Showing posts with label lambaprime. Show all posts
Showing posts with label lambaprime. Show all posts

Friday, 7 June 2019

Stykkishólmur, Hótel Búðir og Kirkjufell - uppskriftir úr þætti þrjú: Djúsí hörpuskel beint úr Breiðafirði, moules frites með smælki og fyllt lambaprime með rjómalöguðu byggotto


Þriðji þáttur af Lambið og miðin fór í loftið í kvöld í opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans. Þættirnir hafa verið aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium frá því um miðjan maí. Ég vona að sem flestir sjái þættina og hafa gaman af. Við höfðum alltént óskaplega gaman af því að gera þessa þætti og eins og ég hef sagt áður - þá erum við sérstaklega stoltir af þeim. Við erum nokkuð sannfærðir að þetta séu fallegustu matreiðsluþættir sem framleiddir hafa verið. En eins og ég hef líka sagt, þá er það ekki okkar að dæma. Það er ykkar!

Og endilega segið okkur frá! Við viljum gjarna heyra hvað ykkur finnst! Meira að segja það sem betur má fara.

Þessi ferð tók okkur út á Snæfellsnes. Snæfellsnesið er eitt af mest heillandi stöðum á Íslandi. Ég held að flestir sem þangað koma séu sammála um það. Og Stykkishólmur er sannkölluð perla.


Við vorum ákaflega heppnir en gestgjafi okkar að þessu sinni var Gréta Sigurðardóttir, hóteleigandi, og hún hreinlega elskar bæinn sinn (skiljanlega) og svæðið allt um kring. Hún kom okkur í kynni við Símon bláskeljakóng sem fór með okkur að sækja bláskel sem við fengum svo að elda með Viktori Erni matreiðlumeistara og yfirkokk á Hótel Búðum. Við elduðum svo dásamlega hörpuskel sem Símon hafði veitt með okkur, þvílík dásemd. Og til að setja púnktinn yfir i-ið matreiddum við dásamlegt lambaprime fyllt með bláberjasultu og rjómaosti á byggotto sem við bárum fram fyrir íslenskt par sem varð á vegi okkar við Kirkjufellsfoss.

Stykkishólmur, Hótel Búðir og Kirkjufell - uppskriftir úr þætti þrjú: Djúsí hörpuskel beint úr Breiðafirði, moules frites með smælki og fyllt lambaprime með rjómalöguðu byggotto

Moules Frites með rjómafroðu og tvennskonar íslensku smælki

Hráefnalisti fyrir moules frites 

500 g spriklandi fersk bláskel 
2 msk jómfrúarolía
2 skalottulaukar
3 hvítlauksrif
1/4 fennel
1 peli af rjóma 

500 g smælki, soðið og steikt og svo skorið niður í örþunnar sneiðar og djúpsteikt
1 msk kóríanderf
jómfrúarolía
1 glas af hvítvíni
1/2 dós sýrður rjómi
salt og pipar


Það var sannkölluð lífsreynsla fyrir áhugamann um mat og matseld eins og mig að fá að elda með Viktori Erni Andréssyni, matreiðslumeistara og yfirkokki á Hótel Búðum. Hann er rómaður kokkur og hefur unnið til margara verðlauna á sínum ferli. Hann var meðal annars í verðlaunasæti á Bocuse d'or keppninni árið 2016 og hefur verið nefndur Matreiðslumaður ársins 2013.

Hann hafði undirbúið kartöflurnar aðeins áður en við mættum á svæðið. Hann hafði forsoðið hluta af þeim og steikti svo á pönnu í smá olíu sem ég fékk svo að bragðbæta með fersku kóríander. Hinn hlutann hafði hann sneitt örþunnt í mandólíni og djúpsteikt þannig að þær voru eins og kartöfluflögur, bara miklu betri.

Með kartöflunum útbjuggum við ofureinfalda sósu með sýrðum rjóma, hvítlauk og salti og pipar sem við dreifðum yfir heitar kartöflurnar og röðuðum svo haug af flögunum yfir.

