Friday 18 May 2007

Chilli con carne með grilluðu maisbrauði

Ég hef sett inn nokkrar nautahakksuppskriftir upp á síðkastið - eins og fram hefur komið á blogginu mínu hef ég verið að safna að mér nautahakksuppskriftum. Markmiðið var að komast í 20 frábærar uppskriftir - það á eftir að ganga vel - fólki er velkomið að senda mér góðar uppskriftir.

Segja má að þessi chilliréttur sé innblásinn af ágætum manni, Kristni Grétarssyni, vini okkar hjóna - sem er mikill matgæðingur. Hann er frægur fyrir chilli con carne rétt sem hann gerir og hann hefur í háa herrans tíð ætlað að senda mér uppskriftina sína. Hann hefur ekki ennþá sent mér þessa góðu uppskrift þannig að ég neyddist til að finna uppskrift - það var af nógu að taka. Ég fann nokkrar góðar uppskriftir og niðurstaðan varð einhverskonar bræðingur þeirra uppskrifta sem ég fann. Ég vona þó samt ennþá að Kristinn sendi mér sitt vers.

Chilli con carne með grilluðu maísbrauði.

Fyrst voru 2 hvítir laukar og 7 hvítlauksrif skorin smátt niður og steikt í jómfrúarolíu í stórum potti. Þegar laukurinn var orðinn gljáandi var tveimur smátt skornum sellerístönglum og 2 smátt skornum gulrótum bætt saman við og steikt í smástund. Því næst var 1100 gr af nautahakki bætt úti og saltað aðeins og piprað. Steikt í smástund og reynt að kljúfa hakkið vel í sundur þannig að ekki verði svona klumpar. Því næst er hálfri rauðvínsflösku (tveimur ríflegum glösum) bætt útí og soðið upp. Því næst er 2 msk af góðum nautakrafti bætt saman við og svo 2 dósum af niðursoðnum, hökkuðum tómötum og 4 matskeiðum af tómatpaste. Svo er þremur chilli piparávöstum sem hafa verið kjarnhreinsaðir og smátt skornir bætt saman við ásamt 1 tsk af muldu koríander, 1 tsk af muldu kúmeni, 1 tsk Worcherstershire sósu og einni kanilstöng. Suðunni er leyft að koma upp aftur og soðið við lágan hita með lokið á í 1-2 klukkustundir. Þegar um 10-15 mínútur eru eftir af eldunartímanum er 2 dósum af rauðum nýrnabaunum - vökvanum hellt frá - bætt saman við. Saltað og piprað eftir smekk.

Borið fram skreytt með fersku kóríander - og um að gera að hafa auka kóríander svo að fólk geti bætt við. Einnig var ég með limebáta þannig að hægt var að kreista ferskan limesafa yfir chilliiið.

Maísbrauð.

Þetta var einhver hugmynd sem ég fékk þegar ég var að elda - maður sér oft gular baunir í mexíkóskum réttum og var eitthvað að pæla hvort ég ætti að henda því út kássuna líka - en engin af þeim uppskriftum sem ég hafði rekið mig á vildi neitt slíkt. Þannig að úr varð þetta brauð - það varð að hafa eitthvað meðlæti með þessu.

Fyrst er gerið vakið - 2 tsk af þurrgeri er vakið í 250 ml af volgu vatni ásamt 3 tsk af strásykri. 400 gr af hveiti og svo 200 gr af heilhveiti er sett í skál, 2 tsk af salti og smá sletta af jómfrúarolíu er bætt við. 300 gr af maukuðum gulum baunum er bætt saman við hveitið. Svo er gervatninu bætt varlega saman við og það hnoðað þar til deigið er orðið að fallegum mjúkum klump. Látið hefast í 30-60 mínútur. Þegar deigið var búið að hefast var það lamið niður og klipið af deiginu minni klumpar sem voru flattir út, pennslaðir með olíu og saltaðir og pipraðir og grillaðir á rjúkandi grilli á báðum hliðum í nokkrar mínútur þar til fullbakað.

Maturinn var svo borið fram með einföldu salati, græn lauf, nokkur basil lauf, mozzarellaostsneiðar, plómutómatar og niðurskorin rauð vínber.

Ákaflega vel heppnuð máltíð. Svona kássur verða betri daginn eftir þannig að ég er farin að hlakka til að gæða mér á henni á morgun þegar ég vakna eftir næturvaktina sem ég er að fara á.


No comments:

Post a Comment