Friday 7 June 2019

Stykkishólmur, Hótel Búðir og Kirkjufell - uppskriftir úr þætti þrjú: Djúsí hörpuskel beint úr Breiðafirði, moules frites með smælki og fyllt lambaprime með rjómalöguðu byggotto


Þriðji þáttur af Lambið og miðin fór í loftið í kvöld í opinni dagskrá á Sjónvarpi Símans. Þættirnir hafa verið aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium frá því um miðjan maí. Ég vona að sem flestir sjái þættina og hafa gaman af. Við höfðum alltént óskaplega gaman af því að gera þessa þætti og eins og ég hef sagt áður - þá erum við sérstaklega stoltir af þeim. Við erum nokkuð sannfærðir að þetta séu fallegustu matreiðsluþættir sem framleiddir hafa verið. En eins og ég hef líka sagt, þá er það ekki okkar að dæma. Það er ykkar!

Og endilega segið okkur frá! Við viljum gjarna heyra hvað ykkur finnst! Meira að segja það sem betur má fara.

Þessi ferð tók okkur út á Snæfellsnes. Snæfellsnesið er eitt af mest heillandi stöðum á Íslandi. Ég held að flestir sem þangað koma séu sammála um það. Og Stykkishólmur er sannkölluð perla.


Við vorum ákaflega heppnir en gestgjafi okkar að þessu sinni var Gréta Sigurðardóttir, hóteleigandi, og hún hreinlega elskar bæinn sinn (skiljanlega) og svæðið allt um kring. Hún kom okkur í kynni við Símon bláskeljakóng sem fór með okkur að sækja bláskel sem við fengum svo að elda með Viktori Erni matreiðlumeistara og yfirkokk á Hótel Búðum. Við elduðum svo dásamlega hörpuskel sem Símon hafði veitt með okkur, þvílík dásemd. Og til að setja púnktinn yfir i-ið matreiddum við dásamlegt lambaprime fyllt með bláberjasultu og rjómaosti á byggotto sem við bárum fram fyrir íslenskt par sem varð á vegi okkar við Kirkjufellsfoss.

Stykkishólmur, Hótel Búðir og Kirkjufell - uppskriftir úr þætti þrjú: Djúsí hörpuskel beint úr Breiðafirði, moules frites með smælki og fyllt lambaprime með rjómalöguðu byggotto

Moules Frites með rjómafroðu og tvennskonar íslensku smælki

Hráefnalisti fyrir moules frites 

500 g spriklandi fersk bláskel 
2 msk jómfrúarolía
2 skalottulaukar
3 hvítlauksrif
1/4 fennel
1 peli af rjóma 

500 g smælki, soðið og steikt og svo skorið niður í örþunnar sneiðar og djúpsteikt
1 msk kóríanderf
jómfrúarolía
1 glas af hvítvíni
1/2 dós sýrður rjómi
salt og pipar


Það var sannkölluð lífsreynsla fyrir áhugamann um mat og matseld eins og mig að fá að elda með Viktori Erni Andréssyni, matreiðslumeistara og yfirkokki á Hótel Búðum. Hann er rómaður kokkur og hefur unnið til margara verðlauna á sínum ferli. Hann var meðal annars í verðlaunasæti á Bocuse d'or keppninni árið 2016 og hefur verið nefndur Matreiðslumaður ársins 2013.

Hann hafði undirbúið kartöflurnar aðeins áður en við mættum á svæðið. Hann hafði forsoðið hluta af þeim og steikti svo á pönnu í smá olíu sem ég fékk svo að bragðbæta með fersku kóríander. Hinn hlutann hafði hann sneitt örþunnt í mandólíni og djúpsteikt þannig að þær voru eins og kartöfluflögur, bara miklu betri.

Með kartöflunum útbjuggum við ofureinfalda sósu með sýrðum rjóma, hvítlauk og salti og pipar sem við dreifðum yfir heitar kartöflurnar og röðuðum svo haug af flögunum yfir.

Að gera moules frites er einfaldara en margan grunar. Við sneiddum niður laukinn og hvítlaukinn og steiktum í olíu í eina til tvær mínútur og bættum svo bláskelinni saman við. Helltum hvítvíni með. Þegar skrelin hefur opnað sig er hún tilbúin. Þetta tekur ekki nema sex til sjö mínútur, varla það.

Svo tók hann soðið af bláskelinni, blandaði rjóma saman við og setti í rjómasprautu, hleypti á þremur gashylkjum og sprautaði svo yfir heita skelina. Þetta skreyttum við svo með ætilegum blómum sem við tíndum í grenndinni. Blóm sem ég veit ekki ennþá hvað heita, vitið þið svarið?


Þessa veislumáltíð snæddum við svo fyrir utan hótelið. Þvílíkt og annað eins - svo gott var það! 