Að gera moules frites er einfaldara en margan grunar. Við sneiddum niður laukinn og hvítlaukinn og steiktum í olíu í eina til tvær mínútur og bættum svo bláskelinni saman við. Helltum hvítvíni með. Þegar skrelin hefur opnað sig er hún tilbúin. Þetta tekur ekki nema sex til sjö mínútur, varla það.

Svo tók hann soðið af bláskelinni, blandaði rjóma saman við og setti í rjómasprautu, hleypti á þremur gashylkjum og sprautaði svo yfir heita skelina. Þetta skreyttum við svo með ætilegum blómum sem við tíndum í grenndinni. Blóm sem ég veit ekki ennþá hvað heita, vitið þið svarið?


Þessa veislumáltíð snæddum við svo fyrir utan hótelið. Þvílíkt og annað eins - svo gott var það! 

Hörpuskel í fjörunni með beikoni og þaraskeggi (íslenska trufflan)


Það var einstaklega gaman að kynnast þessum manni - Símoni Sturlusyni bláskeljakóngi. Hann, líkt og Gréta Sigurðardóttir, elska Breiðafjörðinn og allt það sem hann gefur. Og það var sérstaklega gaman að sigla um með honum og fá að kynnast því sjávarfangi sem völ var á. Og þar kom "íslenskra trufflan" sérstaklega á óvart. En hún er lítil þétt jurt, kallast þaraskegg, sem ilmar dásamlega og er pökkuð af bragði. 


Upp úr botnssköfunni kenndi ýmissa grasa og ég týndi mér eins og 30 hörpudiska til að hafa með mér til að elda réttinn minn - hörpuskel í fjöruborðinu. 


Fyrst var auðvitað að koma sér fyrir en það var hægara sagt en gert - sökum þess að við höfðum ekki reiknað með því að flóðið kæmi að með þeim hraða sem það gerði.

En svo fór sem fór og við þurftum að hopa lengra upp í fjöruna.


Og fundum okkur þetta prýðilega stæði. 

Hráefnalisti 

200 g hörpuskel
50 g smjör
100 g beikon
100 g tómatar
handfylli af ferskum kryddjurtum
sítrónusafi 
örlítið þaraskegg 
tvær brauðsneiðar 

Ætli flóknasti hlutinn við þessa eldamennsku hafi ekki verið að veiða hörpudiskinn út úr skel sinni. Þegar það var komið bræddi ég smjör á pönnu og steikti beikonið í nokkrar mínútur. Þá bætti ég tómötunum saman við og saltaði og pipraði. Þegar þetta var eldað var það sett til hliðar á meðan ég hlúði að hörpuskelinni. Hún var steikt varlega í tvær  mínútur þangað til að hún verður ögn stinnari og þá var hún sett með beikoninu og tómötunum og kryddjurtum blandað samanvið. Smá sítrónusafi kemur ekki að sök á þessu stigi. 

Svo steikti ég brauðið á pönnunni þannig að allt gumsið, smjörið, beikonfitan, tómatsafinn sogast inn í það eins og svamp. Að lokum er ekkert að gera nema raða þessu upp með því að tylla hörpuskelinni, beikoni, tómötum ofan á brauðið og skreyta með fínt saxaðri íslenskri trufflu. Þetta var alveg truflað gott! 

Ljúffengt lambaprime fyllt með rjómaosti og bláberjasultu borið fram á beði af byggotto. 

Þetta var einstaklega ljúffeng uppskrift sem við elduðum á dásamlegum stað við Kirkjufell. 

2 lambaprime
4 msk rjómaostur
4 tsk bláberjasulta
blóðberg og timjan
salt og pipar
jómfrúarolía
50 ml rauðvín
smjör til steikingar

Fyrir byggotto

200 g bygg
1 gulrót
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
handfylli sveppir
50 g smjör til steikingar
1 peli rjómi

Byrjið á því að skera upp lambaprime eins og bók og flettið því upp. Smyrjið rjómaosti og svo sultu ofan á og kryddið með blóðbergi og fersku timjan. Saltið og piprið. Bindið upp með spotta. 
Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið að utan. Setjið svo í eldfast mót. Hellið víni á pönnuna og sjóðið upp og hellið yfir lambið. Bakið í ofni þangað til að kjarnhiti er í kringum 50 gráður. 

