Tuesday 1 May 2007

Georgísk kjúklingaveisla innblásin af Nigellu

Heilsteiktur kjúklingur verður að teljast eitt að mínum uppáhalds réttum. Ég veit fátt betra en að vita af heilum kjúklingi - vandlega krydduðum, troðnum eða á teini - inni í ofni. Og flestir í fjölskyldunni eru mér sammála. Upplærin og leggurinn er mitt uppáhald og auðvitað vel eldaður og stökkur vængurinn. Það er eitthvað rosalega heimilislegt við að heilsteikja kjúkling. Svo er þetta líka frekar ódýrt hráefni - allavega þegar maður kaupir heilan fugl, eiginlega alveg magnað hvað mikið er lagt á bara bringurnar - sem síðan eru ekki bestu bitarnir ... það er alltént mín skoðun.

Þessi uppskrift er frekar frábrugðin því sem ég elda venjulega þegar ég heilsteiki kjúkling og það helgast af því að ég er búinn að vera að lesa síðustu bók Nigellu Lawson síðustu vikur. Hún heitir Feast, Food that celebrates life - og um matarveislur - ofboðslega girnileg matreiðslubók - vel skrifuð, hún skrifar á þann hátt um mat að ekki er annað hægt en að vilja borða hann, og svo ekki er leiðinlegt að horfa á hana Nigellu. Í bókinni eru margar hugmyndir af matarveislum og meðal annars þessi sem ég var að elda. Ég breyti uppskriftinni bara lítillega - ekki vegna þess að það yrði endilega neitt betra heldur átti ég ekki allt hráefnið sem hún notar - þá bara spinnur maður - og um leið og maður spinnur getur maður eignað sér uppskriftina ... í það minnsta að einhverju leyti.

Við hjónin vorum með gesti, Unni og Bjössa vinafólk okkar í mat. Unnur á von á barni og það er farið að sjást vel á henni. Það var gott að fá þau í heimsókn. Alltaf nóg að spjalla um ... og yfir góðum mat er alltaf hægt að kjamsa á einhverju.

Georgískur kjúklingur með fyllingu

Tveir kjúklingar eru þvegnir og þurrkaðir og lagðir í eldfast mót. Lagði niðurskornar gulrætur og blaðlauk undir til að lyfta þeim aðeins upp frá mótinu. 30 gr af smjöri og smávegis af hvítlauksjómfrúarolíu eru hituð í pönnu og 4 smátt skorin hvítlauksrif og 2 smátt skornir laukar eru steiktir í olíunni þar til hann er farinn að gljáa. Svo er 250 gr af Basmati hrísgrjónum bætt á pönnuna ásamt 100 gr af niðurskornum sveskjum. Steikt um stund og hrísgrjónin böðuð upp lauksmjörinu. Þá er 600 ml af vatni hellt á pönnuna hrært aðeins og lokið sett á og soðið við lágan hita í 10-15 mínútur. Þegar hrísgrjónin eru soðin er 1/2 búnti af smátt saxaðri steinselju hrært saman við. Hrísgrjónin eru svo troðin inn í kjúklinginn þannig að hann standi nánast á blístri. Bakað í ofni í við 180 gráðu hita í fimm korter.

Grænar belgbaunir og kúrbítur með jógúrtsósu

Þessi réttur var eiginlega sigurvegari kvöldsins - kom verulega á óvart og verður án efa eldaður aftur. Þegar 20 mínútur eru eftir af eldunartímanum er rétt að undirbúa meðlætið. 500 gr af grænum belgbaunum (soðnar í 5 mínútur í söltuðu vatni) og einn niðursneiddur kúrbítur. Svo eru tveir litlir laukar skornir niður mjög smátt og 1/2 tsk af kanill og hnífsoddi af muldum negull bætt saman við. 50 gr af smjöri og smávegis af olíu er hitað á pönnu og kanil/negul laukurinn steiktur þar til hann fer að gljáa. Þá er belgbaununum og kúrbítnum bætt á pönnuna og blandað vel við laukinn og steikt við lágan hita í 10-15 mínútur. Þegar eldunartíminn er að klárast er 1/2 búnti af smátt skorinni steinselju og 1/2 búnti af smátt skornu basil hrært saman við baunirnar.

Tvær dósir af hreini jógúrt eru settar í skál og 4 kramin hvítlauksrif blandað saman við. Saltað og piprað vandlega. Baunirnar og kúrbíturinn er svo settur á flatan disk og jógúrtsósunni hellt yfir. Í lokin er 2 msk af smátt skorinni ferski myntu sáldrað yfir.

Borið fram með einföldu salati; spínat, klettasalat, tómatar, paprika, fetaostur. Með þessu var drukkið Trivento rauðvín. Mjög ljúffengt.


No comments:

Post a Comment