Monday 28 May 2007

Náttverður í sumarbústað

Ég er búinn að vinna mikið undanfarna daga. Það skýrir hversvegna lítið hefur verið um færslur síðan á þriðjudaginn. Ég eldaði ég pasta tricolore - starfsmenn í vinnunni virðast hafa kunnað að meta uppskriftina - á þó eftir að heyra hvernig fólki gekk. Það er rosalega gaman að heyra að fólk er að reyna uppskriftirnar mínar - og oft með góðum árangri - það fær mann næstum til að roðna.

Fór í mat til bróður míns á fimmtudagskvöld. Við erum báðir miklir unnendur KFC tower zinger - sem er sennilega besti borgari sem seldur er á skyndibitastöðum. Kjartan bróðir fékk þá hugmynd í að mögulega væri hægt að gera þetta betra heima - hann hafði rétt fyrir sér - meira um það síðar!

Ég er búinn að vera að vinna um helgina. Það er búið að vera nóg að gera um helgina á bráðamóttökunni á Hringbrautinni. Ég var þó heppinn og fékk frí á annan í hvítasunnu. Snædís fór með börnin í bústað fyrir helgina og ég gekk til við liðs við þau sunnudagskvöldið. Kvöldið gat einhvern veginn ekki verið betra. Villi var ennþá vakandi þegar ég kom í bústaðinn, Valdís var að veiða útá bát með fólki í næsta bústað ... náði einum urriða. Hún var voðalega stolt.

Þegar klukkan fór að halla að ellefu fóru þeir sem voru vakandi í pottinn. Sólarlagið var geysifallegt til norðvesturs og tunglið lúrði yfir snæviþaktri Esjunni. Stemmingin var meiriháttar. Bjór í annarri og væmnin í hinni. Pabbi fór snemma úr pottinum og lofaði að elda náttverð. Ég hef einhvern tíma bloggað um nattemad föður míns ... hann galdrar fram stórkostlegar máltíðir þegar fer að halla að miðnætti. Ekkert gæti verið betra þegar maður hefur fengið smá rauðvín eða smá bjór ... eða bara mikið af hvoru.

Náttverður í sumarbústað.

Í þetta sinnið hafði sá gamli fengið þá flugu í höfuðið að djúpsteikja ost. Fátt betra. Gallinn var bara sá að ekki var til nein brauðmylsna. Pabbi brá á það ráð að nota heilhveiti í stað mylsnunnar og það var ekkert síðra. Fyrst var mismunandi ostum, bláum og hvítum höfðingja og gráðosti, velt upp úr hveiti, svo í eggjahræru og svo lagt í heilhveitið sem hafði verið blandað með salti og pipar. Þetta var svo djúpsteikt úti á palli. Bjútifúl.

Pabbi var í einhverju stuði og vafði prosciutto crudo utan um stóra kanadíska hörpuskel, sem hann pennslaði með hvítlauksolíu og sítrónusafa og grillaði skamma stund.

Þetta var svo borið fram með brauði sem hafði verið pennslað með hvítlauksolíu og grillað þar til það var stökkt. Með þessi var svo einnig einfalt salat og heimagerð krækiberjasulta - berin tínd í Eyjadalnum - einum af þessum dásamlega fallegu dölum sem ganga inn í Esjuna.

Svona máltið tryggir að samkvæmisflensa verður í algeru lágmarki.


No comments:

Post a Comment