Svo er það byggotto. Sjóðið byggið í söltuðu vatni í 15 mín. Hellið vatninu frá. Bræðið smjör í pönnu og steikið niðurskorna gulrót, lauk, sveppi og hvítlauk þar til það er mjúkt að utan. Bætið þá bygginu saman við og blandið vel. Saltið og piprið. Þarna bæta við smá hvítvíni og sjóða upp, eða soði og sjóða það niður aftur. Hellið svo rjóma saman við og sjóðið hann niður um helming. Þegar byggottoið er orðið þykkt og ilmar dásamlega blandið þá kryddjurtum saman við. 

Berið fram á disk, byggotto undir og svo fallegar sneiðar af lambaprime. 



Sérstakar þakkir við gerð þáttarins fá þessi prúðmenni og fyrirtæki!

Gréta Sigurðardóttir, hóteleigandi
Viktor Örn Andrésson, matreiðslumeistari
Símon M. Sturluson, bláskeljakóngur
Ástfangna parið við Kirkjufell
Hótel Egilsen
Brauð og bænir
Hótel Búðir
Kokka
Egill Sigurðsson
Land Rover á Íslandi
Sölufélag garðyrkjubænda
Sláturfélag Suðurlands

Ástarþakkir frá okkur öllum!



Sunday, 2 December 2018

Fullveldiskvöldverður - kryddhjúpað lambaprime með snöggri portobellosveppasósu og litríkum appelsínubættum gulrótum


Fullveldisdagurinn var í gær eins og flestir Íslendingar hafa nú án efa tekið eftir. Margir brugðu sér niður í bæ, hvort sem heldur til að mótmæla eða til að taka þátt í hátíðarhöldunum og létu ekki nístíngskuldann aftra sér. Ég gat því miður tekið þátt í hvorugu þar sem ég stóð vaktina á Landspítalanum þessa helgi. Það hefur verið nokkuð spennuþrungin stemming á spítalanum í aðdraganda að lokun Hjartagáttarinnar. Það er erfitt að spá um hvernig fer - en ljóst er að álagið á sjúkrahúsinu er ekkert að leysast enda gera ráðamenn lítið til að greiða úr þessum vandræðum. 

Og þá sérstaklega þegar maður finnur fyrir álagi í kringum sig er gott að koma heim og gleyma sér í eldhúsinu. Um helgar ver ég oft löngum tíma í eldhúsinu, það er, jú, mitt uppáhaldsherbergi og þar kann ég svo vel við mig. En þegar maður er á vakt verður maður að aðlaga sig að því. Þessi uppskrift var því nokkuð viðeigandi þar sem hún var snöggelduð - svona miðað við laugardagsmáltíð á fullveldisdeginum. 

Fullveldismaturinn - kryddhjúpað lambaprime með snöggri portobellosveppasósu og litríkum appelsínubættum gulrótum 

Íslensku hráefni var eins og svo oft áður gert hátt undir höfði, ef ekki í dag, hvenær þá? 

Fyrir fjóra

1 kg lambaprime
2 msk kryddblanda (t.d. rósmarín, timjan, blóðberg)
1 msk jómfrúarolía
birkireykt salt 
pipar 

300 g regnbogagulrætur
safi úr heillri appelsínu
börkur af hálfri appelsínu
2 msk hlynsíróp
50 g smjör
salt og pipar

250 g portobellosveppir
1/2 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
1 dós sýrður rjómi
50 ml rjómi
1 msk tómatpúre
1 tsk djion sinnep
salt og pipar



Þessar gulrætur gleðja mig sérstaklega. Það er gaman að sjá að nú er hægt að kaupa íslenskar regnbogagulrætur.


Byrjið á að flysja gulræturnar.


Svo skar ég börkinn af hálfri appelsínu og saxaði smátt. Dreifði berkinum yfir allar gulræturnar.


Næst var að setja safa úr heilli appelsínu, skvettu af jómfrúarolíu, síróp og svo salt og pipar. Leyfði gulrótunum að marinerast í 10 mínútur eða svo. 


