Showing posts with label rauðvín. Show all posts
Showing posts with label rauðvín. Show all posts

Wednesday, 17 January 2018

Yndisleg Vetrarveisla: Ljúffeng langelduð lambakássa með flauelsmjúku kartöflupúré


Við skelltum okkur í sumarbústaðinn nú á laugardaginn og dvöldum þar eina nótt. Það er eitthvað sérstaklega ævintýralegt að halda út á land á miðjum vetri. Fátt hleður rafhlöðurnar meira en að kúra framan við arininn eða skella sér í heita pottinn í myrkrinu og vetrarkuldanum. Við leyfðum okkur að dekra við okkur. Á leiðinni heim gerði byl og svo að við vorum heillengi á leiðinni. Betra að fara varlega.

Við stoppuðum í matvöruverslun þar sem ég sá niðurskorinn frampart á lækkuðu verði. Niðurstaðan var því augljós - auðvitað er lambakjötið best til að verma mann upp á köldum vetrardegi. 

Yndisleg Vetrarveisla: Ljúffeng langelduð lambakássa með flauelsmjúku kartöflupúré

Og þetta er í raun eldamennska eins og hún er einföldust. Í raun bara að raða í pott og bíða.

Hráefnalisti

Fyrir átta

2,5 kg sagaður lambaframpartur
2 rauðir laukar
4 sellerísstangir
5 hvítlauksrif
6 gulrætur
500 g sveppir
5 lárviðarlauf
100 g smjör
3 l lambasoð
2 msk Vilt og ótamið - kryddblanda frá Kryddhúsinu/Lækninum í Eldhúsinu
1 dós tómatpúre
1/2 flaska rauðvín
1 msk Lea & Perrins Worchestershire sósa

1 kg kartöflur
150 g smjör
250 ml rjómi
1/3 múskathneta
salt og pipar


Fyrsta skrefið var að velta öllum lambabitunum upp úr hveiti, salti, pipar og smá hvítlauksdufti. Hveitið hjálpar kássunni að þykkna þegar yfir líkur.


Bitarnir voru svo steiktir í smjöri þangað til að þeir voru fallega brúnaðir. Þá voru þeir settir til hliðar og grænmetið steikt. Þessi mynd er nú eiginlega bara upp á rómantíkina sem mér fannst vera í loftinu á sunnudaginn þegar bylurinn lamdi á gluggana. 


Skar svo hvítlauk, rauðlauk og sellerí niður í smáa bita.


Gulrótunum leyfði ég bara að vera í stórum bitum. Bætið við lárviðarlaufum.


Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega er öllu kjötinu bætt saman við. 


Ég hafði opnað þessa flösku fyrir einhverjum dögum síðan og af einhverjum skussaskap ekki klárað þannig að tveir þriðjuhlutar hennar voru eftir - svona á maður ekki að fara með góð vín. En á móti kemur að maður á gott vín til að nota í matinn. 

Hellti saman við og sauð upp áfengið. 


Svo ein dós af tómatpúre.


Þessi blanda frá mér og Krydd- og Tehúsinu kom á markaðinn nú fyrir jól og var fyrst og fremst hugsuð fyrir villibráð - en hún er einnig ljúffeng með íslensku lambakjöti sem að mínu mati mætti nánast kalla villibráð þar sem það gengur á heiðar og étur villigrös þangað til að því er slátrað að hausti. 


Þarna kennir ýmissa grasa - þurrkuð bergmynta, rósmarín, hvítlaukur, einiber, rósapipar, svartur pipar, allrahanda og margt fleira - allt hugsað til að lyfta hráefninu upp á efstu hæðir. 


Þegar suðan var kominn upp skellti ég sveppunum saman við. Fleytti allri froðu ofan af (það er froðan sem kemur upp á yfirborðið þegar kássan hitnar). Setti svo pottinn inn í 170 gráðu heitan ofn og þar var hann látinn kúra í 3,5 tíma. 


Svo sauð ég nokkrar flysjaðar kartöflur í söltuðu vatni, setti svo í annan pott ásamt smjöri og rjóma, salti og pipar.


Raspaði svo 1/3 af múskathnetu saman við kartöflupúreið.


Úr varð þessi dásamlega mús/púre - sem var flauelismjúk.


Kássan ilmaði dásamlega þegar hún kom úr ofninum. Ég fleytti mestu af fitunni ofan af (geymi hana að sjálfsögðu til betri tíma - sem grunn í sósu, súpu eða næstu kássu - inn í frysti).



