Monday 14 May 2007

Grillaður sítrónugljáður kjúklingur með timian

Okkur hjónum var boðið í brúðkaup í gær. Dögg og Grímur, vinir okkar hjóna gengu í hjónaband í Skálholtskirkju og svo var haldin veisla á Hótel Geysi. Brúðkaupið og sérstaklega veislan var meiriháttar. Augljóst að Dögg og Grímur hafa skipulagt allt í þaula. Maturinn var frábær, stemmingin einstök og allir skemmtu sér konunglega. Dansað var fram á rauða nótt.

Grímur og Dögg báðu mig um að hjálpa sér með eftirréttinn. Einhvern tíma á haustmánuðum komu brúðhjónin í mat til okkar hjóna, þá hafði ég eldað pavlovu í desert. Ég hef bloggað um pavlovu áður. Grímur, eins og aðrir, var mjög hrifinn. Ég bauðst til þess að búa svona kökur til ef þau myndu einhverntíma ganga í það heilaga. Allavega brúðkaupið var í gær og ég bjó til 14 pavlovur fyrir 130 manns - með hindberjum, jarðaverjum, brómberjum, bláberjum og ástaraldinum. Þetta heppnaðist vel. Fæ vonandi sendar myndir og skelli þeim á vefinn minn.

Við komum heim seinnipartinn. Alltaf þegar ég er haldin samkvæmisflensu langar mig í gott að borða - ekki mjög ólíkt því sem gerist aðra daga - nema hvað oft er þörf en á þessum dögum er nauðsyn. Það rættist aldeilis úr þessum degi. Sól, heiðskýrt, rólegt eftir kosningaþruglið í gærkvöldi. Við stoppuðum í búð á leiðinni í bæinn og keyptum heilan ferskan kjúkling. Ég er búinn að elda kjúkling ansi mikið undanfarið. Ég gat einhvern vegin ekki huxað mér að hafa fisk á sunnudegi og heldur ekki neitt þyngra en kjúkling þar sem við höfðum verið í rosalegri matarveislu kvöldið áður. Úr varð kjúklingur - ekkert leiðinlegt við það þar sem það er eitt að mínum uppáhalds mat.

Grillaður sítrónugljáður kjúklingur með timian. sítrónukjúlingur

Það var svo fallegt veður í kvöld að ég eldaði úti á svölum. Þó að það var aðeins rok útí þá var alveg logn á svölunum og funheitt var útí. Þetta var dásamlegt.

Undirbúningurinn hófst með því að útbúa sítrónuolíuna. 60 ml af extra jómfrúarolíu sett í krukku og safi úr tveimur sítrónum bætt saman við. Hrist vel saman. 1 heill kjúklingur er þveginn og þurrkaður og klipptur upp og flattur út þannig að bringurnar liggja hlið við hlið og leggirnir til hliðanna. 30 ml af sítrónuolíunni er dregnir upp í sprautu og stungið á bringunum og 15 ml settir í hvora bringuna. Svo er sítrónuolíunni hellt yfir kjúklinginn og nuddað inn i haminn. Börkur af einni sítrónu er raspað yfir kjúklinginn. Svo er um 1-2 tsk af þurrkuðu timian sáldrað yfir. Í lokin er saltað og piprað eftir smekk. Grillað á heitu grilli á óbeinum hita - sem þýðir ekki er beinn hiti undir fuglinum...nema í lokin þegar kveikt er undir til þess að hamurinn grillist fallega. Þetta mun taka um 5 kortér - eða þartil kjarnhiti náði 82 gráðum. Fuglinum er snúið reglulega.

Með kjúklingum var sósa sem ég bjó til á gashellunni hliðana á grillinu - allt úti á svölum, meiriháttar!!! Fyrst hitaði ég pönnuna - hellti svo afgangnum af sítrónuolíunni útá hana, þegar hún var farin að hitna setti ég þrjú smátt skorinn hvítlauksrif og steikti/sauð í skammastund svo bætti ég niðurskornum blaðlauk, niðurskornum sveppum og steikti þar til farið að mýkjast aðeins og svo var sett eitt glas af hvítvíni, 250 ml af vatni, hálfum kjúklingatening og suðunni leyft að koma upp. Svo var 50 gr af rjómaosti sett saman við og saltað og piprað auk þess sem ég setti 1 tsk af sykri til að ná góðu jafnvægi á sósuna. Sósan var svo soðin mikið niður þannig að hún varð þykk og bragðmikil. Í lokin var smátt skorin fersk steinselja og basil bætt útí og leyft að hitna í 1-2 mínútur þar til hún var borin fram. kartöflur

Meðlæti að þessu sinni var ein bökuð kartafla og ein sæt kartafla sem ég sneiddi niður í hálfs sentimeters þykkar sneiðar. Þær voru pennslaðar með hvítlauksolíu, saltaðar og pipraðar.  Grillaðar á heitu grilli á hvorri hlið í 2-3 mínútur þannig að þær voru grillaðar á utanverðunni og svo voru þær settar á efri grindina og fengu að bakast þar til kjúklingurinn var tilbúinn. Fersku niðurskornu dilli var svo sáldrað yfir venjulegu kartöflurnar og steinselju yfir sætu kartöflurnar.

Með þessu var borið fram einföld salatblanda og Lindemans Chardonnay hvítvín. Frábær endir á góðum degi.


No comments:

Post a Comment