Bræddi svo smjörklípu á pönnu og steikti gulræturnar í 10 mínútur áður en ég færði þær í eldfast mót og bakaði í 30 mínútur í 180 gráðu heitum ofni. 


Það er skemmtilegt að hafa þetta fjölbreytt.


Næst var það lambið. Nuddaði það með jómfrúarolíu. Svo útbjó ég  kryddblöndu með heilmiklu af rósmaríni, blóðbergi, timjan, oregano, og lítilræði af hvítlauksdufti. Nuddaði kryddinu einnig inn í kjötið. 


Svo saltaði ég með birkireyktu salti og pipar. Lét standa í um 10 mínútur eða svo til að marinerast fyrir steikingu. Kryddið fær því dálítinn tíma til að setja mark sitt á kjötið. Það hefði að sjálfsögðu ekki verið óskynsamlegt að marinera kjötið lengur. 


Bræddi svo smjör á pönnu og brúniði lambið að utan á hverri hlið. Setti svo hitamæli í kjötið og setti í 160 gráðu heitan ofn. 


Á meðan var hugað að sósunni. Skar sveppina, rauðlaukinn og hvítlaukinn vandlega. 


Laukurinn og sveppirnir voru steiktir í smjöri í nokkrar mínútur áður en hvítlauknum var bætt saman við. Steikt svo áfram í nokkrar mínútur til viðbótar við miðlungshita. Gætið að því brenna ekki hvítlaukinn. Saltið og piprið.


Setti næst eitt rauðvínsglas sem var svo soðið niður um 3/4. Bætti næst við 1 msk af fljótandi lambakrafti.


Næsta skref var að bæta sýrðum rjóma, rjóma, tómatpúre og dijon út í sósuna. Smakkað til með salti og pipar.


Með matnum opnuðum við rauðvín frá Languedoc-Roussillon sem er eitt af vínræktarhérðum Frakklands. Þetta er La Baume la Jeunesse Syrah 2015. Þetta er vín sem ég hef smakkað áður þannig að ég vissi að hverju ég gekk. Þessi árgangur er ljúffengur - mikið ávaxtabragð í góðu jafnvægi, sumpart pínu sultað og með mjúku eftirbragði. 


Þetta var nokkuð snöggelduð veislumáltið á fullveldisdaginn. 

En hún var sannarlega veislumáltið! 


 -------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 8 July 2018

Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti


Við áttum eiginlega draumkennda daga liðna helgi þegar við vorum við tökur á þriðja og fjórða þætti af Læknirinn í Eldhúsinu - Lambið og miðin. Við vorum að þessu sinni staddir á Snæfellsnesi og tókum upp við Stykkishólm, Hellnar, á Búðum, undir rótum Kirkjufells og í hinni dásamlegu Flatey.


Við dvöldum þrjár nætur í Stykkishólmi í boði Grétu Sigurðardóttur sem á nokkra gististaði, m.a. Hótel Egilsen og Bænir og Brauð. Þessi frábæra kona kann að meta Hólminn og allt svæðið um kring og deildi með okkur ástríðu sinni fyrir matarmenningu svæðisins. Það var virkilega ánægjulegt að dvelja hjá henni og spjalla við hana um daginn og veginn. Það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri gestgjafa en þessa ljúfu heiðurskonu. Á myndinni er líka dásamlegur maður - Kristján Kristjánsson - leikstjóri og meðframleiðandi minn að þáttaröðinni okkar Lambið og miðin.

Þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið um helgina þá komum við allir heim fullir af innblæstri sem sást vel á sameiginlegum þræði okkar félaga; Kidda, Elvars, Árna, Kjartans og mín - þar sem við höfum verið að deila uppskriftum vikunnar.

Hér kemur mitt innlegg í þá umræðu!

Ljúffengt lambaprime á beði af flauelsmjúku byggotto og parmaosti

Og þetta er meira að segja fljótleg uppskrift - ætti ekki að taka mikið meira en hálfa klukkustund frá upphafi til enda.

