Saturday 19 August 2017

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk, chilli og kókósmjólk


Það eru margir kostir við að búa á Íslandi. Listinn er auðvitað langur, en til að tengja þessa fullyrðingu við þessa færslu þá hefur það auðvitað að gera með sjávarfangið sem okkur stendur til boða. Það er, eins og flestir vita, framúrskarandi. Í dag býðst okkur svo gott úrval af spriklandi ferskum fiski.

Ég er mjög hrifinn af kræklingi enda hefur hann komið fyrir nokkrum sinnum á blogginu mínu í gegnum árin. Börnin mín eru líka hrifin af honum, meira að segja sú minnsta - Ragnhildur Lára, gæddi sér á nokkrum bitum áður en hún afþakkaði pent og bað um jógúrt.

Kræklingurinn sem við kaupum út í búð er ræktaður, það er auðvitað hægt að týna hann í fjörum suma mánuði ársins, en auðveldast er að ná í hann út í fiskbúð - ég sótti þennan í fiskbúðina mína á Sundlaugaveginum. Það er líka gjarnan talað um að ræktaður kræklingur sé betri en sá sem er villtur - ég satt að segja veit ekki svarið þar sem það er svo langt síðan að ég fékk hann villtan seinast. En ljúffengur er hann úr fiskborðinu!

Eldsnöggur thai-kræklingur með engifer, hvítlauk og kókósmjólk

Svo er það líka augljós kostur við krækling er hversu fljótlegt er að elda hann. - Þetta er máltíð sem tekur undir 7 mínútur, "from start to finish".

Veðrið var líka dásamlegt þannig að það var líka gaman að elda úti undir berum sumarhimni.

Hráefnalisti

1 kg kræklingur
5 cm engifer
4 hvítlauksrif
1 skalottulaukur
1 lítill púrrlaukur
1 dós kókósmjól
100 ml hvítvín
safi úr hálfri sítrónu
jómfrúarólía
steinselja eða kóríander
salt og pipar


Skerið engiferin, chilipiparinn og alla laukana smátt niður og steikið í tvær mínútur í heitri olíunni. 


Verið búin að skola kræklinginn. Hendið opinni eða skemmdri skel. Ef skelin er smávegis opin er gott að banka aðeins í hana - ef hún lokar sér er hún lifandi og í lagi að borða hana.

Skellið henni á pönnuna með hinum hráefnunum og blandið vel saman.


Ég átti smá afgang af þessu ljúffenga víni í kæli sem var kjörið að nota í matinn (auðvitað hefði verið ennþá betra að drekka það - en maður á alltaf að nota vín sem manni finnst gott í matinn). 

Sjóðið upp áfengið og látið það krauma í mínútu eða svo. 


Næst smá sítrónusafi.


Skellið svo kókosmjólkinni samanvið og blandið vandlega saman.


Saxið svo steinseljuna (notið kóríander - ef maki ykkar þolir það) og sáldrið yfir.


Þetta var fallegur sumardagur og því kjörinn dagur fyrir rósavín. Ég átti Filarino Sangiovese sem er rósavín frá Ítalíu - þetta vín er fallegt í glasi - fölleitur rósalitur. Ilmurinn er léttur og blómakenndur og bragðið sömuleiðis. Passaði fullkomlega með kræklingnum. 


Bon appetit!

No comments:

Post a Comment