Thursday 6 December 2007

Spaghetti al aglio með brauði, góðu salati og frittata daginn eftir!

Þrátt fyrir litla vinnu, þ.e.a.s. fáar vaktir, þá hef ég ekki verið sérstaklega duglegur í eldhúsinu - svona miðað við oft áður. Ég var með plokkfisk á mánudaginn sem ég keypti tilbúinn í Fiskisögu sem var alveg ágætur. Á meðan ég beið eftir afgreiðslu bauð verslunin upp á smakk af silungi, heitreyktum, birkireyktum og taðreyktum - allir ljúffengt en þó var sá heitreykti alveg stórkostlegur. Þetta var fiskur frá fyrirtæki sem nefnist Útey sem mér skilst að sé nálægt Laugarvatni. Mæli eindregið með honum.

Snædís gerði lasagna á þriðjudaginn sem var alveg meiriháttar - ég hef áður sett inn færslu með lasagnainu hennar - sem að ég fullyrði er það besta sem ég hef smakkað. Það var smá afgangur af lasagnainu hennar í gær en ekki nóg til að hafa í heila máltíð - sér í lagi þar sem mamma, pabbi og bróðir minn komu yfir til að borða með okkur.

Þetta er einfaldasti pastaréttur sem um getur. Þessi réttur sérstaklega vel þegar kvef er að ganga þar sem mér skilst að hvítlaukur forði manni eitthvað frá kvefi - allavega er það slímlosandi - og miðað við magnið sem ég nota af hvítlauk mætti halda að maður væri bólusettur fyrir kvefi fyrir lífstíð.

Spaghetti al aglio með brauði, góðu salati og frittata daginn eftir!

Gott pasta er soðið í miklu söltuðu vatni skv. leiðbeiningum. Á meðan pastað sýður er 30 ml af góðri jómfrúarolíu hitað á pönnu og heill smátt skorinn hvítlaukur steiktur mjúklega þannig að hann glansi - ekki þannig að hann fari að brúnast. 1/4 búnt af steinselju, basil og 1 tsk af ferskri bergmyntu er bætt saman við heitu hvítlauksolíuna rétt áður en pastanu (vatninu að sjálfsögðu hefur verið hellt frá) er sett útí pönnuna og steikt í olíunni. Mikilvægt er að pastað sé al dente þegar það fer á pönnuna þannig að það sjúgi vel í sig heita olíuna. Þegar þetta er tilbúið (2 mínútur) er pastanu komið fyrir á disk og saltað og piprað ríkulega. Í lokin er nýrifnum parmesanosti sáldrað yfir þannig að það lítur út eins og jafnfallinn snjór.

Borið fram með heitu brauði og einföldu salati; klettasalat, tómatar, agúrka og paprika.

Frittata al spaghetti al aglio

Mikilvægt er að geyma allan afgang. Daginn eftir er spaghettiið hitað á pönnu, 2 hrærðum eggjum bætt saman við og hellt yfir. Steikt við lágan hita, þannig að eggin eldist vel. Smávegis af osti sáldrað yfir og klárað undir heitu grilli. Ljúffengt.


No comments:

Post a Comment