400 g lambaprime
blóðbergssalt
pipar
2 msk jómfrúarolía
1 msk fersk kryddblanda frá Grétu (fjalldrapi, blóðberg, bláberjalyng)

250 g bygg
2 öskjur (300 g) af íslenskum kastaníusveppum
100 g smjör
1/2 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
1 lambateningur
salt og pipar
250 rjómi
100 ml vatn
1 rjómaostur með kryddblöndu
ferskar íslenskar kryddjurtir - steinselja og timían - og smá viðbót til skrauts
parmaostur
góð jómfrúarolía


Ég átti nokkra sveppi afgangs frá því að við vorum í tökum um helgina. Og það er engin ástæða til að láta þá fara til spillis. Skar niður sveppina heldur gróflega ásamt rauðlauknum.


Steikti svo sveppina og laukinn upp úr helmingum af smjörinu. Saltaði og pipraði.


Skar svo hvítlaukinn niður og steikti svo með sveppunum og lauknum. Það er ágætt að bíða aðeins með hvítlaukinn - þar sem hann má ekki brenna. Þá verður hann bitur og leiðinlegur.


Steikið sveppina þangað til að þeir hafa tekið á sig fallegan karmelliseraðan lit.


Svo er bara að hita vatn í potti, salta það ríkulega og sjóða byggið í 15 mínútur. 


Þegar byggið var farið að sjóða setti ég einn tening af lambakrafti saman við. Bara til að fá aukið bragð af korninu. 


Þegar byggið var soðið - en aðeins undir tönn, "al dente", þá bætti ég því á pönnuna með sveppunum og blandaði vel saman. Skar niður steinselju og timían og hrærði saman við.


Hellti svo rjómanum saman við og sauð upp. Bætti einnig vatni á pönnuna. 


Þegar rjóminn var farinn að krauma setti ég rjómaostinn saman við. 


Tók svo kryddjurtirnar frá Grétu og hakkaði niður vandlega.


Nuddaði lambið upp úr olíu, saltaði og pipraði og sáldraði svo kryddinu frá Grétu yfir.


Brúnaði lambið að utan á blússheitu grilli.


Skellti því svo inn í heitan ofn með hitamæli og tók út þegar það náði 52 gráðum í kjarnhita. Hvíldi í nokkrar mínútur áður en ég skar það í sneiðar.


Lagði byggotto á disk, raspaði parmaost yfir, smá jómfrúarolíu og skreytti með fersku timían.


Þetta vín hefur komið fyrir nokkrum sinnum á síðunni minni á síðustu mánuðum, sem er ekki skrítið þar sem það er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.  Þetta vín smakkaði ég í fyrsta sinn á Ítalíu þegar ég var í heimsókn hjá Masi fyrir tæpu ári síðan. Ég var svo hrifinn af því að ég óskaði eftir því að það yrði flutt inn til landsins og selt í ríkinu. Þetta vín fær sannarlega mín meðmæli enda er það einstaklega kraftmikið og bragðgott vín sem á rætur að rekja til Argentínu. Það er framleitt með því að blanda saman víni gerðu úr ítölsku þrúgunni Corvina sem er ræktuð í Argentínu og svo Malbec sem er uppistöðuþrúga í Argentínskum vínum. Þetta er vín sem ég er sannfærður að þið mynduð njóta.


Þetta var einstaklega vel heppnuð og ljúffeng máltíð. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa enda íslensk hráefni í aðalhlutverki. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 7 May 2018

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum


Vinnuhelgi að baki. Þó að oftast sé kraðak á spítalanum er samt alltaf gaman að mæta í vinnuna. Það er gott að vinna með góðu fólki, hvort sem um ræðir sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna. Eins og oft áður er mikið að gera - en loksins er flensutímabilinu að ljúka - þetta er líklega eitt af lengstu flensutímabilum sem við höfum glímt við og það virtist enga enda taka. Svona tímabil reyna auðvitað mikið á starfsfólkið. 

Eftir langa vinnuhelgi er líka gott að eiga athvarf úti á landi. Við hjónin búum svo vel að foreldrar mínir hafa búið sér til dásamlegt athvarf í Kjósinni, spölkorn frá Reykjavík, þannig að ekki tekur nema tæp þrjú kortér að aka þangað. Að eiga slíkt athvarf er munaður. Og það er dásamlegt að vera alltaf velkomin í kotið. 

