Thursday 18 October 2012

Ofngrillaður sólkoli með karmelliseruðum fennel og salsa verdeÉg er alltaf á höttunum á eftir nýjum leiðum til þess að elda fisk. En síðan enda ég oftast á því að elda fiskinn á sem einfaldasta háttinn til að hann nái að njóta sín sem best. Þannig er það eiginlega oftast með fisk – maður gerir sem minnst við hann og þá stendur hann upp úr á disknum. En það er auðvitað háð því að hráefnið sem maður er að nota sé eins ferskt og unnt er! Og ég hef nefnt það margoft í færslunum mínum að aðgengi að ferskum fiski er fyrir ofan garð og neðan, og fyrir Íslending, oftast fyrir neðan! En ég hef komist í samband við fyrirtæki í Malmö, Galleri fisk, sem selur frystan íslenskan fisk sem hefur reynst mér einkar vel! Ég hef keypt löngu, þorsk og núna síðast sólkola! Og einfalt var það – panta á netinu og svo er þetta keyrt heim til manns.

Síðustu misseri hef ég verið mest spenntur fyrir því að ofngrilla fiskinn, pensla hann létt með smjöri eða olíu og svo inn í blússheitan ofn. Fjölbreytileikinn hefur verið mestur þegar það kemur að meðlætinu.
Það er langt síðan að ég gerði síðast karmelliseraðan fennel – en eins og lauk þá líður fennel ákaflega vel að liggja í smjörklípu við lágan hita í 30–45 mínútur. Hann lyftist hreinlega upp í hæstu hæðir.

Salsa verde er ævaforn sósa. Talið er að hún eigi rætur að rekja til Miðausturlanda og hafi borist með rómverskum hermönnum til Rómar fyrir um 2000 árum. Hún hefur síðan dreifst um Evrópu og tekið breytingum í gegnum árin. Ég studdist við uppskrift sem á rætur að rekja til Ítalíu.

Ofngrillaður sólkoli með karmelliseruðum fennel og salsa verde


Fyrst skrefið er að skera niður fennelinn í sneiðar. Setja smjörklípu á pönnu og smáræði af olíu. Þegar smjörið er bráðið og hljóðnað á pönnunni setur maður fennelinn út á. Saltar og piprar og steikir við lágan hita í rúman hálftíma – jafnvel þrjú kortér. Muna að hræra reglulega og gæta þess að hann brúnist ekki.


Næst er að gera salsa verde, enda er það sósa sem nýtur góðs af því að standa um stund þannig að hráefnin nái að blandast saman og fá þannig jafnvægi á sósuna.Það er erfitt að gefa uppskrift að salsa verde þar sem hún er háð því sem maður á til – en mín var nokkurn veginn á þennan veg; hálfur hvítur laukur, tvö hvítlauksrif, ein teskeið af dijon sinnepi, tvær msk af kapers, fimm ansjósuflök, tvær msk af rauðvínsediki, handfylli af steinselju, salt og pipar og svo jómfrúarolía þangað til rétt þykkt fæst á sósuna.Svo þarf að smakka til, salta, pipra, meira edik, kannski sætu þangað til að bragðið er eftir manns eins og best líkar.Maukið sett í skál og látið bíða í ísskápnum þangað til að maturinn er borinn fram.Sólkolinn hafði fengið að þiðna í ró og næði inni í ísskáp. Setti álpappír í botninn á ofnskúffu og penslaði fiskinn með olíunni/smjörinu af fennelnum. Saltaði og pipraði!Ofninn er hitaður að hámarki með grillið í gangi. Ofnskúffuna setti ég í miðjan ofninn og fiskurinn var tilbúinn á innan við sjö mínútum. Mjög mikilvægt að hafa hann ekki of lengi inni.

Cloudy Bay Chardonnay
Með matnum drukkum við þetta fyrirtaks hvítvín frá Nýja Sjálandi. Cloudy Bay Sauvignion Blanc frá því 2009. Þetta er ljómandi gott hvítvín. Fallega sítrónugult í glasinu. Létt og gott vín - ávaxtaríkt á tungu með frískandi létt eikuðu eftirbragði. Sá ekki eftir því að hafa splæst í þessa flösku!Með matnum bárum við nýjar möndlukartöflur og svo tómat sem ég skar niður á svona „kreatívan“ hátt, sem ég bragðbætti með smá jómfrúarolíu, balsamik ediki, salt og pipar og fersku smáttskornu basil.

Maturinn var alveg frábær!

Bon appetit!

Ps. Ég bý einnig á Facebook - The Doctor in the Kitchen – þar sem ég sett inn ýmsa hlekki og annað efni úr eldhúsinu mínu, verið velkomin!

Ps.s. Þið mynduð einnig gleðja mig mikið með að like-a og deila eins og hugur ykkar lystir!

1 comment:

  1. Many people are seeking alternatives to pharmaceuticals with harsh side effects – medicine more in synch with natural processes. By tapping into how we function biologically on a deep level, CBD can provide relief for chronic pain, anxiety, inflammation, depression and many other conditions. https://royalcbd.com/product/cbd-capsules-25mg/

    ReplyDelete