaður eins og ég er eiginlega tregur við að viðurkenna en þegar kemur að hraða þá er spanið eiginlega hraðara heldur en gasið. Þetta helluborð hefur þann kost að það er hægt að virkja allan flötinn þannig að hann verður allur heitur. Þá er hægt að brúna kjötið að utan áður en ofnskúffunni er slengt inn í ofninn til að klára eldunina. 


Ég fékk kunningja minn til að setja þessa tengla í borðplötuna hjá mér, en þeim er hægt að loka. Það er ekki sjaldan að maður er með fjöldann allann af tækjum, tólum og tölvum á borðinu sem þurfa rafmagn. 


Ég tók öll tækin frá Bosch en þau hafa fengið lof útum allan heim. Ég er með ísskáp, frysti, uppþvottavél, helluborð, háf og tvo ofna - allt frá sama merkinu. Ég fékk alveg nóg af Electrolux í Svíþjóð sem var alltaf að bila.


Flísarnar tók ég með mér frá Svíþjóð þegar við fluttum. Þetta er franskar dekor flísar sem Inga Dóra sá um að leggja fyrir okkur. Síðustu tuttugu árin hef ég eignast ógrynni af góðum hnífum sem þarf að ganga vel um. Best fer um þá á seglum.


Stóru hnífarnir fengu sinn heiðurssess í eldhúsinu. Uppáhaldið mitt er neðst fyrir miðju - Kai Shun Ken Onion 10 tommu kokkahnífur. Hægt er að kaupa Kai Shun hnífa í Prógastró í Ögurhvarfi.


Eftir að hafa farið í gegnum tvær Rancilio Silva vélar á síðasta áratug - ákvað ég einnig að fá mér kaffivél  - Siemens Series 700 eq 6 - svona fyrst að maður var á annað borð að þessu (hún er á tilboði út mánuðinn). Og ekki sé ég eftir því - hún getur gert vel flesta kaffidrykki sem hugurinn gæti girnst og gerir það með glæsibrag.

Ég er allaveganna byrjaður að elda - elda eins og engin væri morgundagurinn.

Enda væsir ekki um mig - Bon appetit!

Hlakka til að sýna ykkur afraksturinn.