Monday 17 October 2016

"Oríental" klausturbleikja með snöggsteiktu grænmeti og einfaldri chilisósu


Það er óneitanlega gott að vera fluttur heim til Íslands. Þetta ætlaði ég í raun aldrei að gera - skömmu eftir að við fluttum út varð hrunið og öll sú umræða sem fylgdi því. Eftir nokkur ár tókum við þá ákvörðun að flytjast ekki heim aftur. Það var ekki fyrr en í fyrra, þann tíunda október síðastliðinn, að ég skipti um skoðun. Ég flaug til Ísland til að elda í brúðkaupi vinahjóna og um morguninn hafði ég farið og hitt marga vini í sundlaug Vesturbæjar. Í sömu ferð hitti ég mikið af ættingjum mínum og þá þyrmdi það yfir mig að mig langaði til að verða Íslendingur aftur. Mig langaði til að hitta vini mína og vandamenn meira og taka þátt í íslensku samfélagi. Sem betur fer var Snædísin mín sömu skoðunar og því fluttum við heim þann fimmta ágúst síðastliðinn. 

Og ég hef ekki séð eftir því í eina mínútu. Það er búið að vera stórgaman að vinna á Landspítalanum þó að sú stofnun sé löngu komin á hnén í því að sinna hlutverki sínu. Spítalinn er fyrir löngu sprunginn (hann var það áður en ég flutti út 2008) og löngu kominn tími til að reisa nýtt sjúkrahús hvar sem það svo verður. Það er líka spennandi að vinna við að byggja upp sitt eigið fyrirtæki í Klíníkinni í Ármúlanum. Það eru því mörg spennandi og skemmtileg verkefni framundan. 

Svo elska ég að kaupa fisk á Íslandi - hann er svo dásamlega ferskur. Ég fer alltaf til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og get þar valið úr miklu úrvali af nýveiddum fisk. Högni og Arnar eiga alltaf eitthvað ljúffengt í soðið - eða á pönnuna eins og í þessu tilviki. 

"Oríental" klausturbleikja með snöggsteiktu grænmeti og einfaldri chilisósu

Þetta er fljótleg máltíð. Var með tvær pönnur í gangi - eina fyrir fiskinn og wok pönnu fyrir grænmetið. Maturinn var tilbúinn á 30 mínútum. 

Hráefnalisti 

5 bleikjuflök
Smjör/olía til steikingar
1 dl hveiti
1 tsk papríkuduft
1 tsk tandori masala
1 tsk garam masala
1/2 tsk cheyenne pipar
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk túrmerik
1/2 tsk sjávarsalt með þangi
pipar




Þetta er ofureinfaldur réttur. Byrjið á því að blanda öllu kryddinu saman við hveitið og velta fiskinum upp úr hveitinu. 


Ég notaði salt bragðbætt með þangi - ilmurinn er dálítið sérstakur en bragðið hefur mikil "umami" áhrif - bragðaukandi áhrif. 


Bræðið smjörið/olíuna á pönnu og steikið fiskinn. 


Roðið verður stökkt og ákaflega ljúffengt.

Á sama tíma hugið þið að grænmetinu.

Hráefnalisti

1/2 kínakálshaus
1 rauð papríka
1 gul papríka
1 stór sveppur 
2 vorlaukar
3 hvítlauksrif
5 cm engifer
1/2 chili pipar
1 gulrót
1 rauðlaukur
2 msk steinselja
1 tsk sambal olaek
1 msk kikkoman soyasósa
1 tsk hunang


Ég hafði rænu á því að undirbúa grænmetið svo það væri tilbúið á heita pönnuna.


Grænmetið var allt steikt upp úr heitri olíu. 


Bragðbætt með sambal og soya. 


Sælgæti - tók ekki nema nokkrar mínútur að steikja allt grænmetið. 

Sósan var líka ofureinföld. 

Hráefnalisti

2 msk sýrður rjómi
1/2 tsk sambal olaek
1/2 tsk sæt chili sósa
salt og pipar

Öllu hrært saman í skál. Easy peasy! 



Það ætti síðan að vera í lagi að lífga upp á þennan mánudag með smá hvítvínstári. Snædís, eiginkona mín, er búin að gefast upp á Chardonnay og því erum við að prófa ólíkar sauvignion blanc tegundir um þessar mundir. Þessi, frá Pata Negra á Spáni, er ljúffengur sopi. Fallega gylltur í glasi, þurr og ávaxtaríkur sopi sem studdi vel við bragðmikinn mánudagsfiskinn. 


Stórkostlega ljúfeng máltíð - lífgaði svo sannarlega upp þetta mánudagskvöld. 

No comments:

Post a Comment