Monday 3 December 2007

Landnámsgeit marineruð í rauðvíni, kryddjurtum, hvítlauk og balsamikediki

Þeir sem fylgjast með fréttum af íslenskum landbúnaði hafa kannski rekið augun í það fyrir tveimur vikum þurfti að slátra um tíund íslenska geitastofnsins. Vinur foreldra minna komst yfir smávegis af geitakjöti og kom smá af því áleiðis til mín. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera við þetta. Ég fór aðeins á netið og varð margs vísari. Þetta er sú skepna sem menn hafa haldið einna lengst - 10 þúsund ár. Í Evrópu skilst mér að geitahald gangi mest út á að fá geitamjólk í osta. En í austurlöndum eru þær ræktaðar til átu, vegna mjólkurinnar, skinnsins og ullarinnar.

Móðir mín eldaði geit á jamíska vísu kvöldið áður fyrir matarklúbbinn sinn og ég fékk að rölta við í heimsókn til að fá að smakka. Þetta var bragðgott hjá henni - aðeins seigt - en bragðið minnti talsvert á hreindýr - bara grófara. Hún hafði marinerað kjötið í rúman sólarhring. Ég náði ekki að marinera nema í hálfan sólarhring. Einnig var það talið skynsamlegt að elda dýrið við lágan hita í langan tíma til þess að gæta þess að þurrka það ekki upp þar sem geitur teljast seint til offeitra skepna.

Vinir mínir, Jón Þorkell, Álfhildur, Jakob og Magnús komu í mat. Þar sem um algert tilraunareldhús var að ræða þá tjaldaði ég til ýmsu hvað meðlæti snertir og var með grillaðan aspas, portobello sveppi og sætkartöfluböku. Jón Þorkell og Álfhildur komu með forrétt - nautakjöt sem var borðað hrátt með wasabe og soyasósu - ljúffengt. Ég sá ekki betur en að geitin kom á óvart - þetta er eitthvað sem ég mun reyna aftur - hinsvegar finnst mér líklegra að ég muni marinera lengur næst og jafnvel elda frekar í kássu - kannski á indverska vísu til að kreista fram gæði geitarinnar.

Landnámsgeit marineruð í rauðvíni, kryddjurtum, hvítlauk og balsamikediki
Tók lærið úr frystinum 2 dögum áður til að láta það standa aðeins áður en það var lagt í marineringu. Setti rúma hálfa rauðvínsflösku, 5 msk af balsamik ediki, 1 msk mulinn pipar, heill hvítlaukur, hálft búnt af majoram, basil, bergmyntu og rósmarin var sett á lærið og látið standa í hálfan sólarhring, hefði sennilega alveg mátt vera lengur. Bakað í 100 gráðu heitu ofni í potti í 4 klst eða þar til kjarnhiti varð 72 gráður eða svo. Fékk að standa í 20 mínútur svo var salti stráð yfir og látið klára sig undir heitu grilli í nokkrar mínútur.

Útbjó smávegis af kryddsmjöri. 30 gr smjör, 2 msk hreinn rjómaostur, salt, pipar, 4 smátt söxuð hvítlauksrif, 2 msk ferskt smátt skorið majoram og eins af ferskri steinselju. Þessu var svo smurt á portobello sveppi sem voru bakaðir í 20-30 mínútur við 180 gráður.

Eins var ég með sætkartöfluböku. 2 stórar sætar kartöflur og 2 stórar venjulegar kartöflur afhýddar og soðnar í söltuðu vatni. Þegar tilbúið var vatninu hellt frá og kartöflurnar stappaðar saman með smá smjörklípu, salti og pipar. Skreytt með rósmarín og bakað með sveppunum í svipaðan tíma.

Tók 400 gr af smáum ferskum aspas sem ég grillaði á "griddle" pönnu. Þegar rendur fóru að koma á aspasinn var hann færður á disk, góðri olíu skvett yfir, saltað og piprað og klárað með parmesan osti.

Með matnum var að sjálfsögðu gott rauðvín. Heppnaðist afar vel. Til að toppa þetta útbjó ég svo pavlovu í desert - sjá eldra blogg - eftirréttur guðanna. Besta kaka í heimi - þó víðar væri leitað.

No comments:

Post a Comment