Friday 4 May 2007

Nautahakksbollur með kreólasósu og heitu salati

Ég er alltaf að reyna að viða að mér fleiri uppskriftum úr nautahakki. Það er ekki þannig að nautahakk er mitt uppáhalds hráefni - það er bara þannig að ég á talsvert af nautahakki og mann hættir oft til þess að fara automatísk í gömlu klisjurnar. Ég er því að reyna að safna í sarpinn. Og það gengur alveg ágætlega. Markmiðið er að ná 20 ansi góðum uppskriftum - það ætti ekki að vera nokkuð mál - er komin langleiðina að markinu.

Ég var að versla í Nóatúni nýverið og rakst þar á nýja íslenska matreiðslubók sem var verið að kynna, man því miður ekki nafn höfundar, en bókin leit vel út - á sennilega eftir að bæta henni í safnið. Einni uppskrift var stillt upp til auglýsingar og hljómar eitthvað svipað og titillinn á minni uppskrift. Ég gerði mitt besta að leggja hráefnið á minnið og var svo eitthvað að bisast við að rifja þetta upp á þriðjudagskvöldið.

Bróðir minn kom aftur í mat og hjálpaði við eldamennskuna. Þó mér finnist oft gott að vera með sjálfum mér við eldamennskuna þá er mjög gaman að elda með einhverjum öðrum. Það er eitthvað sem hefur tíðkast mikið í minni fjölskyldu. Safnast saman nokkuð áður en maturinn er tilbúinn - hjálpast að við að búa til salat, hvítvínsglas í hendi og fjörugar umræður um það sem hvílir á manni. Þetta eru augnablik sem eru frábær og eru því miður endurtekin of sjaldan.

Nautahakkskjötbollur með Kreólasósu og heitu salati kreóla

Með kreólasósu hljómar fremur framandi en með þessu er verið að vísa til eldamennsku sem á rætur sínar að rekja til svæðins í kringum Louisiana í Bandaríkjunum. Þetta er í raun fusion eldamennska sem varð til á þessu svæði þegar ólíkir hópar sem flust höfðu til Bandaríkjanna voru að aðlaga sínar matarhefðir að því hráefni sem völ var á.

Nautahakkskjötbollurnar er útbúnar þannig að 600 gr af nautahakki eru sett í skál og 1 smátt saxaður rauður laukur, 1 tsk paprikuduft, 1 tsk pimenton (ákv. tegund af muldum chilli), 1/2 tsk oregano, Maldon salt, nýmalaður pipar, 1 egg og brauðmylsna eru hnoðuð saman og mótað í litlar bollur á stærð við golfkúlur (kannski aðeins minni). Bollurnar eru steiktar á pönnu þar til brúnar að utan.

Sósan er einföld. Olía er hituð í potti og einum smátt skornum hvítum lauk og 5 hvítlauksrifjum er bætt útí og steikt þar til gljáandi. Svo er 2 niðursneiddum rauðum papríkum bætt útí sem og einum smátt skornum og fræhreinsuðum chillipipar (hetjur láta fræin með) og steikt aðeins áfram. Því næst er ananas sem hefur verið afhýddur, og kjarninn fjarlægður og skorinn í litla bita bætt saman við ásamt 2 dósum af niðursoðnum hökkuðum tómötum. Tveimur bollum af vatni er bætt útí, 2 tsk af paprikudufti, salti, pipar, 1 tsk af pimento. Suðunni leyft að koma upp, smakkað til og bragðbætt eftir þörfum. Sósunni er leyft að sjóða aðeins niður og svo er henni hellt yfir kjötbollurnar á pönnunni og leyft að malla saman um stund á meðan annað meðlæti er undirbúið. vetrarsalat2

Með þessu var heitt salat; klettasalat lagt á disk. Niðursneiddur kúrbítur og 12 sveppir skornir í fernt voru steiktir upp úr smá hvítlauksolíu. Saltað og piprað og svo dreift yfir klettasalatið. Kannski væri gott að hella eitthvað af vökvanum frá því salatinu hættir til að verða ansi blautt. Á meðan salatið er ennþá heitt er nokkrum litlum bitum af hvítmygluosti dreift og leyft að bráðna.

Borið fram með hvítum hrísgrjónum...og helst góðu rauðvíni.


No comments:

Post a Comment