Með matnum bárum við fram lögg af þessu ljúffenga Malbec víni frá Mendósa héraði í Argentínu. Þetta er ljúffengur sopi sem passar vel með kássum eins og þessum. Þarna er bragð af dökkum berjum og bláberjum, jörð með mjúku eftirbragði. 


Kássan reyndist hreinn dásemd. Fullkomin á vetrardögum sem þessum.

Svo er um að gera að nýta afganginn daginn eftir - kássan batnar bara á næstu dögum þegar bragðið þróast og kryddin jafna sig saman.

Verði ykkur að góðu. 

Friday, 4 December 2015

Kraftmikil krónhjartarkássa með mörðum kartöflum


Það er dásamlegt að fylgjast með ljósmyndum frá Reykjavík um þessar mundir. Borgin virðist skarta sínu fegursta. Snjórinn hefur fallið og trén hneigja sig virðulega undan snjóþunganum. Facebook er að drukkna í ljósmyndum af borginni í vetrarbúningi - þessi hérna að ofan tekin af Ólafi Hauki Mýrdal er einstök! Fátt kemur manni í meira jólaskap.

Margir veiðimenn sóttu hreindýr nú í haust og eiga frystinn fullan af dásamlegri villibráð sem þarf að gera að fyrir hátíðarnar. En það fellur meira til af bráðinni en bara jólasteikur. Þessi uppskrift er fyrir þá sem eiga frystinn fullan af bitum sem þeir vita vart hvað þeir eiga að gera við! Þessi uppskrift er til að gera þeim bitum af bráðinni hæra undir höfði sem ekki eiga pláss við hátíðarborðið!

Stór hluti af villibráðinni er einmitt svona bitar - sem margir vita ekki hvað þeir eiga að gera við - kannski getur þessi uppskrift hjálpað.

Kraftmikil krónhjartarkássa með mörðum kartöflum




Þessa bita fékk ég hjá slátaranum mínum - gúllasbita af krónhirti sem hafði verið felldur rétt fyrir utan Worthing sem austan við Brighton, þar sem við fjölskyldan búum um þessar mundir en konan mín, Snædís, er þar við framhaldsnám.

Fyrir 6-8
1 kg af krónhjartargúllasbitum
2-3 msk hveiti
8 gulrætur
1 rauður laukur
5 hvítlauksrif
2 sellerísstangir
3 lárviðarlauf
ferskt rósmarín og timijan
1/2 tsk einiber
500 g sveppir
1 flaska rauðvín
500 ml kjötkraftur
Salt og pipar



Byrjið á því að velta kjötbitunum upp úr hveiti, salti og pipar. Bræðið smjör eða olíu í potti og brúnið kjötbitana að utan og setjið svo til hliðar. Gætið þess að brúna ekki of marga bita í einu, annars er hætt við að bitarnir sjóði í eigin vökva frekar en að brúnast.


Skerið selleríið, laukinn og hvítlaukinn smátt, gulræturnar aðeins grófara niður og steikið í pottinum. Saltið og piprið.


Bætið svo kjötinu út í pottinn, auk sveppanna, ferska kryddinu og einiberjunum.


Hellið rauðvíninu ofan í pottinn ásamt kraftinum, saltið og piprið. Hitið að suðu, skafið froðuna ofan af og setjið svo í 150 gráðu heitan ofn og látið lúra þar í þrjá tíma eða svo.



Kartöflurnar eru einfaldar. Sjóðið nýjar kartöflur í söltuðu vatni og þegar þær eru eldaðar í gegn eru þær brotnar í sundur með skeið. Blandið 50 g af smjöri saman við ásamt 50 ml rjóma og handfylli af rifnum cheddarosti saman við, salti og pipar. Blandið hráefnunum gróflega saman.

Með matnum gæddum við okkur á þessu ljúflingsvíni frá Spáni. Coto de Imaz Gran Reserva frá því 2005 og er gert 100% tempranillo þrúgum. Þetta er þroskað vín enda 10 ár frá því að var sett á flösku. Vínið er fallega dökkrúbinrautt - með bragð af þéttum ávexti, reyk og þykkri sultu. Eftirbragðið er langt og ríkulegt.

Bon appetit! 

Thursday, 13 August 2015

Læknirinn í Eldhúsinu - 6. þáttur - Nautakarpaccio og Beouf Bourguignon




Uppskriftir úr sjötta þætti Læknisins í Eldhúsinu.

Nautacarpaccio með blóðbergi, radísum og sólblómafræjum

Carpaccio er réttur upprunninn á Ítalíu, nánar tiltekið í Piedmont-héraði þar sem hann heitir í raun öðru nafni, Carne cruda all‘Allbese, en fékk sitt heimsþekkta nafn Carpaccio í kringum 1950 frá kokki á Harry‘s-barnum í Feneyjum. Réttinum var þá breytt lítillega og hann endurnefndur í höfðuðið á Vittore Carpaccio, feneyskum málara frá fimmtándu öld. Í upprunalegum uppskriftum er einungis notast við nautakjöt en á síðari tímum hafa menn gerst heldur frjálslegir og segir nafnið núna meira um útlitið (næfurþunnt skorið kjöt) en hvaða hráefni verður fyrir valinu.

Til eru tvær góðar aðferðir til að ná kjötinu næfurþunnu. Fyrir það fyrsta má setja það í frysti í 30-60 mínútur og sneiða það svo hárfínt með flugbeittum hníf. Hin leiðin er að skera kjötið eins þunnt og maður getur en fletja það síðan varlega út með kökukefli á eftir.

Carpaccio samanstendur alltaf af hráu kjöti en í þessari uppskrift er það brúnað í augnablik á pönnu til að fá dálitla karamellíseringu.

Fyrir fjóra sem forréttur

500 g nautalund
pipar
blóðbergssalt
blóðberg
2-3 radísur
handfylli klettasalat
ristuð sólblómafræ/graskersfræ og furuhnetur
mjög góð jómfrúarolía
gott edik – má sleppa en gott sérrí- eða balsamedik mun ekki skemma neitt

Saltið og piprið kálfalundina og veltið henni upp úr blóðbergi.
Hitið pönnu, skvettið smávegis af olíu á hana og þegar fer að rjúka úr henni brúnið þið kjötið eldsnöggt að utan á öllum hliðum.
Sneiðið kjötið eins þunnt og þið getið og fletjið út næfurþunnt með kökukefli. Raðið á disk.
Skerið radísurnar þunnt og raðið með kjötinu.
Ristið sólblómafræ á þurri pönnu og dreifið yfir kjötið.
Saltið og piprið.

Hellið yfir bestu jómfrúarolíunni sem þið eigið.


Beouf Bourguignon – dásemd í potti innblásin af Juliu en með breytingum þó!

Ég eldaði þennan rétt fyrir nokkrum árum fljótlega eftir að ég eignaðist bók Juliu Child – Mastering the Art of French Cooking. Þetta er ein af hennar þekktustu uppskriftum. Fyrir þá sem ekki kannast við Juliu Child þá var hún afar þekktur sjónvarpskokkur í Bandaríkjunum og gaf út þónokkrar matreiðslubækur og stýrði fjölda sjónvarpsþátta um matargerð. Hún var efni vinsællar bíómyndar sem allir matarbloggarar hafa ábyggilega gaman af – Julie & Julia – þar sem bandarísk kona eldar sig í gegnum bókina hennar samtímis að hún bloggar um reynslu sína – þessari sögu er svo tvinnað saman við ævisögu Juliu Child. Ljómandi góð bíómynd. En þessi réttur er betri!

Þessi réttur er kannski hinn ókrýndi konungur kássanna. Það er eiginlega sorglegt hversu mikið af fegurðinni við þennan rétt týnist í þýðingunni – Kássa! Kássa – það einhvern veginn nær ekki að fanga þá dásemd sem þessi langeldaði réttur er!

Og bragðið er á mörgum hæðum, byrjar í grænmetinu, yfir í beikonið, síðan kjötið og allt er þetta umlukið dásamlegu víni sem nær að umbreyta öllu í þessa dásemd sem beouf bourguignon er.

Fyrir sex til átta

1,5 kg vel fitusprengt nautakjöt
2 msk jómfrúarolía
1 flaska rauðvín
3 gulrætur
1 laukur
2 sellerísstangir
150 g reykt beikon
250 g sveppir
20 litlir steikarlaukur
100 gr smjör
1,5 l nautasoð (1 l fyrir kássuna, ½ l fyrir steikarlaukinn)
4 msk hveiti
3 lárviðarlauf
2 tsk timian
1 ½ msk tómatpúré
Salt og pipar
2 msk smátt skorin steinselja

1. Séuð þið með kröftugt beikon þarf að sjóða það í fimm til tíu mínútur til að milda aðeins reykkeiminn (eins mætti hugsa sér að nota bara venjulegt beikon).
2. Hitið olíuna í potti og steikið beikonið.
3. Skerið nautakjötið í veglega bita – 5x5 sm stóra, þerrið þá vel, saltið og piprið.
4. Setjið beikonið til hliðar og brúnið kjötið vel að utan – bara nokkra bita í senn annars er hætta á því að þeir sjóði í eigin vökva í stað þess að brúnast.
5. Á meðan kjötið er brúnað skerið þið grænmetið niður – laukinn og selleríið fínt en gulræturnar heldur gróflega.
6. Þegar kjötið er brúnað að utan setjið þið það til hliðar og steikið grænmetið þangað til að það er mjúkt og glansandi. Saltið og piprið.
7. Bætið kjötinu og beikoninu saman við í pottinn ásamt öllum vökva sem hefur lekið af því.
8. Hrærið hveitinu saman við og tryggið að það dreifist jafnt yfir kjötið.
9. Hellið víninu út í pottinn og hrærið saman við.
10. Bætið við lárviðarlaufunum, timian, tómatpúreinu og smátt skornum hvítlauknum.
11. Bætið kjötsoði saman við þangað til að kjötið er hulið vökva. Hitið að suðu, látið krauma í nokkrarmínútur og færið síðan inn í 140 gráðu heitan ofn. Bakið í þrjár klukkustundir.
12. Steikið sveppina í 50 gr af smjöri. Saltið og piprið. Setjið til hliðar.
13. Takið utan af lauknum og steikið í 50 gr af smjöri. Saltið og piprið. Hellið svo afganginum af nautasoðinu á pönnuna og sjóðið alveg upp (tekur um 35-45 mínútur) við miðlungshita. Setjið til hliðar.
14. Þegar kássan er tilbúin veiðið þið kjötið og grænmetið upp úr og setjið í skál. Blandið sveppunum og lauknum saman við.
15. Sé sósan þunn, sjóðið hana aðeins niður yfir háum hita – hrærið í pottinum svo að hún brenni ekki. Hellið henni í gegnum sigti og svo yfir kjötið og skreytið með steinselju

Berið fram með kartöflumús og góðu rauðvíni.


Kartöflumús með spínati 


Að blanda sinnepi í kartöflumús lífgar verulega upp á hana og gerir hana sætari og kraftmeiri. Spínatið þarf ekki að elda ef það er sett út í rjúkandi heitar kartöflurnar, það dugir einfaldlega að hræra því saman við og blöðin munu skreppa saman og eldast í gegn.

Verið ófeimin við að auka spínatmagnið í uppskriftinni, músin verður ekkert síðri. Kreistur hvítlaukur hefur heldur aldrei eyðilagt neitt í þessu samhengi.


1 kg kartöflur (helst mjölmiklar)
salt og pipar
1 dl nýmjólk
100 gr smjör
2 msk gróft sinnep



Flysjið og sjóðið kartöflur í ríkulega söltuðu vatni.
Þegar hægt er að stinga í gegnum þær með hníf án mótstöðu eru þær tilbúnar.
Hellið kartöflunum í sigti og látið renna vel af þeim.
Setjið aftur í pottinn og maukið með stappara.
Bætið salti, pipar, mjólk, sinnepinu og smjöri við og hrærið vel saman.

- See more at: http://www.laeknirinnieldhusinu.com/p/lknirinn-skjanum.html#sthash.WeDGiJUj.dpuf

Tuesday, 9 June 2009

Hægeldaður grísabógur á kínverska vísu með hrísgrjónum og rauðvínsglasi





Tengdaforeldrar mínir voru í heimsókn hjá okkur um daginn...tja...í byrjun apríl - það er þá varla hægt að segja um daginn - þetta fer að verða fyrir tveimur mánuðum síðan. Þau voru hjá okkur um páskana. Tengdapabbi kom aðeins á undan og var ansi duglegur að hjálpa mér við pallagerðina sem hófst þá helgina. Við náðum að gera nær alla grindina að pallinum á meðan þau dvöldu hjá okkur - hann var skrambi duglegur. Pallurinn varð síðan miklu stærri en ég hafði ímyndað mér - svona er að vera með þrívíddargreindarskerðingu - mér fannst þetta vera svo lítið og nett á blaðinu þar sem ég hafði teiknað uppkastið. Pallurinn tók um mánuð í smíði - ég hef enga reynslu af smíðum af neinu tagi - nema maður telji smíðavelli Reykjarvíkurborgar sér til tekna - þar sem maður reisti nokkra kofa á bernskuárunum. Flestar upplýsingar fékk ég af netinu - byggmax.se - bygg en altan og svo youtube. Síðan kom nágranni minn og kollegi Jón Þorkell oft með góðar ábendingar - enda er hann handlaginn fram í fingurgóma!

Núna erum við langt komin með garðinn og hvað eina. Búin að reisa stoðvegg, grindverk, fá heilmikið af mold, leggja gras og planta trjám. Þetta er að verða alveg indælt. Við erum búin að vera með góða gesti síðustu daga, Hafdís og Magga, vinafólk okkar og ungan son þeirra hann Trausta. Þau komu á besta tíma - það var hægt að nota Magga í garðinn og hann var duglegur að vinna. Bjór fær mann til að vinna hraðar, það er allavega mín reynsla - en hefur mögulega áhrif á gæðin.

Aftur til tengdaforeldra minna. Tengdafaðir minn kom lítið eitt áður og eldaði einn af sínum bestu réttum. Þessi réttur fer í sögubækurnar sem svona "Best of Eddi". Hann hefur gert þennan rétt sirka tvisvar á ári síðan að ég kynntist þessari góðu fjölskyldu...og þetta er gríðarvinsælt. Þetta verður alltaf mikil átveisla. Hann eldar fleiri kíló af svínabóg í þessum ljúffenga legi - fyrir alla stórfjölskylduna. Þessi veisla er erfið, bæði líkamlega og andlega. Andlega vegna þess að maður skammast sín fyrir það magn sem maður hefur innbyrt og síðan líkamlega af nákvæmlega sömu ástæðu. En gott er það. Það er á hreinu. Þetta er ekki beint svona sumarlegur réttur enda var hann á boðstólnum snemma á vormánuðum.

Hægeldaður grísabógur á kínverska vísu með hrísgrjónum og rauðvínsglasi

Ég fann þessa uppskrift í matreiðslubók sem ég kann ákaflega vel við; Eldað í hægum takti, þýdd bók eftir Joanne Glynn, löngu eftir að tengdapabbi hafði kynnt hana fyrir mér. Þar byggja allar uppskriftirnar á hugmyndafræði slow cooking, matreiðslumáti sem ég kann ákaflega vel við. Sérstaklega um helgar þegar maður hefur tíma til þess að sinna matseldinni meira en maður nær oft að gera á virkum dögum.

Við keyptum grísabóg af ungum grís sem var á tilboði hjá slátraranum í Saluhallen, fengum hann til að úrbeina hann og vefja hann inn í svona garn þannig að það væri auðvelt að elda hann. Eldamennskan er ekki flókin. Þegar heim er komið er grísinn settur í pott, 300-500 ml af sojasósu sett út í, 150 ml af rauðvínsediki, vatn þannig að fljóti yfir hann, piparkorn, nokkur lárviðarlauf og salt. Suðunni er svo leyft að koma upp og svo fær kjötið að malla í 2-3 klukkutíma við lágan hita. Kjötið á að vera það mikið eldað að það dettur nánast í sundur.


Kjötið fær að hvíla í tuttugu mínútur eða svo og á meðan er sósan undirbúin. Hluti af soðinu er síað, sett í pott ásamt smátt skornum engifer og soðið niður af krafti þangað til að það þykknar, oft er gott að bragðbæta eftir því sem við á með salti, sykri, pipar, meiri soya - allt eftir því sem tungan krefur.

Borið fram með Jasmín hrísgrjónum soðið eftir leiðbeiningum og einföldu salati; nokkur græn lauf, tómatar, rauður laukur og niðurskorinn paprika, bara nógu einfalt. Tengdapabbi ber alltaf fram aðra sósu sem er blanda af soya og ediki.

Við vorum með ansi gott vín með matnum. Montes Pinot Noir frá því árið 2007. Þetta er ljómandi gott vín frá Chile. Ég hef smakkað þó nokkrar tegundir af víni frá þessum framleiðanda, sem framleiðir vín undir nokkrum merkjum; Montes, Montes Alpha og svo M. Allt mjög góð vín að mínu mati. Montesvínin eru mun vinalegri við veskið en stóru systkinin, Alpha og M, en um leið mjög frambærileg vín. Þetta var Pinot Noir þrúga, ljós á lit - fallegur fjólublár litur. Þetta var bragðmeira vín en mörg önnur Pinot sem ég hef smakkað - sætur ávöxtur kannski og bragðmilt eftirbragð. Gott vín.

