Monday 3 October 2016

Laugardagsveisla; tveir snöggir forréttir og svo blóðbergsmarinerað lambafile "sousvide" með klassískri sveppasósu og röstikartöflum

Það hefur verið nóg að gera síðastliðnar vikur og það er alltaf gaman. Það hefur verið ferlega spennandi að byrja í nýrri vinnu, bæði á Landspítalanum og að opna nýja stofu í Klíníkinni. Ég er mjög ánægður að bætast í hóp frábærs starfsfólks Landspítalans, auk þess er ég þakklátur kollegum mínum að vísa til mín sjúklingum á stofuna mína í Klíníkinni. Það hefur líka verið nóg að gera hjá Lækninum í Eldhúsinu eins og sjá mátti á síðustu færslu þar sem ég sýndi nokkrar svipmyndir út eldhúsinu mínu sem er svo gott sem tilbúið (alltaf smávegis eftir sem þarf að lagfæra). Það gladdi mig óneitanlega mikið hve margir sýndu þessum framkvæmdum mínum áhuga.

En þó að það sé gaman að reisa draumaeldhúsið með öllum tækjum og tólum sem hugurinn girnist þá er það alltaf maturinn sem á að vera í brennidepli. Ég var nýlega með gamla vini í mat og reyndi að gleðja þá í mat og drykk.

Laugardagsveisla; tveir snöggir forréttir og svo blóðbergsmarinerað lambafile "sousvide" með klassískri sveppasósu og röstikartöflum 

Forréttirnir urðu eiginlega til í hendingu - ég hafði gleymt að hugsa fyrir þeim!

Vigdís kom með bláber sem höfðu verið týnd fyrr um daginn og fois gras. Ég náði að nýta gæsalifrina afar vel með því að steikja hana á pönnu í örsnögga stund og steikja síðan brauð upp úr fitunni sem rann af lifrinni í bland við hvítlauksolíu.


Setti flís af kæfu á nokkrar steiktar hvítlauksbrauðsneiðar og svo nokkur bláber ásamt smáræði af steinselju.


Ég fann einnig nokkra hörpudiska inn í frysti sem ég afþýddi í köldu vatni. Steikti síðan niðurskorið beikon í smá olíu þangað til að það var stökkt.


Til að drýgja hörpuskelina var hún skorin í tvennt og svo steikt upp úr beikonfitunni. Raðað saman á disk, einfalt og ljúffengt. Það þrufti ekki að biðja Börk tvisvar um að liðsinna mér í eldhúsinu. 

Svo var það lambið. Það vildi þannig til að ég á talsvert að íslensku blóðbergi sem mér áskotnaðist þegar ég fór nýverið í heimsókn í Saltverki. Þeir leystu mig út með talsverðu af blóðbergi til að hjálpa mér með annað verkefni sem ég greini betur frá síðar. 


Blóðberg er fallegt á litin, með mildan keim og hefur í senn yfirbragð milds svart tes og minnir líka á timian en hefur ekki eins ákveðið og skarpt bragð. 


Ég nuddaði lambið upp úr jómfrúarolíu og svo þremur til fjórum msk af blóðbergi sem var skipt á milli sex kjötstykkja.


Þessu var svo pakkað inn í vakúmpoka og sett í vatnsbað sem var 56 gráðu heitt. Kjötið var svo eldað við þennan hita í eina og hálfa klukkustund. 


Snædís fékk það verkefni að undirbúa röstikartöflurnar. Hægt er að finna uppskriftina af þeim hérna


Þetta er einföld uppskrift að ljúffengum kartöflurétti. 


Eftir um 90 mínútur var kjötið eldað í gegn og lítið meira að gera við það annað en að brúna það að utan. Það má að sjálfsögðu steikja það á pönnu en ég valdi að brúna það í ofni.


Sósan var gerð að hætti nafna míns Blöndal - sem er matreiðslumaður sem ég aðstoðaði við tvöfalt sextugsafmæli foreldra minna fyrir sex árum síðan. Sósan er dásamleg og ég hvet alla til að prófa aðferðina hans við að búa hana til. Hægt er að lesa allt um það í þessari færslu.


Með matnum opnuðum við meðal annars þetta dúndur góða vín sem ég hafði ekki bragðað áður. Eftir að ég fór til Argentínu á læknaþing 2013 hef ég verið heillaður af þessari þrúgu enda leikur hún algert aðalhlutverk í argentínskri víngerð. Þetta vín er frá Trapiche og kallast gran medalla og er frá 2012. Þetta er fallega dökkrautt vín í glasi með miklum djúpum ávexti, jörð og löngu mjúku eftirbragði. Mér fannst þetta vín passa ljómandi vel með lambinu.



Lambið þurfti ekki nema 30 sekúndur á hvorri hlið á grillinu - kannski aðeins lengur þegar fituröndin snéri niður. Lambið var lungamjúkt og einkar ljúffengt.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment