Wednesday 3 October 2012

Óður til tómata; besta penne alla pomodore heimsótt aftur - núna á grillinu
Þetta er kannski ekki alveg rétta uppskriftin fyrir haustmánuðina. Þegar maður finnur að myrkrið er að hellast yfir, gróðurinn fölnar og laufin byrja að falla til jarðar. Ég sá það nú samt í veðurfréttunum í gær að ennþá væri hægt að skilgreina veðráttuna hjá okkur Skáningum sem sumar þar sem meðalhitinn væri ennþá ofan við 10 gráður. Ekki leiðinlegt það.

Þetta er uppskrift sem ég gerði í lok sumarsins. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég elda þessa uppskrift og né heldur er þetta í fyrsta sinn sem ég blogga um þennan rétt. Það var fyrir nokkrum árum að ég eldaði þennan rétt í fyrsta sinn. Hann er innblásinn af vini mínum Hugh Fearnley Whittingstall sem núna er einn af mínum uppáhaldssjónvarpskokkum - nýjustu bækur hans hafa verið mér mikill innblástur í eldhúsinu og neysla okkar á grænmeti og grænmetismat hefur aukist til muna!

Að þessu sinni er þó rétturinn aðeins frábrugðinn því sem ég gerði í fyrsta skiptið. Núna eldaði ég hann á grillinu þar sem veðrið leyfði slíkar tilraunir. Einnig notaði ég tvær gerðir af tómötum - engin sérstök ástæða kannski - meira bara svona til gamans. Og svo bætti ég líka smá skvettu af balsamik ediki til að lyfta bragðinu aðeins.

Óður til tómata; besta penne alla pomodore heimsótt aftur - núna á grillinuHráefnalisti

600-800 gr sætir tómatar
4 msk jómfrúarolía
6 hvítlauksrif
Salt og pipar
2 msk balsamic edik

30  basilíkulauf
4-6 msk rjómi


Jæja best að vinda sér í þetta. Ætli ég hafi ekki verið með 600-800 gr af fallegum rauðum og sætum tómötum. Þeir voru skornir niður í bita eins og sést á myndinni og lagðir í eldfast mót. Næst er að hræra saman við fjórum matskeiðum af góðri jómfrúarolíu og síðan er sex smátt söxuðum hvítlauksrifjum dreift yfir, eða þá tveimur niðurskornum kínverskum hvítlauksrifjum. Saltað með Maldon salti og nýmöluðum svörtum pipar.Reif niður heila basiliku-jurt sem ég síðan lagði til hliðar til að bæta saman við tómatana þegar þeir yrðu eldaðir.Þá bætti ég saman við tveimur matskeiðum af góðu balsamik-ediki.Grillið var blússhitað. Eldfasta mótið sett á grillið, um cm frá og voru tómatarnir grillaðir í nokkrar mínútur þar til þeir tóku lit og voru jafnvel farnir að sjóða. Sumir verða gullinbrúnir, sumir örllítið dekkri. 

Næsta skref er að stappa tómatana með gaffli – misvel.Því næst er 30 rifnum basilíkulaufum blandað saman við og 4-6 msk af rjóma sömuleiðis.Saltað og piprað eftir smekk. Látið vera á grillinu þangað til að fer að sjóða upp í sósunni.

Pastað var soðið skv. leiðbeiningum. Við gerðum einfalt heimagert hvítlauksbrauð - bara baguetta skorin í helminga og pensluð með hvítlauksolíu, smá niðurrifinn parmesan og svo bakað í ofni. 


Með matnum drukkum við hvítvín úr búkollu. Ég hafði sótt nokkrar svona til Þýskalands í sumar þannig að þetta vín var nokkrum sinnum á boðstólnum yfir sumarmánuðina. Þetta er ástralskt Chardonnay vín frá því 2011. Ljómandi gott, kalt úr ísskápnum - ávaxtaríkt, melóna og smjörkennt eftirbragð.Pastað var sett á stórt fat og svo sósunni hellt yfir. Parmaostur raspaður yfir!

Bon appetit!

1 comment:

  1. Mmm... var búin að gleyma þessum, kveðja Ásta

    ReplyDelete