Hörpuskel í fjörunni með beikoni og þaraskeggi (íslenska trufflan)


Það var einstaklega gaman að kynnast þessum manni - Símoni Sturlusyni bláskeljakóngi. Hann, líkt og Gréta Sigurðardóttir, elska Breiðafjörðinn og allt það sem hann gefur. Og það var sérstaklega gaman að sigla um með honum og fá að kynnast því sjávarfangi sem völ var á. Og þar kom "íslenskra trufflan" sérstaklega á óvart. En hún er lítil þétt jurt, kallast þaraskegg, sem ilmar dásamlega og er pökkuð af bragði. 


Upp úr botnssköfunni kenndi ýmissa grasa og ég týndi mér eins og 30 hörpudiska til að hafa með mér til að elda réttinn minn - hörpuskel í fjöruborðinu. 


Fyrst var auðvitað að koma sér fyrir en það var hægara sagt en gert - sökum þess að við höfðum ekki reiknað með því að flóðið kæmi að með þeim hraða sem það gerði.

En svo fór sem fór og við þurftum að hopa lengra upp í fjöruna.


Og fundum okkur þetta prýðilega stæði. 

Hráefnalisti 

200 g hörpuskel
50 g smjör
100 g beikon
100 g tómatar
handfylli af ferskum kryddjurtum
sítrónusafi 
örlítið þaraskegg 
tvær brauðsneiðar 

Ætli flóknasti hlutinn við þessa eldamennsku hafi ekki verið að veiða hörpudiskinn út úr skel sinni. Þegar það var komið bræddi ég smjör á pönnu og steikti beikonið í nokkrar mínútur. Þá bætti ég tómötunum saman við og saltaði og pipraði. Þegar þetta var eldað var það sett til hliðar á meðan ég hlúði að hörpuskelinni. Hún var steikt varlega í tvær  mínútur þangað til að hún verður ögn stinnari og þá var hún sett með beikoninu og tómötunum og kryddjurtum blandað samanvið. Smá sítrónusafi kemur ekki að sök á þessu stigi. 

Svo steikti ég brauðið á pönnunni þannig að allt gumsið, smjörið, beikonfitan, tómatsafinn sogast inn í það eins og svamp. Að lokum er ekkert að gera nema raða þessu upp með því að tylla hörpuskelinni, beikoni, tómötum ofan á brauðið og skreyta með fínt saxaðri íslenskri trufflu. Þetta var alveg truflað gott! 

Ljúffengt lambaprime fyllt með rjómaosti og bláberjasultu borið fram á beði af byggotto. 

Þetta var einstaklega ljúffeng uppskrift sem við elduðum á dásamlegum stað við Kirkjufell. 

2 lambaprime
4 msk rjómaostur
4 tsk bláberjasulta
blóðberg og timjan
salt og pipar
jómfrúarolía
50 ml rauðvín
smjör til steikingar

Fyrir byggotto

200 g bygg
1 gulrót
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
handfylli sveppir
50 g smjör til steikingar
1 peli rjómi

Byrjið á því að skera upp lambaprime eins og bók og flettið því upp. Smyrjið rjómaosti og svo sultu ofan á og kryddið með blóðbergi og fersku timjan. Saltið og piprið. Bindið upp með spotta. 
Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið að utan. Setjið svo í eldfast mót. Hellið víni á pönnuna og sjóðið upp og hellið yfir lambið. Bakið í ofni þangað til að kjarnhiti er í kringum 50 gráður. 

Svo er það byggotto. Sjóðið byggið í söltuðu vatni í 15 mín. Hellið vatninu frá. Bræðið smjör í pönnu og steikið niðurskorna gulrót, lauk, sveppi og hvítlauk þar til það er mjúkt að utan. Bætið þá bygginu saman við og blandið vel. Saltið og piprið. Þarna bæta við smá hvítvíni og sjóða upp, eða soði og sjóða það niður aftur. Hellið svo rjóma saman við og sjóðið hann niður um helming. Þegar byggottoið er orðið þykkt og ilmar dásamlega blandið þá kryddjurtum saman við. 

Berið fram á disk, byggotto undir og svo fallegar sneiðar af lambaprime. Sérstakar þakkir við gerð þáttarins fá þessi prúðmenni og fyrirtæki!

Gréta Sigurðardóttir, hóteleigandi
Viktor Örn Andrésson, matreiðslumeistari
Símon M. Sturluson, bláskeljakóngur
Ástfangna parið við Kirkjufell
Hótel Egilsen
Brauð og bænir
Hótel Búðir
Kokka
Egill Sigurðsson
Land Rover á Íslandi
Sölufélag garðyrkjubænda
Sláturfélag Suðurlands

Ástarþakkir frá okkur öllum!No comments:

Post a Comment