Þar sem við komum seint á vettvang var sniðugt að elda eitthvað fljótlegt. Og þessi réttur var kjörinn. Ég stoppaði í stórmarkaði á leiðinni úr bænum og sótti það sem vantaði. 

Lækjarkot - Snöggeldaðar núðlur með grilluðum lambaprimerib og soðnum eggjum

Fyrir sex

600 g lambaprime
4 msk jómfrúarolía
4 msk soyasósa
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1 sítrónugras
2 msk thaí-chilisósa
4 vorlaukstoppar
2 msk hökkuð steinselja
salt og pipar

200 g kastaníusveppir
1 gul papríka
2 rauðar snakk papríkur
4 vorlaukar
1 box mungbaunir
1 púrrlaukur
1 rauðlaukur
1 pakki heilhveiti núðlur (soðnar í kjúklingasoði)
4 egg
4 msk soyasósa
3 hvítlauksrif
2 cm engifer
1 rauður chili
2 msk thaí-chillisósa
smávegis af lambamarineringunni
salt og pipar


Lambaprimerifjasteik er að ég held vanmetin kjötbiti. Hún hentar bæði í snögga eldun eins og lundir og lambarifjur sem og langa eldun þar sem fitan nær að bráðna. 

Það þarf þó að eiga aðeins við bitann til þess að hann henti vel fyrir snögga eldun eins og þessa. 


Ég byrjaði á því að "butterfly-a" kjötið". Það gerir maður með því að skera í jaðarinn og fletja það svo út og halda áfram þannig að maður er kominn með jafnþykkan bita. 


Ég endurtók leikinn með alla þrjá bitana þangað til að ég var kominn með jafnþunnar sneiðar. 


Svo útbjó ég marineringuna; blandaði jómfrúarolíunni, soyasósunni, hvítlauk, chili og engifer saman. Salt og pipar.


Lagði svo kjötið saman við og sá til þess að bitanir væru vel hjúpaðir. Skreytti með smátt skornum vorlauksprotum og lét standa til að marinerast í rúma klukkustund á meðan ég skellti mér í pottinn.


Svo skar ég niður rauðlauk og púrru og steikti í jómfrúarolíu þangað til að það var mjúkt á heitri wok pönnu.


Skar svo niður afganginn af grænmetinu og kryddinu og blandaði saman við og steikti í um kortér þangað til það var mjúkt, ilmandi og eldað í gegn.


Sauð svo núðlurnar eins og lög gera ráð fyrir í fjórar mínútur í kjúklingasoði þangað til að þær voru eldaðar í gegn. 


Þegar núðlurnar voru tilbúnar blandaði ég þeim saman við grænmetið og lét standa á meðan ég grillaði kjötið. 

Sauð fjögur egg í söltuðu vatni á meðan ég stóð við grillið.



Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig á að grilla lambaprimerifjasteik. 


Ég penslaði kjötið reglulega og snéri því einnig á fimmtán sekúnda fresti þannig að það brinni ekki. Það var talsvert af olíu í marineringunni þannig að logarnir gusu reglulega upp á grillinu. En það skiptir ekki máli hafi maður snöggar hendur í snúningum. 


Kjötið varð alltént gullfallegt. Gljáð að utan og lungamjúkt að innan.


Með matnum nutum við Barone Montalto Nero D'Avola Passivento frá 2015. Þetta er vín sem skorar hátt á Vivino þó það sé á talsvert hagstæðu verði. Það kostar undir 2500 kall í ÁTVR. Þetta er bragðmikið vín - sætur og kraftmikill ávöxtur, vanillu keimur og langt og mikið eftirbragð. Stóð sig vel með bragðmiklum matnum. 


Svo var bara að raða réttninum saman. Setti núðlurnar og grænmetið á stórt fat og lagði skornar lambaprimesteikurnar ofan á. Skreytti með eggjum (sem áttu auðvitað að vera soðinn aðeins minna en myndirnar gefa til kynna) og svo vorlaukssprotum og ferskum kóríander. 

Þetta var sannkölluð veisla!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa