Thursday 27 October 2016

Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni


Það hefur talsvert verið um að vera í vinnunni minni á Landspítalanum. Ég fékk nýja stöðu um daginn, þar sem ég var ráðinn sem umsjónarlæknir nýrrar greiningadeildar á sjúkrahúsinu. Markmiðið er að létta á bráðamóttökunni; að greina hratt og örugglega þá sjúklinga sem þurfa að leggjast inn þannig að þeir fái strax rétta greiningu frá því að þeir mæta á bráðamóttökuna og fái örugga meðferð strax í byrjun áður en þeir útskrifast eða þurfa frekari meðferð á öðrum, sérhæfðari deildum. Þetta er spennandi verkefni. Verkefni sem mörg önnur sjúkrahús hafa þurft að glíma við á síðustu árum. Fyrsta verk okkar er einmitt að læra af mistökum annarra, svo að við föllum ekki í sömu gryfjur.

Vinur minn, Roger Duckitt, sem rekur sambærilega einingu í Worthing, mun koma á næstu vikum og deila með sér reynslu sinni. Svo er stefnan tekin á Edinborg þar sem er nýstofnuð deild sem við getum líka skoðað og lært af. Ég vona að við getum lært þessum heimsóknum svo við getum sloppið við að hrasa um augsýnilega þröskulda sem í byrjun eru ekki svo augljósir. 

Svo er ég líka á fullu að sinna stofunni minni í Ármúlanum. Þar er nóg af verkefnum og af nógu að taka. Það er gaman þegar maður hefur fangið fullt af spennandi verkefnum. 

En nóg um það, snúum okkur að eldamennskunni! 

Ljúffengir og langeldaðir lambaskankar með grænkáli, baunum og einföldustu lambasósunni 

Ég veit eiginlega ekkert betra en að elda um helgar. Fátt eitt veitir manni meiri slökun en að hverfa inn í eldhúsið sitt og prófa sig áfram. Og það er svo auðvelt þegar maður er með gott hráefni. Hvað er meira verðlaunandi en gott lambakjöt? Maður tekur eftir því að sauðfjárbændur hafa verið að ræða í fjölmiðlum um að við neytum ekki nóg af lambakjöti. Kannski er það vegna þess að flestir bitar af lambakjöti þurfa talverða athygli - talsverðan tíma - að við gefum því ekki þann gaum sem það á skilið. Mér hefur alltaf komið það spánskt fyrir sjónir að ekki sé nóg af fljótelduðum bitum á aðgengilegu verði hérna á Íslandi. Hvar er t.d. lambahakkið - það var manni mjög aðgengilegt bæði í Svíþjóð, þar sem við bjuggum í sjö ár, og svo síðasta árið í Englandi. 

Hráefnalisti

Fyrir 6

6 lambaskankar
10 gulrætur
handfylli timjan
handfylli oregano
1 rauðlaukur
3 lárviðarlauf
250 ml rauðvín
75 g smjör
3-4 msk jómfrúarolía
blóðbergssalt og pipar


Byrjið á því að skræla gulræturnar og sneiða niður í grófa bita. Skellið hluta af jómfrúarólíunni í pottinn, svo gulrótunum, svo rauðlauknum og loks lárviðarlaufinu.


Setjið svo lambaskankana í pottinn. Saxið niður kryddjurtirnar og dreifið yfir og í kringum lambaskankana.


Einni til tveimur handfyllum af salti var svo sáldrað yfir. 


Nóg af salti og svo pipar.


Setti síðan nokkrar klípur af smjöri á milli lambaskankanna.


Setjið í ofnin við 180 gráður í tvo og hálfan tíma.


Það er alveg óhætt að leyfa kjötinu að hvíla í 15-20 mínútur áður en það er borið fram. Takið vökvann til hliðar til að nota í sósuna. 

Steikt grænkál og nýrnabaunir 

Hráefnalisti

5-6 stór grænkálslauf
1 rauðlaukur
1 dós nýrnabaunir
3 hvítlauksrif
30 g smjör
100 ml hvítvín 
salt og pipar


Saxið hvítlaukinn og rauðlaukinn smátt og skerið grænkálið gróflega niður. 


Bræðið smjör á pönnu. Bíðið þangað til að það hefur þagnað. 


Steikið laukinn í nokkrar mínútur þangað til að hann er mjúkur.


Bætið grænkálinu á pönnuna og steikið í tvær til þrjár mínútur. Veltið því vandlega upp úr lauknum og smjörinu. Bætið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið og sjóðið það niður. Skolið baunirnar vandlega upp úr köldu vatninu og bætið þeim á pönnuna og hitið þær í gegn. Saltið og piprið.

Lambasoðsósa

Hráefnalisti

500 ml lambasoð
30 g smjör
30 g hveiti
Vökvi af kjötinu
salt og pipar
klípa af smjöri


Hér er einföld leið til að útbúa lambasoðsósu. Auðvitað þarf að smakka hana til með salti, pipar, sultu og jafnvel soyasósu.

Með matnum drukkum við þennan Spánverja - Campo Veijo Gran Reserva frá því 2009. Þetta er ljúffengt vín sem passar mjög vel með lambakjöti. Þetta vín er fallega rúbínrautt í glasi, ilmurinn er ljúfur - ber og ávextir - smá tannín, smá sýra - góð fylling.



Þetta var sannkölluð veislumáltíð - eitthvað kjörið að hafa í matinn á kjördag! 

Ekki gleyma að kjósa - atvæðin skipta máli! 

Bon appetit!


No comments:

Post a Comment