Sunday 27 August 2017

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði

Í þessari færslu er eiginlega sósan sem leikur aðalhlutverkið. Og það er vegna þess að ég held bara að mér hafi tekist að gera bestu hvítlaukssósu sem ég hef bragðað. Og það er ekki eins og humarinn og piparosta-hvítlauksbrauðið hafi ekki verið ljúffengt - sósan var barasta algerlega dásamlega ljúffeng!

Og það tókst með því að ofnbaka hvítlaukinn í álpappír. Þannig umbreytist hann alveg - og það heita og sterka bragð sem oft einkennir hvítlauk mildast og en í staðinn koma sætir tónarnir og ljúfu jafnvægi náð.

Grillaðir humarhalar með bestu hvítlaukssósu allra tíma og piparosta-ostabrauði


Hráefnalisti

Fyrir fjóra

Fyrir sósuna

1 hvítlaukur
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar
1 dós sýrður rjómi
2 msk grísk jógúrt
2 msk mæjónes
1 tsk hlynsíróp
3 msk graslaukur
salt og pipar

Fyrir humarinn 

Humar
hvítlauksolía
salt og pipar

Fyrir piparostsosta hvítlauksbrauð

1 baguetta
hvítlauksolía
1 piparostur
rifinn ostur eftir smekk
salt og pipar

Byrjum á byrjuninni; Hvítlaukssósan guðdómlega. 


Byrjið á því að setja heilan hvítlauk á álpappír og hella olíunni yfir og saltið. Innsiglið og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 50 mínútur. 


Leyfið lauknum að kólna aðeins áður en þið farið að meðhöndla hann þar sem hann er ákaflega heitur. 


Á meðan hvítlaukurinn er að kólna setjið þið heila dós af sýrðum rjóma í skál.


Hrærið sýrða rjómann saman við tvær matskeiðar af grískri jógúrt og svo sama magni af mæjónesi og hrærið vel saman.


Hakkið graslaukinn ... 


... og blandið honum saman ásamt öllum hvítlauknum - sem auðvelt er að kreista úr hýði sínu.




Klippið humarinn upp eftir bakinu og hreinsið görnina frá og leggið humarhalann ofan á skelina.


Penslið humarinn ríkulega með hvítlauksolíu, salti og pipar. Grillið í fimm til sex mínútur á blússheitu grilli eða inni í ofni.


Skerið baguettuna í tvennt, penslið með hvítlauksolíu, sneiðið piparostinn þunnt og leggið á brauðið. Setjið því næst rifinn ost ofan á og grillið í ofninum í nokkrar mínútur þangað til að osturinn er bráðinn.


Með matnum nutum við þessa ágæta hvítvíns. Við buðum upp á Barone Montalto Bianco Passivento sem er framleitt á Sikiley á Ítalíu. Þetta vín er fölgult í glasi. Ilmar af frískum ávexti, smá sæta á tungu, með mildum ávexti. Eftirbragðið var ljómandi. Passaði ljómandi vel sem ljúf bakgrunnsnóta með ljúffengum humri og kraftmikilli hvítlaukssósu!


Svo er bara að leggja þessa dásemd á disk og njóta - grillaður humar, dásamlegt piparosta-ostabrauð og nóg af þessari dásamlegu hvítlaukssósu.

1 comment:

  1. Er eitthvað sem mælir á móti því að setja nokkur stykki af hvítlauk í ofninn til að nota seinna ?

    ReplyDelete