Njótið vel!

Monday, 3 December 2007

Landnámsgeit marineruð í rauðvíni, kryddjurtum, hvítlauk og balsamikediki

Þeir sem fylgjast með fréttum af íslenskum landbúnaði hafa kannski rekið augun í það fyrir tveimur vikum þurfti að slátra um tíund íslenska geitastofnsins. Vinur foreldra minna komst yfir smávegis af geitakjöti og kom smá af því áleiðis til mín. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera við þetta. Ég fór aðeins á netið og varð margs vísari. Þetta er sú skepna sem menn hafa haldið einna lengst - 10 þúsund ár. Í Evrópu skilst mér að geitahald gangi mest út á að fá geitamjólk í osta. En í austurlöndum eru þær ræktaðar til átu, vegna mjólkurinnar, skinnsins og ullarinnar.

Móðir mín eldaði geit á jamíska vísu kvöldið áður fyrir matarklúbbinn sinn og ég fékk að rölta við í heimsókn til að fá að smakka. Þetta var bragðgott hjá henni - aðeins seigt - en bragðið minnti talsvert á hreindýr - bara grófara. Hún hafði marinerað kjötið í rúman sólarhring. Ég náði ekki að marinera nema í hálfan sólarhring. Einnig var það talið skynsamlegt að elda dýrið við lágan hita í langan tíma til þess að gæta þess að þurrka það ekki upp þar sem geitur teljast seint til offeitra skepna.

Vinir mínir, Jón Þorkell, Álfhildur, Jakob og Magnús komu í mat. Þar sem um algert tilraunareldhús var að ræða þá tjaldaði ég til ýmsu hvað meðlæti snertir og var með grillaðan aspas, portobello sveppi og sætkartöfluböku. Jón Þorkell og Álfhildur komu með forrétt - nautakjöt sem var borðað hrátt með wasabe og soyasósu - ljúffengt. Ég sá ekki betur en að geitin kom á óvart - þetta er eitthvað sem ég mun reyna aftur - hinsvegar finnst mér líklegra að ég muni marinera lengur næst og jafnvel elda frekar í kássu - kannski á indverska vísu til að kreista fram gæði geitarinnar.

Landnámsgeit marineruð í rauðvíni, kryddjurtum, hvítlauk og balsamikediki
Tók lærið úr frystinum 2 dögum áður til að láta það standa aðeins áður en það var lagt í marineringu. Setti rúma hálfa rauðvínsflösku, 5 msk af balsamik ediki, 1 msk mulinn pipar, heill hvítlaukur, hálft búnt af majoram, basil, bergmyntu og rósmarin var sett á lærið og látið standa í hálfan sólarhring, hefði sennilega alveg mátt vera lengur. Bakað í 100 gráðu heitu ofni í potti í 4 klst eða þar til kjarnhiti varð 72 gráður eða svo. Fékk að standa í 20 mínútur svo var salti stráð yfir og látið klára sig undir heitu grilli í nokkrar mínútur.

Útbjó smávegis af kryddsmjöri. 30 gr smjör, 2 msk hreinn rjómaostur, salt, pipar, 4 smátt söxuð hvítlauksrif, 2 msk ferskt smátt skorið majoram og eins af ferskri steinselju. Þessu var svo smurt á portobello sveppi sem voru bakaðir í 20-30 mínútur við 180 gráður.

Eins var ég með sætkartöfluböku. 2 stórar sætar kartöflur og 2 stórar venjulegar kartöflur afhýddar og soðnar í söltuðu vatni. Þegar tilbúið var vatninu hellt frá og kartöflurnar stappaðar saman með smá smjörklípu, salti og pipar. Skreytt með rósmarín og bakað með sveppunum í svipaðan tíma.

Tók 400 gr af smáum ferskum aspas sem ég grillaði á "griddle" pönnu. Þegar rendur fóru að koma á aspasinn var hann færður á disk, góðri olíu skvett yfir, saltað og piprað og klárað með parmesan osti.

Með matnum var að sjálfsögðu gott rauðvín. Heppnaðist afar vel. Til að toppa þetta útbjó ég svo pavlovu í desert - sjá eldra blogg - eftirréttur guðanna. Besta kaka í heimi - þó víðar væri leitað.