Saturday 16 January 2010

Áfram fiskur: Pönnusteikt smálúða hjúpuð polenta með sætkartöflumús,baunapuré og caperssósu

Gerði þessa uppskrift í raun vegna mistaka vegna þess að ég hafði ráðgert að gera allt annað. Ætlaði að gera fiskibollur úr þorski sem ég hafði keypt nýverið hjá einum af fiskmöngurum sem koma hingað í gengum hverfið á bílum sínum. Hringdi í bróður minn úr vinnunni og bað hann um að taka út þorsk úr frystinum  - sem hann gerði samviskusamlega. Þegar heim var komið kom á daginn að ég hafði merkt pokana vitlaust og fyrir framan mig lágu þessi fallegu lúðuflök, glampandi hvít og fersk. Það varð því alveg ljóst að ekkert yrði af fiskibollunum - það væri alveg fráleitt að gera fiskibollur úr lúðu. Ekki að það yrði vont - alls ekki - það væri bara verið að fara illa með gott og dýrt hráefni. Það varð því að gera eitthvað annað.

Ég var ekki í neinu sérstöku stuði - hversu spenntur er hægt að verða yfir fiskibollum? Náði að æsa mig upp aðeins til að gera gott úr þessu. Fékk góða aðstoð í eldhúsinu - Kjartan og Snædís voru ekki langt undan með bæði verklegan og andlegan stuðning. Ég var alveg tómur til að byrja með. Hafði ekkert pælt í því sem ég hefði viljað gera með þennan góða fisk og eiginlega engin tími til að fara út í búð til að kaupa í matinn það sem vantaði. Það var því farið í skápana, skúffurnar og frystinn. Málin leyst; við áttum ekki til neina brauðmylsnu og ekki tími til að þurrka brauð í ofninum fyrir matinn. Snædís beitti neitunarvaldi á hveiti og ég fann síðan Bramata Polenta hveiti sem ég hafði keypt löngu áður í búrskúffunni minni (mental note to self: hættu að kaupa inn og notaðu það sem er til- þú virðist eiga allan dé%&/n til alls!). Það var lítið mál að finna meðlæti. Ég virðist vera safnari þegar kemur að mat - það er allt til - samt er ég alltaf að kaupa eitthvað inn!

Áfram fiskur: Pönnusteikt smálúða hjúpuð polenta með sætkartöflumús, baunapuré og caperssósu


Þetta reyndist síðan verða dásamlega einfaldur og bragðgóður réttur. Meðlætið var gómsætt, fiskurinn léttur og ferskur, polentuhjúpurinn stökkur og góður. Namminamm.

Fiskurinn var skorinn niður í bita. Saltaður og pipraður. Velt upp úr polenta og sett síðan beint á heita pönnu með blöndu af smjöri og olíu. Steikt í nokkrar mínútur á báðum hliðum þar til að polentan var orðin fallega gullin.

Kartöflumúsin var ekki flókin. Bæði venjulegar kartöflur og sætar voru flysjaðar og soðnar í létt söltuðu vatni. Þegar mjúkar var vatninu hellt frá, klípa af smjöri, skvetta af mjólk, salt og pipar og stappað saman. Baunirnar voru líka soðnar í söltuðu vatni í tæpar fimm mínútur. Síðan var vatninu hellt frá, 1 msk af rjóma, salt og pipar og þeytt saman með töfrasprota.

Caperssósan var köld. Hálfur bolli af sýrðum rjóma var sett í skál, ein msk af majónesi, hálf dós af kapers - hakkað gróft niður, 2-3 msk af ferskum graslauk, salt, pipar, safi úr hálfri sítrónu, smá sykur. Hrært vel saman. Gerðum líka létt og gott salat; græn lauf, gular og rauðar papríkur, fallega rauðir tómatar, blönduð ristuð fræ og smá mulin feta ostur.

Borið fram með smá hvítvínstári - bara smá - enda virkur dagur. Áttum til í ísskápnum Drostdy-Hof Chardonnay Voigner á búkollu sem er alveg prýðis hvítvín. Vel kælt og frískandi.

Bon appetit!
fiskur

3 comments:

 1. Girnilegt, veistu nokkuð hvað smálúða er á sænsku? Tiltölulega nýflutt til Stokkhólms og þessi heiti vefjast aðeins fyrir manni... Hér eru hins vegar ótrúlega góðir slátrarar, endilega kíktu á þá ef þú átt leið hjá Stokkhólmi, www.taylors.se
  Mvh, Nanna

  ReplyDelete
 2. Sael Nanna.
  Luda er halibut a ensku og halleflundra a saensku held eg.
  Buinn ad skoda siduna. Vaeri skemmilegt ad lita vid tharna.
  Takk fyrir hlekkinn.
  Ragnar

  ReplyDelete
 3. Þetta er sko blogg að mínu mati!!! Æðislegar uppskriftir hjá þér :) Á pottþétt eftir að prófa þær flestar :)

  ReplyDelete